Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Hundspottið sem lýðurinn gerði að leiðtoga lífs síns.

Í vöggu skotraði hann augum lymskulega í kringum sig eins og hann hefði eitthvað ekki gott í huga - enda hafði hann ekkert gott í huga. Þegar hann komst upp úr körfunni, fór hann strax að huga að eignum annarra; og fróðleik til margs nýtilegann í eiginhagsmunaskyni nam hann fyrirstöðulaust í æsku. Upp úr því hóf hann að stunda gripdeildir og samsæri á skipulegan hátt. Ofbeldi var honum ekki fjarri og það innti hann af hendi á faglegan máta. Það var farið að kalla hann ,,skrúfstykkið" því hann sleppti engu sem hann á annað borð kom höndum á. Svo fór fólk umvörpum að líta upp til hans og óttablandin virðing lá í loftinu hvar sem hann fór. Hann tók fyrirfram margtryggt sæti á framboðslista Flokksins með því skilyrði að hann yrði mikill ráðherra að kosningum loknum. Framganga hans á stjórnmálasviðinu fór öll fram á gráu svæði landráða og föðurlandssvika og liðtækastur allra var hann í árásum á þá sem minnst tök höfðu á að bera hönd fyrir höfuð sér; af þeim sökum urðu kosningasjóðir hans og Flokksins digrir. Á meðað ógæfusamir ræningjar og misyndismenn mátu sæta að sitja bak við lás og slá, gekk hann um veislusali meðal sér samboðinna höfðingja. Hann var hundspottið sem lýðurinn gerði að leiðtoga lífs síns.

Þórður fiskistofustjóri og kjaftasögurnar.

Merkilegur maður þessi Þórður Ásgeirsson fiskistofustjóri. Alltaf er hann boðinn og búinn að bregðast til varnar gjafakvótakerfinu ef brottkast og kvótasvindl ber á góma í fjölmiðlum. Og auðvitað grípur þetta kerfisdýr til hefðbundinnar ósvífni og reynir bægja hættunni frá sér og þeim sem hann hefur tekið að sér að vernda með því að afgreiða brottkastið og kvótasvindlið sem kjaftasögur. Það má vel vera að fólk sem lítið eða ekkert hefur komið nálægt sjávarútvegi kaupi kjaftabullið í Þórði Ásgeirssyni fiskistofustjóra. Hinir sem til þekkja, gefa ekkert fyrir varnarviðbrögð þessa manns og vita sem er, að annaðhvort sé karlinn gjörsamlega úti á túni í starfi sínu eða hann leggi þann skilning í fiskistofustjórastarfið að það sé fyrst og fremst ætlað til að vernda hagsmuni sægreifaaðalsins og stórauðvaldsins. Og ansi er ég hræddur um að ýmsir þeirra sem starfað hafa og starfa enn sem veiðieftirlitsmenn hjá Fiskistofu séu lítt sammála því sem fram kemur hjá yfirmanni þeirra í þessari frétt. 
mbl.is Kvótasvindlið alltaf kært
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hann var margfalt hugrakkari í Kompásþættinum.

Nú eru menn farnir beita andlegu atgerfi sínu og hugmyndaflugi í þá veru, að ákvörðun sjávarútvegsráðherra um niðurskurð á þorski beri vitni um óumræðilegt hugrekki ráðherrans; gott ef herra Haarde er ekki forsöngvari í þessum gáfulega halelúíakór. Þó var ráðherrann ekki að gera annað en honum var sagt að gera.

Hitt er þó mála sannast , að Einar Kr. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra og ættarlaukur úr Bolungarvík, var margfalt hugrakkari fyrir fáeinum vikum síðan, þegar hann skrökvaði blákalt upp í opið geðið á þjóðinni í frægum Kompásþætti Stöðvar 2, að hann hefði bara aldrei heyrt nokkurn skapaðann hlut af stórfelldu kvótasvindli. Reyndar var ráðherragarmurinn ansi hreint stamandi og ánalegur í andlitinu þegar hann var að bera sig til við skrökið. En hugrakkur var hann, það verður ekki af barninu tekið.

 


mbl.is Einar K. Guðfinnsson:„ Gríðarleg vonbrigði"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýleg uppgötvun Vinstri grænna.

Ég held ég megi til með, að óska kunningjum mínum í VG til hamingju með að hafa uppgötvað, þó seint sé, að kvótakerfið sé gjaldþrota. Ég er þó ekki viss um að Steingrímur J. og Hjörleifur Gutt séu alveg sammála þessari fullyrðingu um gjaldþrotið, því þessar kempur voru síðast þegar ég vissi meðlimir í félagi kvótaaðdáenda.

Atli Gíslason, sem virðist hafa tekið að sér að vera talsmaður VG í sjávarútvegsmálum, virðist hafa tekið eftir að kvótakerfið er ekki vistvænt og er það gott. Ég veit nefnilega að innan VG hefur verið við lýði sú kynlega skoðun að kvótakerfið væri vistvænt og verndunarhlutverk þess hafið yfir allan vafa.

Að sögn Atla eru Vinstri-græn með tillögur að hliðaraðgerðum, svo sem að efla byggðastofnun, sérstakar aðgerðir gagnvart konum og efla sjávarpláss með því að færa hafrannsóknir til þeirra. Það sé ábyrgðaleysi að breyta kerfinu án úrræða og án þess að tilkynna á hliðarráðstafanir strax.

„Viðgerðir á húsum og vegum gagnast ekki konum. Það verður að efla símenntun, sem konur notfæra sé í miklum magni og að efla þjónustu við eldri borgara og skólana. Efla þarf tekjustofna sveitafélaga og veita sérstökum fjárframlög til þeirra sveitafélögum sem verst standa.“

Mikið óskaplega er þetta snakk í VG-Atla eitthvað innantómt og viðbrennt. Í þeim byggðarlögum sem orðið hafa fyrir búsifjum af völdum kvótakerfisins hefur skaðinn bitna jafnt á konum sem körlum. Ég fæ ekki séð af hverju viðgerðir á húsum og vegum gagnast ekki konum. Geta konur ekki starfað við vegagerð og húsaviðgerðir að mati VG? Eða koma landsbyggðarkonur ekki til með að nota viðkomandi vegi eða hús? Hvaða bölvað kjaftæði er þetta? Ég er handviss um, að ekki eitt einasta kvenfélag á landsbyggðinni myndi taka undir fílabeinsturnasjónarmið Græna Kvenfélagsins, VG-elítunnar, með Kolbrúnu Halldórs og Álfheiði Inga í fylkingarbrjósti. Hinsvegar skilst mér á orðum Atla, að VG sé verulega umhuga að troða konum í illa leiknum sjávarþorpum í ,,hefðbundin kvennastörf," svosem í þjónustu við eldri borgara og skólana, sem eru illa launuð af því að þau eru hefðbundin kvennastörf. 

Meiri vinstriflokkurinn þessi Vinstrihreyfing - grænt framboð! 


mbl.is VG: Kvótakerfið gjaldþrota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Félag skaðræðismanna og yfirgangshunda.

Hvernig í ósköpunum dettur sjávarútvegsráðherra og hans ráðgjöfum að heimila loðnuveiðar 1. nóvember næstkomandi? Getur verið að ráðherrafólkinu sé stjórnað eins og strengjabrúðum af hinum frægu ,,Hagsmunaaðilum" í LÍÚ? Og hvernig stendur á, að ráðherrann notar ekki tækifærið núna og bannar flotvörpuveiðar? Er þetta virkilega algjört vesalmenni?

Það getur orðið ansi snúið að stækka þorskstofninn þegar ætið sem þessi sami þorskstofn á að éta lendir meira og minna í fiskimjölsverksmiðjum.

En mesta vitið væri samt að leysa LÍÚ upp á stundinni, eins og hvert annað félag skaðræðismanna og yfirgangshunda. 


mbl.is Þorskkvótinn verður 130 þúsund tonn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góður og gegn sjálfstæðismaður látinn.

Það er víst kunnara en frá þurfi að segja, að Augusto Pinochet og hans hyski var í miklum metum hjá Sjálfstæðisflokksmönnum heimsins á sínum tíma. Aðdáun varasamra afturúrsiglara á illmenninu Augusto og hans böðlum náði meira að segja til Íslenskra Sjálfstæðismanna, sem tilbáðu þrjótinn í anda Margrétar Thatcher.

Nú þegar fréttir berast af því að pyntingameistari Pinochets sé andaður, sjötugur að aldri, má gera ráð fyrir að ýmsum merkilegum Sjálfstæðismönnum hérlendis vökni dálítið um augu og einhverjir þeirra muni þiggja áfallahjálp af dómkirkjuprestum landsins.


mbl.is Pyntingameistari Pinochets látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dómstóll Alþýðunnar.

Mikið óskaplega er svona óþverraskapur í takt við innræti og raunverulegar hugsjónir Sjálfstæðisflokksins.

Það er orðið löngu tímabært að stofna Dómstól Alþýðunnar á Íslandi til að taka á hinum fjölmörgu auðvaldsglæpum sem fá þrifist í skjóli Sjálfstæðisflokksins.


mbl.is Fötluð ungmenni fá ekki full laun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fölskvalaus andstyggð A. Lyngdalh á Þjóðfélaginu.

Það vað Arnfreði Lyngdalh vörubifreiðarstjóra gjörsamlega hulið hvernig stóð á fölskvalausri andstyggð hans á Þjóðfélaginu. Honum bauð við Ráðamönnunum, var aldeilis uppsiga við Kerfið, hataði Lögin og hundsaði Reglugerðirnar. Að öllu samanlögðu fannst honum koma vel til greina að gerast Landráðamaður og selja Þjóðina í hendur einhverjum Sterkum Manni, til dæmis Forstjóra Erlends Stórfyrirtækis, sem myndi stjórna með einföldum ráðum og liði ekkert múður og pex. Og drunurnar í vörubifreið Arnfreðs endurómuðu skoðun eiganda síns yfir Sveitir Landsins og komu mönnum til að líta andartak upp úr sinni rembingslegu sjálfsánægju, en Hundar lögðu niður skottin og földu sig í nærliggjandi skurðum.


Játning á banabeði.

Árum saman hafði þvagdaunn í stigaganginum valdið íbúum fjölbýlishússins ómældri raun og búsifjum. Hvernig sem skúrað var og skrúbbað upp úr öflugustu hreinlætisefnum, gaus óþefurinn á skammri stund upp aftur, stundum tvíelleftur og erti lyktarskyn fólks, súr og svakalegur. Fór og að lokum, að húsið fékk eigi staðist hlutverk sitt og urðu örlög þess, að stórvélaður vinnuflokkur á vegum borgaryfirvalda braut það í mola og keyrði í brott til urðunar. Íbúarnir, sem skömmu áður höfðu lagt á flótta, var komið fyrir út og suður, en fáeinir höfnuðu á vergangi. Áratugum síðar játaði Arinbjörn nokkur Kolbeinsson á banabeði, að hafa verið valdur að óláni hússins og óhamingju íbúanna.


« Fyrri síða

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband