Leita í fréttum mbl.is

Sú annálaða veiðikló.

Brandu gamli, sú annálaða veiðikló, lá á vínrauðum flauelspúða inni í stofu og reyndi að láta fara vel um sig. Honum var hálfíllt innan um sig því hann var nýbúinn að eta ofan í sig þrjár spikfeitar skólprottur. Hann var svo saddur að hann hefði getað ælt. Og satt var það, hann hafði mörg líf á samviskunni því fyrir hans tilstilli hafði hverfið hans verið hreinustu útrýmingarbúðir árum saman, því auk músa og rotta,hafði hann svelgt í sig frá unga aldri allar maríuerlur, skógarþresti og hrossagauka sem á vegi hans höfðu orðið. En mest púður þótti Brandi samt í þegar hann vann á stokkandarsteggnum, þessum nautheimska og montna fugli. Það var sko krás. Einu sinni, þegar Brandur var ungur, hafði hann drepið mink. En það var svo vond lykt af minknum, að Brandur hafði guggnað á að leggja hann sér til munns. Nú var Brandur hér um bil sestur á friðarstól, enda fátt um alminnilega veiði núorðið. Svo voru afkomendurnir orðnir margir og hver öðrum snjallari í veiðiskap og samkeppnin um veiðina því hörð. En Brandur gamli  var bærilega ánægður með sitt hlutskipti; lét sér nægja eina og eina rottu, svona annað slagið, til að halda veiðigetunni við. Að öðru leyti lét hann gerilsneydda nýmjólk úr pappafernu og soðna ýsu duga. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband