Leita í fréttum mbl.is

Tannbúskapur hennar var ein tönn, en sú tönn var líka jaxl, takið eftir því

gryKerlingarboran, tryllt í sinni og viti sínu fjær, skóf hlandsteininn innan úr koppnum Ólafs bónda með teskeið. Í munni sínum hafði hún eina tönn, - það var jaxl,- því var hún kölluð Jónasína Jaxl. Og nú var hún með tannpínu, voveiflegan sting í jaxlinum svo við lá að höfuðið spýttist af henni eins og fallbyssukúla. Vond hafði ævi hennar verið en nú kastaði tólfunum og hún sparkaði eldhúsborðinu um koll og soðningin, nýfærð úr pottinum, kastaðist upp á vegg. Svo skreið hún grenjandi undir rúmbælið Ólafs bónda og krækti með löngutöng í handfangið næturgagnsins og dró það fram í dagsljósið.

Ennþá hafði kerlingarboran haukfrána sjón og nú hvessti hún glyrnurnar báðar tvær ofan í helvítis hlandkoppinn. Það stóð heima, koppurinn var hálffullur af fúlu þvagi úr bóndanum Ólafi. Nú hellti hún varlega úr þessu annarlega þefjandi íláti út um gluggann. Síðan mundað kerlingin volandi teskeiðina og skrapaði koppinn innan. Útkoman var tæplega hálf teskeið af forláta hlandsteini sem þetta örvasa gamalmenni setti á fingur sér og bar á hinn hryllilega jaxl.

Undir eins og hlandsteinninn koma á skemmdina kraumaði dálítið og það kom mógulur reykur út úr þeirri gömlu, sem gretti sig svo að hún varð eins og Andskotinn í framan. Hún greip andann á lofti og missti um leið alla stjórn á líkamsvessunum. En hlandsteinninn Ólafs bónda var sterkur og drap hinn drepandi tannverk í jaxli konunnar. Það réttist úr henni og hún kveikti sér í hálfreyktum vindli og laumaði á að giska matskeið af neftóbaki undir neðri vörina. Um kveldið skellti kerlingarboran sér á dansleik og hagaði sér mjög dólgslega; hún fór af offorsi kræklóttum höndum um fólkið er sté dans á gólfinu og kleip í nárann á því. Þegar dansleiknum lauk var búið að setja kerlinguna í strigapoka, sem Ólafur bóndi snaraði á bak sér þegar hann hélt heim á leið. Kerlingarskrattinn spriklaði heil ósköp í pokanum svo Ólafur bóndi fór að hugsa um að kasta henni í fljótið eða fyrir fertugan hamarinn. Hann lét samt ekki eftir hugsunum sínum en skildi kerlinguna í pokanum eftir í fjósflórnum.


mbl.is Þingmenn gætu misst stæðin við Tjörnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband