Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Andaðist eftir 4200 blaðsíðna geðkrabba.

Mikið var að þvættingurinn um Harry þennan Potter sé loks á enda. Mér segja fróðir menn, að samsetningur frú Rowlings um ónáttúrupésann Potter sé með slíkum ólíkindum, að venjulegu fólki verði iðulega bumbult að lesa 20 - 30 blaðsíður af þessum undursamlegu geðslegheitum, hvað þá meira. En fremur hafa fróðir menn sagt mér, að fjöldi fólks, einkum ungmenni, liggi vistuð á geðveikrahælum út um allan heim eftir að hafa fengið lestrareitrun af pottersögum. Hún er til dæmis ljót sagan af eiginkonunni og móðurinni á fimmtugsaldri sem brjálaðist í miðjum klíðum yfir Potter-bók milli jóla og nýárs árið 2004 og hefur síðan hafst við í spennitreyju á geðdeild Landspítalans að Kleppi.

En um síðir, eftir hræðileg afdrif fjölmargra lesenda, hefur kerlingarsnípunni Rowling loks hugkvæmst að binda endi á ófögnuðinn með því að taka viðrinð Harry Potter af lífi á síðustu blaðsíðu sjöundu bókar, en þegar þar kom sögu hafð potterkvkindið þraukað einar 4200 blaðsíður, heimsbyggðinni til ama og skelfingar. 


mbl.is Harry Potter allur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsilegt framtak Saving Iceland.

Mikið þó andskoti var vel af sér vikið hjá hinu góða fólki í Saving Iceland samtökunum að skvetta málningu á hjallinn sem geymir ræðisskrifstofu Íslands í Edínaborg í Skotalandi. Ekki var síðra hjá þeim, að klína lími á læsingar kofans.  Sko, íslenskur auðvaldsskríll þarf ekki að ganga að því gruflandi að heimurinn fygist með umsvifum innlendra virkjunarþræla og erlendra alúmíníumbesefa. 

Hér áður og fyrr brúkaði auðvaldið klerkaveldi kirkjustofunarinnar til að dæla ópíumi í lýðinn í formi loforðaflaums um sæla vist í himnaríki, það er að segja ef lýðurinn hagaði sér skikkanlega og gerði ekki kröfur til betra fólks. Nú býður auðvaldið Íslendingum ópíum í líki risavirkjana og risaálvera. Og álversópíumið hefur það fram yfir gamla stöffið, að nú skal himnaríkissælan fara fram hérna grafar, að því tilskyldu að lýðurinn verði stimamjúkur við álkeisarana og Landsvirkjunarrakkana.

Svo er bara að vona að samtökin Björgum Íslandi haldi áfram að vekja athygli umheimsins á illræðsverkum auðvaldsins á Íslandi. 


mbl.is Málningu slett á ræðisskrifstofu Íslands í Edinborg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Friðleifur bæjarstjóri og vergjarna konan.

Þegar kom að vergjörnu konunni að borga útsvar og fasteignagjöld, steðjað hún á fund Friðleifs bæjarstjóra. Friðleifur, sem var bísperrtur fugl og mikill á lofti, gekk í gildru vergjörnu konunnar þegar hún lyfti pilsum sínum þar inni á kontórnum hjá honum. Á eftir þóttist hún hafa náð því taki á bæjaryfirvöldum sem dygði til niðurfellingar opinberra gjalda. Um næstu mánaðarmót þar á eftir, fékk vergjarna konan pappíra frá bæjarskrifstofunni þar sem henni var tilkynnt, að gjöld hennar hefðu verið hækkuð um hundrar prósent (100%) og væru frekari hækkanir væntanlegar. Kvensniptin skrensaði hálfpartinn á þessu óvænta tilskrifi, en tókst þó með eriðismunum að rita bæjarstjórninni bréf, hvar hún upplýsti með fjölskrúðugu orðbragði blautleg samskipti sín við Friðleif bæjarstjóra á skrifstofu hans. Friðleifur glotti bara að bréfinu eins og mafíuforingi og harð- og þverneitaði sakargiftum og sagði sem svo, að þessi manneskja væri bersýnilega sjúk á sönsum. Að fengnum þeim upplýsingum, samþykkti bæjarstjórnin, að vergjarna konan væri geðveik og ekkert mark á henni takandi og því skyldi hún borga sín gjöld möglunarlaust, annars hefði hún verra af.

Einbeittur brotavilji og vernd borgaranna.

Varð uppvís af auðgunarbrotum ... það er nefnilega það já. Og best að hafa garminn áfram í gæsluvarðhaldi svo hann haldi ekki brotastarfsemi áfram því maðurinn er fíknefnasjúkur.

Það er svo sem gott og blessað að vernda borgaranna fyrir ásælni allrahanda rumpulýðs.

Það væri til dæmis alveg upplagt fyrir yfirvöld landsins að taka sig til og vernda borgarana fyrir yfirgangi og einbeittum brotavilja svokallaðra kvótafíkla, en það eru einstaklingar sem hafa ánetjast braski með fiskveiðiheimildir og lögbrotum í kvótakerfinu. Svo er vitað að nokkur fjöldi af stórþjófum fá að valsa um eftirlitslaust í fjármálaheimnum. Mætti ég allrar náðarsamlegast biðja um vernd gegn þessum óþjóðalýð.


mbl.is Gæsluvarðhald framlengt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er nauðsynlegt að lækka verð á áfengi.

Mér finnst alveg sjálfsagt og eðlilegt, að stjórnmálaskörungar þjóðarinnar taki sig til og lækki brennivínsverð svo um muni, svo að öreigar eins og Ágúst Óláfur, Þorgerður Katrín, Katrín Jakobs og Guðni Ágústsson hafi efni á að fá sér rækilega í glas hvenær sem þeim býður við að horfa, helst oft á dag, fyrir lítinn péning. Það er náttúrlega hrein svívirða að okra á ríksreknu áfengi eins og gert er hér á landi og leiðir oftar en ekki til þess að neytendur verða fyrir fátæktarsakir að grípa til óyndisúrræða eins og til dæmis að drekka kardó og kogga og eitthvað þaðan af verra. Það getur hver maður séð, að ofannefndir fjórmenningar geta ekki með nokkru viti þróað vínmenningu sína undir núverandi brennivínsverðlagi - eða viljum við máske, að fjórmennngarnir þrói téða menningu með sér við kogara, rauðspritt og kardó?


mbl.is Pólitísk samstaða um lækkun áfengisverðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dansinn kringum sjálfann Gullkálfinn.

Hvort ætli sé viðbjóðslegra og glæpsamlegra, að dansa einkanektardans á Goldfinger eða stíga einkavæðingardans kringum sjálfann Gullkálfinn, eftirlæti allra sannra Sjálfstæðismanna? 
mbl.is Eigandi Goldfinger og dansari á staðnum sýknuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin ósýnilega hönd Markaðarins.

Það hefur stundum verið sagt um svokallaða nýfrjálshyggjumenn, og það með réttu, að þeir séu meir en vísir með að selja ömmu sína. Það mun víst til að mynda ekki vefjast fyrir frjálshyggjuseppunum að réttlæta brask með ömmur á þeim forsendum, að ef slík viðskipti séu kaupanda og seljanda til hagsbótar þá séu þau að sjálfsögðu ,,af hinu góða."

Um ömmuna á Indlandi er það að segja, að barnabörnum hennar hefur trúlega ekki tekist að koma þeirri gömlu í verð og talið affarasælast að varpa kerlingunni á sorphauginn, enda hefur hún ekki skilað barnabörnunum ásættanlegri ávöxtun.

Mikil er blessum hinnar ósýnilegu handar Markarins. 


mbl.is Ömmu hent á haugana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brennivínsgalinn Heimdellingur á stolnum bíl.

Það má mikið vera ef þetta drukkna unglingskvikindi á stolnum bíl er ekki af græðgisvæddu auðvaldsheimili. Sennilega er ódámurinn félagsbundinn í mannvitsfélaginu Heimdalli, sem er eins og allir vita uppeldisstöð fyrir efnilega peningageðsjúklinga á stjórnmálaframapotsbraut.
mbl.is Ölvaður ökumaður á stolnum bíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skagamenn skemmta sér.

Það verður ekki af þeim skafið Skagamönnum að þeir kunna að skemmta sér. Sérílagi eru þeir duglegir og fylgnir sér þegar boltaspark á í hlut, en þó ekki síður við glasaglaum og flöskutott. Ég hef það eftir innfæddum skagagarpi, að þá sé hann og sveitungar hans hamingjusamastir þegar fangageymslur lögreglunnar á Akranesi eru sneisafullar af dauðadrukknu fólki. Og svo einnkennilega sem það kann að hljóma, þá gleðst þessi kunningi minn í hvert skipti sem hann fréttir að lögreglan í hans heimasveit hafi tekið enn einn uppdópaðann ökumann úr umferð. Svona geta menn verið lítt skemmtanavandir, en þeim mun hamingjusmari í staðinn.
mbl.is Mikið um ólæti og ryskingar á Akranesi í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband