Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Samstarfsflokkur úr gömlu drasli.

Nú já. Þar kom það. Það leikur enginn vafi á, að Sjálfstæðisflokkurinn hefur leitað í vor til hins indverska Ferozar Siddiki og vélað hann til að smíða handa sér nýjan samstarfsflokk úr ,,gömlu drasli." En samkvæmt heimildum kann Feroz þessi að búa til vélmenni, sem getur gengið og talað, úr gömlu drasli. Svo er að sjá, að gripurinn sem Feroz karlinn útbjó fyrir Sjálfstæðisflokkinn sé vel heppnaður og geti orðið til nokkurs gagns fyrir verkkaupann í Valhöll.
mbl.is Hjálplegt vélmenni smíðað úr gömlu drasli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Össur Börsson

Rétt áðan lauk fyrsta þætti Egils Helgasonar, Silfur Egils, á ríkissjónvarpinu. Meðal annarra gesta Egils, að þessu sinni, var Össur nokkur Skarphéðinsson, sem nú er orðinn ráðherra, og telst því áreiðanlega, samkvæmt eigin mati, ,,einn af þeim stóru" í þjóðfélaginu. Össur þessi á orðið nokkuð langa og æði sérstæða sögu í Íslenskum stjórnmálum, mjög litaða athyglissýki af hvimleiðu tagi. Nú er svo komið, að fólki verður æ meiri raun af að hlusta á sjálfsánægjugaggið í honum í hvert skipti sem hann opnar munninn á opinberum vettvangi. Ég er svo sem löngu búinn að átta mig á, að Össur Skarphéðinsson ráðherra, er fyrst og fremst pólitískt skoffín sem betra væri að vera án; nokkurskonar sérútgáfa af endeminu Bör Börssyni, sem alþýða manna á Íslandi skemmti sér við að hlægja að þegar sagan af honum var lesin útvarpinu fyrir rúmum sextíu árum. Í fyrrnefndu Silfri Egils var engur líkara en sjálft erkiviðrinið frá Öldurstað í Noregi væri mætt í eigin persónu í sjónvarpssal, hneggjandi og dæsandi, í þeirri fullvissu að hann væri yfirburðarséní. Svo er að sjá sem Össur, sem í vor kvaðst kalinn á hjarta eftir fyrrir ríkisstjórnarsetu með Sjálfstæðisflokknum, sé yfir sig ánægður með vera kominn í selskap með strengjabrúðum og vikapiltum auðvaldsins og frjálhyggjunnar; vera með öðrum orðum, orðinn gildur limur í hinum pólitíska armi auðvaldsins á Íslandi, sem verður, að því er best verður séð, æ spilltara og gráðugra með hverjum deginum sem líður. Það er gömul saga og ný, að ,,litlir karlar" leita sér ævinlega skjóls undir verndarvæng auðstéttarinnar og láta ekki á sér standa, hvenær sem færi gefst, að smjaðra fyrir húsbændum sínum. Slíkur smákarl er Össur Börsson, sem í einfeldni sinni er þeirrar skoðunar að hann sé svo sannarlega einn af þeim ,,stóru."   

Leyfum Útnesjamönnum að berjast.

Ekki bregðast þeir fremur en fyrri daginn blessaðir Reyknesingarnir þegar helgarslagsmál eru annarsvegar, enda ekki að spauga með þá Útnesjamenn, sem eru þjóðkunnir fyrir taka sér fyrir hendur hluti sem ekki nema ofurmennum ætlandi er. Og auðvitað var það óviðunandi heimskulegt af lögreglunni að láta sér detta í hug að hjóla í sönn ofurmenni, sem í glaðværð sinni voru að reyna með sér kraftana. Að sjálfsögðu létu hinir knáu Suðurnesjamenn ekki árás lögreglunnar ósvarað, með þeim fyrirsjánlega árangir að lögreglan varð skelfingu lostin og dró upp táragas til að bjarga sér frá hraksmánarlegri yfirhalningu. Ég legg því til, að lögreglan láti ofurmenni Suðurnesja í friði um næstu helgi og leyfi þeim að hafa fangbrögð á götum úti að vild sinni og fái þar með útrás fyrir eðli sitt, sem er ,,ólgandi sem hafið og eldfjallaglóð", eins og segir í kvæðinu.  
mbl.is Táragasi beitt til að leysa upp slagsmál í Reykjanesbæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynferðisafbrotaferli afstýrt

Morgun einn, á rúmhelgum degi, þegar Arinbjörn var að snæða morgunverð, laust skyndilega ofan í huga hans, hvort hann, Arinbjörn Arinbjörnsson, ætti að gerast kynferðisafbrotamaður. Og áður en hann vissi af, var hann farinn að velta fyrir sér, alvarlegur í bragði, hvort einhver grundvöllur væri fyrir slíkri háttsemi af hans hálfu. Þegar hann hafði gaumgæft málefnið um stund í víðu samhengi, áttaði hann sig á, að hann hafði ekki hugmyn um í hverju þessi nýtilkomna afbrotahneigð ætti að vera fólgin og enn síður að hverjum hún ætti að beinast. Og Arinbjörn furðaði sig á hvernig í dauðanum honum hefði dottið annar eins viðbjóður í hug. Í sömu andrá minntist hann dálítillar stöku, sem hann hafði lært fyrir löngu og var sannast sagna búin að vera honum gleymd í fjölmörg ár. En nú stóð þessi gamla staka honum skír fyrir hugskotssjónum eins og skær reikistjarna á skýlausum næturhimni:

Kriminelt er kynvilla.

Konum ríða áhætta.

En að gilja greip sína

er geysi mikil fúlmennska.

Og Arinbirni létti stórum því öll áform hans um afbrotaferil á kynlífssviðinu hurfu úr huga hans eins og hendi væri veifað. Lítil staka hafði komið honum til hjálpar á ögurstund og sýnt honum svart á hvítu, að hann væri kominn út á hálann ís. Og Arinbjörn spennti greipar og þakkaði Guði, af hrærðu hjarta, að hann skyldi alltaf hafa haft vit á að kynna sér nytsaman skáldskap frá því hann var ungur maður.   


Höggmynd af Framsóknarflokknum.

Athyglisverð höggmynd atarna og ætti að geta orðið okkar hæfileikaríku listamönnum kveikja að verkum í svipuðum anda. Ég gæti alveg hugsað mér höggmynd af Framsóknarflokknum á líkbörunum, ef hann hefði þurrkast út af þingi í vor. Þá væri ekki amalegt eiga dauða Samfylkingarinnar inn í Sjálfstæðisflokkinn úthogginn í granít, öðrum ólánsgemlingum til varnaðar.
mbl.is Höggmynd af Harry á líkbörunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kukkur í blómapottinum.

Þegar Golli litli var 10 ára, kom hann stórum alvöru mannakukk fyrir í blómapotti heima hjá sér, hulinn örþunnu lagi af mold. Kukkinn hafði hann fundið bak við skúr hjá Sigurbergi gamla sjómanni, sem stundum var til vandræða á sínum heimaslóðum. Svo fór sólin að skína inn um stofugluggann heima hjá Golla litla og á blómapottinn, hvar kukkurinn hvíldi og upp úr því fór einkennilegur fnykur á stjá um allt húsið. - Hvaðan kemur þessi eiturfýla mamma? spurði Sóley systir Golla, sem var 15 ára. Og heimiliskötturinn Manus lét sitt ekki eftir liggja; varð eins og spurningarmerki í framan þá hann nam þefinn, lagði síðan eyrun aftur stórhneykslaður og lét sig hverfa úr húsi. Á öðrum degi var lyktin orðin svo römm, að mamma Golla litla hélst ekki við lengur og fór sömu leið og kötturinn. Þá voru til kvaddir iðnaðarmenn, sem brutu upp gólfið, svo úr varð margra metra skurður, til að komast að klóaklögninni sem þar var undir, því allir héldu að lyktin af kukknum í blómapottinum ætti rætur að rekja til bilunar í frárennslisröri. Iðnaðarmennirnir skiptu um lögn, steyptu yfir og hurfu síðan á braut. Smám saman dofnaði fnykurinn í húsinu og var orðinn svo viðráðanlegur að tíu dögum liðnum, að bæði kötturinn Manus og mamma Golla litla gátu snúið heim úr útlegðinni.

ESB-þráhyggja Samfylkingarinnar.

Ja lítið er geð guma á þingi Starfsgreinasambandsins, ef það er forgangsverkefni þessa þings að hlaupa á eftir ESB-þráhyggju Samfylkingarinnar. Það kom svosem engum á óvart að hægri-kratadindillinn í formannsstóli Starfsgreinasambandsins eyddi drjúgum hluta setningarræðu sinnar í þessa hvimleiðu þráhyggju, en að þingið tæki í mál að samþykkja þetta kjaftæði er með endemum og tekur út yfir allan þjófabálk. Hvað ætli starfsgreinaforinginn og hans dót gefi eftir í næstu kjarasamningum verkafólks í staðin fyrir að ríkisstjórin skipi nefnd til að kanna áhrif á upptöku evru og aðild Íslands að ESB? 
mbl.is Mikilvægt að kannað verði hvort ESB og evra þjóni hagsmunum Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vér ræningjar !

ÞJÓFNAÐUR ALDARINNAR


Ég má til með að vekja athygli blogglesenda á tveimur ágætum greinum á heimasíðu Ögmundar Jónassonar http://www.ogmundur.is. um tröllauknar einkavæðingargripdeildir auðvaldsins á Íslandi í skjóli velviljaðs ríkisvalds,  Annarsvegar eru það skrif Ögmundar sjálfs undir fyrirsögninni ,,Vér ræningjar," en hinsvegar grein Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, ,,Einkavæðing Íslands?". Það gleður mig satt að segja mikið að Ögmundur og fleiri í hans flokki eru í auknum mæli farin að beina sjónum sínum að ránsskapnum sem átt hefur sér stað í fiskveiðiauðlindinni. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Ég get ekki stillt mig um að láta upphaf þessara tveggja greina fylgja með og gef Ögmundi fyrst orðið:

,,Eignatilfærslur frá almenningi yfir til fjármálamanna í tengslum við einkavæðingu ríkiseigna á undanförnum árum hafa verið tröllauknar og hafa margir þar makað krókinn, jafnvel orðið milljarðamæringar og vilja nú ráðslagast ekki einvörðungu með íslenskt atvinnulíf heldur þjóðfélagið í heild sinni, menntun,listir, heilbrigðis – og umhverfismál.
Fyrst var sjávarauðlindin einkavædd, þá aðskiljanlegar arðvænlegar stofnanir og starfsemi sem áður skiluðu miklum fjármunum í almannasjóði sem núna renna í einkavasa. Og nú stendur fyrir dyrum að afhenda fjármagnseigendum fallvötnin og orkuna í iðrum jarðar."

,,Hin svokallaða frjálslynda umbótastjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar horfir nú upp á þá eyðileggingu sem kvótakerfið í sjávarútvegi hefur haft í för með sér: ástand fiskistofnanna er hörmulegt.,,

Alþingi fari að dæmi Yoko Ono.

Það er varla yfir neinu að bíða fyrir Alþingi íslendinga, að fara að dæmi Yoko Ono, og lýsa yfir stuðningi við Búddamunkana í Burma. Enn fremur ætti sama Alþingi að hunskast til að draga stuðning sinn við innrás Bush og Blair í Írak til baka og biðja bæði Íslensku þjóðina sem og þá Íröksku fyrirgefningar á famferði þeirra sem stóðu að stuðningnum.
mbl.is Yoko Ono lýsir stuðningi við Búddamunka í Búrma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dómstóll Alþýðunnar og auðgunargengið.

Af einhverjum ástæðum leiðir þessi frétt hugann ósjálfrátt að öðru gengi, sem farið hefur ránshendi um eigur og auðlindir almennings hér á landi undir verndarvæng og með fulltingi íslensku ríkisstjórnarinnar. Satt að segja þætti mér engin goðgá þó auðgunarbrotadeild lögreglunnar tæki umsvif umrædds gengis til forgangsmeðferðar og sparaði hvorki gæsluvarðhöld né aðrar aðferðir til að fá sem gleggsta mynd af framferði gengisins síðast liðin einn og hálfan áratug, eða svo. Í kjölfarið yrði skipaður Dómstóll Alþýðunnar, sem tæki niðurstöðu auðgunarbrotadeildarinnar til meðferðar og kvæði upp dóma.
mbl.is Enn einn handtekinn grunaður um aðild að þjófagengi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband