Leita í fréttum mbl.is

Upplífgandi sorgargleðileikur á Akureyri.

Satt að segja hefur Lúkasarmálið mikla virkað eins og hver önnur ómetanleg guðsgjöf í fréttafásinninu hér á mörkum hins byggilega heims. Og auðvitað eru það Akureyringar sem fara með öll hlutverkin í þessum súrrealíska ærslaleik; í þessu tilfelli þýðir ekkert fyrir Akureyringa að klína endemunum á aðkomumenn eins og venjulega. Ég verð að viðurkenna, að ég varð dálítið undrandi þegar ég heyrði fyrstu fréttir af þessu máli, en þá var þar komið sögu, að Lúkas var kominn ofan í íþróttatösku sem akureyrískir ungtyrkir höfðu ofan af fyrir sér með að sparka í. Það fylgdi sögunni, að við hver spark, a.m.k. framan af, hefði Lúkas hljóðað ámátlega en akureyrísku ungliðarnir glaðst að sama skapi. Næstu fréttir af norðan hljóðuðu upp á að Lúkas væri andaður og líkið týnt en minningarathöfn og kertafleyting yfirvofandi. Þegar þar var komið, fór hefnigjörnu fólki að hlaupa kapp í kinn og það fór að senda meintum forsprakka fyrir aftöku Lúkasar, sem virðist hafa verið valinn af handahófi, mergjaðann SMS-póst þar sem honum var hótað sömu afgreiðslu og Lúkas fékk. En svo kom heldur en ekki babb í bátinn þegar fréttist í einni svipan um allt land, að Lúkas hundur væri upprisinn og hefði sést á hlaupum í fjallshlíð fyrir ofan Akureyri. Og nú hafa sem sé orðið þau umskipti í þessum annars fjörlega sorgargleðileik, að vopnin hafa heldur en ekki snúist í klónum á þeim hefnigjörnu, sem eiga nú yfir höfði sér kærur og jafnvel fangelsisvist.

Og öll eru þessi ósköp út af einu í meðallagi fallegu hundspotti.


mbl.is Hyggst fara alla leið með Lúkasarmál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þetta er alveg ótrúlega fyndið, nema að einu leyti og það er ofbeldið sem fólk hefur sýnt ungum manni og fjölskyldu hans út af þessu máli.  Og sýnir svo ekki verður um villst að hér býr frumstæð villimannaþjóð, sem hefur lagt yfir sig skykkju hræsninnar.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.7.2007 kl. 08:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband