Leita í fréttum mbl.is

Nauðsynlegt að leyfa tóbaks- og áfengisauglýsingar.

Auðvitað eru það hræðileg heimskupör og óviðunandi forræðishyggja, að banna að auglýsa spíritusinnihaldandi drykkjarföng. Öll boð og bönn varðandi brennivín, bjór og rauðvínsgutl eru ekki bara mannskemmandi, heldur koma þau algjörlega í veg fyrir aðlaðandi og vingjarnlega vínmenningu. Þannig vínmenning er sem betur fer víða til. Á Ítalíu og á Spáni, já og víðar, þar sem brennd og óbrennd vín eru hluti af matarmenningu fólks, er órjúfanlegur hluti hins daglega brauðs, er drykkjuskapur með öllu óþekktur, að maður tali nú ekki um fyllirí. Á Spáni, Frakklandi og á Ítalíu hefur fólk aðlagað sig svo gjörsamlega að vínmenningunni, að því fleiri glös sem innbyggjarar þessara landa hvolfa ofan í sig, því alsgáðari verða þeir. Það er einmitt svona menning sem Íslendingar verða að koma sér upp, svo að þeir geti með gildum rökum talið sig til siðmenntaðra þjóða. En til að það megi gerast, verður afnema öll bönn við áfengisauglýsingum og leyfa sölu á þessum matarvarningi í öllum verslunum sem það vilja.

Og svo er það tóbakið og tóbaksauglýsingar. Auðvitað er fasisminn gegn reyktóbaksfólki af sömu rót runninn og bannið við brennivíns og bjórauglýsingunum. Hjá siðmenntuðum þjóðum þykir sjálfsagt og nota og auglýsa tóbak, t.d. eru kappakstursbílar gjarnan skreyttir með sígarettuauglýsingum, og hefur það gefið góða raun. Sígarettur, píputóbak og vindlar eru eins og hver annar vinsæll neysluvarningur, sem siðað fólk notar að lokinni máltíð, með glasi af góðu öli eða kaffibolla og er þar með hluti af boðlegri matarmenningu. Hér á landi hefur pólitískum fíflum og sálsjúkum grilluföngurum haldist uppi að banna tóbaksauglýsingar árum saman; banna að hafa tóbak í hillum verslana; og nú síðast, að banna reykingar hér um bil alstaðar. Þvílík andskotans forræðishyggja og fasismi ! 

Það ber því algjöra nauðsyn til, að leyfa innflytjendum tóbaks að auglýsa varning sinn að vild sinni, hvar og hvenær sem þeim þóknast. Enn fremur verður að afnema, í eitt skipti fyrir öll, hverskonar hömlur á sölu og neyslu tóbaks.  


mbl.is Dæmdur í sekt fyrir að láta birta áfengisauglýsingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband