Leita í fréttum mbl.is

En Guðni Th. blindaði þá báða í einni svipan

guðni th.Þeir voru líka tveir saman, helvítin atarna, sem veittust að hinum prúða heimilisketti Guðna Th. þar sem hann var erinda sinna í blómabeði nágrannana. Það var augljóst frá byrjun hvað þessir tveir ætluðu sér varðandi Guðna Th. því þetta voru blóðgrimm villudýr sem aldrei höfðu gott í hyggju. Þeir stukku að Guðna Th. hvor úr sinni áttinni og hugðust slíta hann sundur á minni sín. En Guðni Th. sá við djöflunum á ögurstundu og sló til beggja í sömu andrá með þeim árangri að hárbeittar klærnar sneyddu sundur glyrnurnar á þeim. Síðan hafa þessir morðóðu hundar verið staurblindir og hafa þurft blindrahund til að leiða sig um stræti og torg bæjarins.

Ekki voru hundarnir sem ætluðu sér að myrða Guðna Th. með því að slíta hann millum sín í tvennt ungverskrar ættar eins og helvítin sem káluðu kettinum í Laugarnesi. Þeir voru kynjaðir af standi blóðhunda, sem hafðir eru til að elta uppi minka og refi, og töldu sig því fyrirfram eiga alskostar við einn gulbröndóttan kattarfjanda, sem sat á hækjum sínum í blómabeði. En það fór á aðra leið, eins og fyrr greinir, og hljóðin í blóðhundunum þegar þeir glötuðu sjóninni voru óhugnanleg, hrottalega voveifleg, svo þeir sem til heyrðu hafa ekki náð sér síðan. Sá eini sem hefir náð sér er Guðni Th. því þegar hann sér hund álengdar sendir hann þeim uggvænlegt tillit svo þeir hlaupa ýlfrandi heim.

Sem kunnugt er eru kettir ævinlega í sambandi við nornir. Þeir útvega þeim ýmis efni sem þær þurfa á að halda en eiga erfitt með að afla sér sjálfar, þrátt fyrir að geti flogið um loftin blá á strákústum. Guðni Th. er til að mynda í viðskipta sambandi við norn, sem er í senn afleitur vargur og mannæta ef því er að skipta; hann hefir jagað hrafna og fært norninni, sem tekur úr þeim gallið, sem er nauðsynlegt til að gjöra galdra mögulega. Músarindla hefir Guðni Th. veitt fyrir nornina, sem og fáséna fugla eins og snæuglur, sem fást á bak Kaldnasa. Einnig hefir Guðni Th. farið inn um glugga hjá ókunnugu fólki og stolið óhreinum nærbuxum af vergjörnum kérlíngum sem þar búa, en úr þeim flíkum sýður nornin ómetanlegt seyði, sem hún selur óvönduðu fólki fyrir morð fjár. Að framan sögðu má ljóst vera að Guðni Th. er metfé og vitur, ráðagóður og skynsamur með afbrigðum.


mbl.is Hundarnir komnir í hendur eigenda sinna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband