Leita í fréttum mbl.is

Þegar hrúfublakurinn gjörði sig heimakominn hjá Gunnólfi skipstjóra

hvala2Það kvað vera lítil skemmtan fyrir menn þegar illhvelið hrúfublakur hefur sig á lopt og hlunkar sér ofan á smábáta úti á rúmsjó. Vitni segja, að hrúfublakurinn sé svo snar í snúningum við þessa iðju, að smábáturinn með með áhöfn allri sést aldregi meir; menn hafa getið sér til að hrúfublakurinn eti smábátinn og það er heyrir honum til eftir að báturinn er sokkinn um það bil tíu fimmtán faðma undir yfirborð sjávar. 

Eitthvert sinni, komst sona djöfuls hrúfublaðkskvikindi í ókjör af spíritusi, sem kastað hafði verið fyrir borð af skipi sem var að koma úr siglingu og átti að sækja síðar. Skipti aungvum togum, að hrúfublaðkurinn nagaði gat á plastbrúana er geymdu spírans og svalg allt úr þeim, hvurjum af öðrum, uns hann var orðinn ofurölvaður og að sama skapi illur í lund. En til að létta sér lund og gjöra sér gaman í spíritusvímunni tók hrúfublaðkurinn að stökkva upp úr sjónum trekk í trekk og nærstaddir sjómenn trúðu ekki sínum eigin augum og urðu hræddir.

Og sjóararnir máttu líka vera hræddir, því boðaföllin og skellirnir og öskrin í illhvelinu vóru hreint út sagt ægileg. Nú var heldur ekki lengi stærri tíðenda að bíða. Þarna var nærsveitis á miðunum hið rómaða fley Gunnólfs skipstjóra og útvegsbónda, þrjúhundruð tonna skip, vel málað og snurfusað. En áður en nokkurn varði, þá reis hrúfublaðkurinn í öllu sínu ölvaða veldi upp úr sjónum, rétt við hlið hafnökkva Gunnólfs, og hafði sig langt yfir borðstokkinn og hafnaði þversum á skipinu og lét þar fyrir berast. Gunnólfur skipstjóri varð afar skelfdur við að fá inn á þilfar hjá sér annan eins fisk og sjókind, en hann var þess vanastur að koma með létthlaðið skip inn til löndunar. En í þetta sinn stímdi hann inn í heimahöfn sína með einhverja stórkarlalegustu veiði sem þar hafði sést. Svo var hvelið skorið og etið og Gunnólfur fékk soldið af aukapéningum fyrir hvalketið og spikið, sem hann brúkaði til að fara á hóruhús í Reykjavík þegar hann átti næst erindi til höfuðstaðarins.   


mbl.is Um 30 tonna hnúfubakur drapst við Hólmavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband