Leita í fréttum mbl.is

Hvernig síra Baldvin kvað niður heimilisofbeldi í sóknum sínum

grénjirÞegar síra Baldvin tók við embætti í Staðarsóknum og Gemlufallaprófastsdæmi var mikið um heimilisofbeldi þar um slóðir. Heimilisfeðurnir voru slægir og konur þeirra lúmskar og illskeyttar þegar út í harðan leik var komið. Fyrst laugardagskveldið er síra Baldvin var á staðnum kom hann þar að sem nokkrir fílefldir og tröllslegir lögregluþjónar voru að bisa við að koma bandvitlausum húsbónda út í lögreglu bíl og í kjölfar þeirra báru sjúkramenn húsfreyjuna í öngviti á börum út um dyr heimilisins, en inni á gangi grétu börnin sem brjáluð væru og rödd þeirra minnti á ráma og gráðuga hrafnsunga. Síra Baldvin sá strax að hann var kominn meðal illmenna og hrotta og hugsaði sér þarna á staðnum gott til glóðarinnar að lækka rostann í þessum óguðlegu djöflum sem byggðu prestakallið.

Daginn eftir voru óði heimilisfaðirinn og rotaða húsmóðirin komin heim, rytjuleg, bæði með glóðaraugu, hún eftir manninn en hann eftir lögregluna, og það var daufur heimilisbragurinn þá stundina. En varla voru umræddir húsráðendur komnir aftur heim en bankað var upp á hjá þeim og fyrir dyrum stóð risavaxinn maður, sorglega illilegur á svip, svartur í augum og með þær alstærstu höndur sem sést höfðu á nokkrum manni. Ekki hafði risinn neinar vöflur á, heldur vóð inn í hjónaherbergi, reif húsbóndann fram úr og dró hann í stofu þar sem hann kaghýddi kauða fyrir augunum á blessuðum börnunum. Fljótt kom konan á vettvang og ætlaði ekki að trúa sínum eigin augum er hún leit bónda sinn í krumlum risans. Svo féll hún á kné og vegsamaði Guð fyrir að hafa sent alminnilegan mann á vettvang til að typta hinn vonda og lítilsiglda húsbónda, sem gjörði sér að ljúfum léttum leik, er hann var drukkinn, að græta börnin og berja eiginkonuna, oftast nær til ólífis.

Næstu vikur hafði síra Baldvin í nógu að snúast við að taka í lurginn á sóknarbörnunum og lægja öldurnar uns honum hafði tekist að koma skikk á hlutina. Hann tók upp skyldumætingu í messur og þar lét hann hinn villta lýð heyra það, sem það hafði aldrei heyrt áður við guðsþjónustur. Nokkur ruddamenni í prestakallinu vildu ekki gangast undir þann aga sem hinn nýi sóknarprestur bauð þeim og drukku sig fulla og sátu fyrir síra Baldvini er hann fór í kveldgöngu sína um þorpið. Það er í eina skiptið sem hvarflað hefir að mönnum að bekkjast við þennan guðsmann á þann hátt. Ekki var nóg með að síra Baldvin marg-hlæði þeim í götuna og rotaði þá hvurn af öðrum, heldur bannfærði hann þrjótana strax næsta dag við sérstaka athöfn í höfuðmusteri prestakallsins, sem hann boðaði til morguninn eftir. Þar með voru ribbaldarnir burtrækir úr samfélagi siðaðra manna og guðsbarna og seldir Djöflinum á vald. Með þessu móti, já og með ýmsum öðrum kröftugum meðulum, hefir síra Baldvini tekist á undraverðan hátt að halda uppi kristilegum aga í sóknum sínum.  


mbl.is Einn handtekinn og annar eftirlýstur vegna heimilisofbeldismála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband