Leita í fréttum mbl.is

Hugsjónaprinsinn Ólafur bóndi að Miðhrauni I. lætur ekki deigann síga

hross3.jpgEr nú af sú tíð er Ólafur bóndi og útgerðarmaður að Miðhrauni I. í Miklholtshreppi sagði stórglæpamönnum sögur á kvöldvökum Kvíabryggju. Sagnamennska þessa merka þuls yfir stigamönnunum þar vestra var hugsjónastarf bóndans og mannúðarviðleitni sem seint verður fullþakkað. Á Kvíabryggju vann Ólafur bóndi mikið og merkilegt frumkvöðlastarf, sem fólst í fórnfúsri og óeigingjarnri baráttu fyrir rauðvíni á borð fanga og reiðnámskeiðum, því hvað er fegurra en rauðvínsfullur fangi á þeysireið um garða fangélsins að Kvíabryggju á Snæfellsnesi.

Og hugsjónaprinsinn Ólafur útvegsbóndi að Miðhrauni I. lætur sér ekki nægja hokra að hrossum á Snæfellsnesi og berjast fyrir réttindum fanga þar um slóðir. Í Frans hefir hann hann komið upp merkilegu búi að Pur Chevel, sem í lauslegri þýðingu gæti kallast Paurakot, og þar ríður hinn íslenski stórbóndi um tún og töðuvelli á risastórum graðhestum og jóreykirnir fylla dalskvompuna hvar bærinn Paurakot stendur svo ekki sést út úr augum þegar mest gengur á.

Í tilfelli Ólafs bónda má segja að stórmennum af hans kalíberi séu útrásir í blóð bornar; stórsiglingar á langskipum og  strandhögg eru ær og kýr slíkra garpa fyrir utan fangahjálp og reiðnámskeið. Víst er um það, að á bæjartúninu í Paurakoti eru ,,haldin merkileg hestamót" svo vitnað sé til orða húsfreyju Ólafs bónda því þar frísa á stalli ekki ómerkari íslensk hross en Sörli sá er Grímur orkti um og heygður var ,,Húsafells í túni" og hinn merki stólpagripur, Krapi" sem Steinar bóndi í Steinahlíðum færði danakonungi að gjöf; en þessi góðhross lét Ólafur bóndi töframenn sína endurlífga. Enn fremur má sjá á beit í Paurakotstúni inu franska truntuna djáknans af Myrká sem og klár þann skjóttan sem helst vann sér til frægðar að hlaupa fyrir björg með sýslumann á bakinu með þeim hryggilegu afleiðingum að báðir létust. Ekki má heldur gleyma sebrahestunum í Paurakoti, en þá lét Ólafur bóndi flytja til sín frá Afríku, en þeir eru nú aðallega ætlaðir fyrir börn góðra hestamanna að fá sér sprett á.  


mbl.is Ólafur Ólafsson og Ingibjörg með eina löglega keppnisvöllinn í Frakklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Jóhannes.

Sjaldan lesið eins sanna lýsingu á þessum útrásarmönnum okkar;

"Í tilfelli Ólafs bónda má segja að stórmennum af hans kalíberi séu útrásir í blóð bornar; stórsiglingar á langskipum og  strandhögg eru ær og kýr slíkra garpa fyrir utan fangahjálp og reiðnámskeið".

Það má sko ekki gleyma fangahjálpinni og reiðnámskeiðunum.

Takk enn og aftur fyrir yndislega pistla.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 19.8.2020 kl. 13:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband