Leita í fréttum mbl.is

Mikill öldungur kvaddur til sögunnar

bjorn_i_xl.jpgHann er orðinn ósköp gamall, karlauminginn, enda fæddur skömmu eftir Tyrkjaránið á fyrri hluta seytjándu aldar. Nú, gamli maðurinn er æskaður á Suðurnesjum, var sóknarbarn séra Hallgríms heitins á Rosmhvalanesi og það var séra Hallgrímur sem fermdi upp á hálft faðirvorið og þókti vel sloppið. Auðvitað þurfti kallinn, þá ungur maður, að standa í röð á hverjum morgni til að fá vinnu; annað þekktist þá ekki um Suðurnes. Stundum fékk hann aungva vinnu, af því hann hafði verið óþekkur og svikist um. Í annan tíma fékk hann dag og dag hjá kerlingargálunum í Saltkoti, en þær voru kvenna fjörugastar og frekastar til fuglsins á öllu Suðurlandi, en þær borguðu vel.

Fjölda vertíða var sá gamli, þá nokkru yngri en hann er í dag, á skútum hjá Milljonafjelaginu á Miðnesi, en það fór nú sona og sona hjá karli. Oftar en ekki fór vertíðarhluturinn í að borga útgerðinni sektir fyrir að mæta of seint til skips; í því voru þeir furðu líkir, hann og hann Runólfur eitinn Jónsson, sem röri yfir þrjátíu vertíðir hjá Gúðmúndsen. Og eru þá ótaldar vertíðirnar sem hann var á áttæringum og stundum teinæringum. Þegar okkar maður röri með honum Morra í Fiskikoti, á áttæringnum hans, fóru þeir á sjó að morgni til í febrúarmánuði úr Hraungarðsvör og sáust ekki aftur á heimaslóðum fyrr en umdir slátt um sumarið. Þeir hrepptu aftakaveður og hleyptu í dauðaspreng fyrir Öndverðarnes og Látrabjarg og náðu loks landi norður á Hornströndum, en þar brutu þeir skipið í spón. Hornstrendingar tóku glaðir við þessum aðkomumönnum og hnepptu þá í þrældóm þar til í fjórðu viku sumars, að þeir fylgdu þeim suður fyrir fjöll og báðu þá snáfa heim til sín.

Já, það dreif margt á daga unglingsins frá Keflavík, enda undi hans sér löngum vel á bryggjunni þar. Á seinni árum sá hann til mannaferða þar á Geirfinnstímanum, en framburður karlsins fyrir rétti, sem vitni í málinu, var dæmdur ógildur þar eð í skýrslunni stóð að vitnið væri fætt árið 1635. Við nánari eftirgrennslan hélt vitnið fast við fæðingarár sitt og var því afskrifaður og síðar sektaður fyrir að reyna að draga dár að sýslumanni Gullbringusýslu og embætti hans. Einna bestu ár þessa mæta öldungs voru samt tvímælalaust þegar hann starfaði hjá Keflavíkurkaupmanni, dönskum mangara úr Slésvík, og hafði með höndum eftirlit með því að búandkarlar um Suðurnes versluðu við sinn lögboðin kaupmann, en laumuðust ekki til kaupmannsins í Hafnarfirði með erindi sín. Þetta voru dýrðardagar og óskjaldan glatt í koti karls um þær mundir. Það er nú líkast til, þér að segja.



mbl.is Fjögur góð ráð fyrir þá sem misstu vinnuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband