Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Stórmennið félagi Chavez og sósíalísk Suður-Ameríka

Það dylst víst fáum lengur að félagi Hugo Chavez, forseti Venusúela, sé mikilmenni. Meira að segja örgustu hægrimenn eru farnir að viðurkenna þá staðreynd fyrir sjálfum sér í hálfum hljóðum. Enda eru þeir skíthræddir við félaga Chavez, sem frá upphafi forsetaferils síns hefur boðið ójafnaðarhyski heimsins birginn af fáheyrðu hugrekki sem aðeins stórmennum er gefið. Auðvitað ætlar félagi Chavez að koma upp sósíalísku hagkerfi. Nema hvað? Hans áform hljóða uppá að stytta vinnuvikuna úr 40 stundum í 36 stundir, koma upp mannsæmandi félagsleg kerfi, efla læsi meðal íbúa landsins og bæta heilsugæslu meðal fátækustu íbúanna. Gegn þessum sósíalisma félaga Chavez djöflast auðvald heimsins með stríðsglæpamanninn og sjálfstæðismanninn Georg W. Bush fremstan í flokki. Það er svo sannarlega nauðsynlegt, að félagi Chavez og hans fólk, nái sem mestum árangri í baráttu sinni við að skapa alþýðunni í Venusúela mannsæmandi þjóðfélag. Ég lít þannig á að ævintýrið í Venusúela sé aðeins byrjunin - markmiðið er að sjálfsögðu sósíalísk Suður-Ameríka. Og hvað sem hver segir, skriðan er farin af stað ...    
mbl.is Chavez vill aukin völd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þá siglt er í öfuga átt ...

Merkilegt. Ætluðu að draga bátinn fra Ólafsvík til Reykjavíkur en lentu í Stykkishólmi ! Eitthvað einkennileg navígasjón það ... Nema hinir drátthögu siglingafræðingar hafa ætlað lengri leiðina til Reykjavíkur og þræða ströndina norður um land og koma loks siglandi með Fanneyju RE 31, sem smíðuð var 1967, úr sömu átt og Ingólfur landnámsmaður þá hann röri til Reykjavíkur úr Norvegi, sem aldrei skildi verið hafa. En nú er Fanney RE 31, sem smíðuð var 1967, sem sé sokkin, rétt eins og kútter Lars sem var lekahrip, en annars bara ágætt skip. En kútter Lars hafði þó einn leiðinda löst, sem þannig er lýst: ,,Og hátt hann sigldi um hafið blátt, / en aldrei reyndar í rétta átt." 
mbl.is Sökk í Stykkishólmshöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skálmöld á næstu grösum?

Mikið ósköp hefur nú skemmtanalífið fjörgast í Árnessýslu síðan heimamenn fengu herra Ó.H. Stones fyrir yfirvald. Síðan sá merki maður kom til skjalanna á Suðurlandi hefur ekki liðið svo helgi að fjölmiðlar væru ekki uppfullir af fréttum um hneykslisverk drukkins og dópaðs fólks í Árnessýslu. Reyndar er svo komið, að hliðstæðar fregnir eru farnar að berast úr þessu þjakaða héraði í miðri viku. Ef heldur fram sem horfir, mun algjör skálmöld bresta á í ríki herra Stones og rætast það sem segir í Völuspá: ,,Bræður munu berjast og að börnum verða, munu systrungar sifjum spilla, hart er í heimi, hórdómur mikill, skeggöld og skálmöld, skildir eru klofnir, vindöld og vargöld, áður veröld steypist mun engi maður öðrum þyrma." 
mbl.is Þrír á bak við lás og slá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dauði trúðsins er ekki um Guðna Ágústsson

Nú - ég hélt að ritverkið ,,Dauði trúðsins" væri eftir Sigmund Erni og fjallaði um Guðna Ágústsson og baráttu hans við einkavæðingar- og kvótatrúðinn hættulega Halldór Ásgrímsson. En eins og menn muna féll trúðurinn sá, seint og um síðir, fyrir pólitísk björg og andaðist inn í einhvern norrænan bitlingaheim, sem er ofar skilningi venjulegs fólks. En ,,Dauði trúðsins" er semsé önnur saga og ekki næstum eins hræðileg og sú sem ég hugði hana vera. 
mbl.is Dauði trúðsins til Frakklands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viagranotkun framsóknarmanna

Ekki kæmi mér á óvart þó Framsóknarflokkurinn væri nú þegar farinn að hamstra viagratöflur fyrir næstu kosningar. Í síðustu kosningum kom í ótvírætt fram, að hið níræða ellihró, Framsóknarmaddaman, er mjög gömluð orðin og upp að knjám gengin og það svo mjög, að óvíst er að hún þoli fleiri kosningar á þessu okkar jarðneska tilverustigi. Það er því mjög áríðandi að lyflæknar hennar og aðrir heilsubótarmenn, hafi vaðið fyrir neðan sig og sanki að sér öllum þeim meðulum, sem að gagni geta komið, til að lengja dauðastríð þeirrar gömlu og fleyta henni með lífsmarki fram á næsta kjörtímabil. Því má búast við að spunadoktorar maddömunnar láti ekki við sitja að skálda upp einhverjar lygasögur til að hressa upp á heilsufar hinnar ellimóðu frúar í næstu kosningarbaráttu, heldur muni þeir vaða tindilfættir um öll foldarból, að hætti taílenskra frambjóðenda, og bjóði útbrunnum leppalúðum af karlkyni, já og trúlega kvenkyni líka, upp á endurnýjun lífdaga í bólförum með töframeðalinu viagra; en því aðeins að þeir lofi við drengskap sinn, miðvígstöðvadeyfð og meðfæddan ungmennafélagsanda að kjósa Framsóknarflokkinn refjalaust. Það má því búast við, að drjúgur hluti landsmanna muni skjörgra kengboginn og með bauga undir augum að kjörborðinu við næstu Alþingiskosningar. 
mbl.is Viagra fyrir atkvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bífalningsmenn og íslandsklukkur

,,Bífalningsmaðurinn, hinn bleiki, tók steinsleggju úr farangri þeirra, lagði hina fornu klukku Íslands á dyrahelluna við Lögréttuhúsið, reiddi hátt til og greiddi henni högg. En hún skrikaði aðeins undan sleggjunni með daufu geighljóði. Jón Hreggviðsson gall við ofanaf þekjunni: - Sjaldan brotnar bein á huldu, maður minn, sagði Axlarbjörn. En þegar kóngsins böðull hafði hagrætt klukkunni þannig að hann kom höggi innaná hana, með helluna fyrir viðhögg, hrökk hún um brestinn. Öldungurin var sestur aftur á garðbrotið. Hann horfði tinandi útí bláinn með sinaberar hendurnar krepptar um prikið. Böðullinn fékk sér aftur í nefið. Það sá í iljarnar á Jóni Hreggviðssyni uppá þekjunni. - Ætlarðu að ríða þarna húsum í allan dag? kallaði böðullinn til þjófsins. Jón Hreggviðsson kvað uppi á þekju Lögréttuhússins: - Aldrei skal ég armi digrum spenna / yrmlings sængur únga brík / yrmlings sængur únga brík / utan hún sé feit og rí-í-í-ík." Íslandsklukkan, höf. HKL.

Síðar eignuðust íslendingar aðra sameign. Það var fiskurinn í sjónum. Þeirri sameign greiddu bífalningsmenn sjúkra auðmanna slíkt högg að hún hvarf úr höndum fólksins í landinu og ofaní víða vasa auðmannanna sjálfra. 


mbl.is Íslandsklukkan glumdi 7 sinnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðlegar berrassínumyndir af velgiftri konu

Það verður eflaust kátt í einhverjum höllum þegar berrassínumyndir af eiginkonu Beckhams knattspyrnumanns koma fyrir almenningssjónir. Ég hefi lengi velt fyrir mér hvað það eiginlega er, sem er á milli eyrnanna á hjónunum Beckham. En nú hefi ég loks sannfærst um að í höfðum þeirra hjóna sé fátt annað en auðn og tóm; það virðist ekki einusinni vera vottur af taðslettu í hausnum á þeim. Að sögn myndasmiðsins, gekk ekki alveg andskotalaust að koma frú Beckham úr leppunum, en þegar henni var talin trú um að nekt hennar yrði brúkuð í góðgerðarskyni, var hún fljót að gyrða niðrum sig og setja sig í listrænar fyrirsætustellingar. Ja, öllum fjandanum er nú reynt að ljúga að manni á þessum síðustu og heimskustu tímum. Þar með er ég ekki að segja, að stórlygar eigi ekki rétt á sér undir vissum kringumstæðum, en það er lágmarkskrafa að þær séu smekklegar upp að vissu marki.

Annars er frú Beckham fyrirtakslítið augnayndi, horfallin og strekkt, svo fráleitt er að búast við tímamótaverki í ljósmyndalist þó hún hafi dregist inná að vappa berrössuð fram fyrir myndavélarauga Marcs þessa Jacobs. - Mætti ég þá heldur taka undir orð Jóns Hreggviðssonar frá Rein, þegar hann bað nafna sinn Þeófílusson galdramann, að galdra til þeirra fallegan kvenmann velfeitan og helst þrjár, þegar þeir sátu saman í svartholinu á Bessastöðum forðum daga.   


mbl.is Viktoría situr fyrir nakin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólatré grafið til hálfs í jörðu niður

Í fyrradag fylgdist ég eins og aðrir bæjarbúar í Ólafsvík spenntur með þegar jólatréð það hið mikla var reist vestan við Pakkhúsið. Og ég hugsaði sem svo: Hvað ætli líði margir klukkutímar þangað til þetta gerðarlega tré verður fokið á hliðina? Ég veit svosem ekki upp á hár hvað jólatréð stóð lengi í lóðréttri stöðu að þessu sinni, en hitt veit ég þeim mun betur, að það fyrsta sem Ólsarar ráku augun í, þegar þeir klöngruðust til vinnu á áttunda tímanaum í morgun, var að jólatréð lá á hliðinni eins og útaf dauður róni á víðavangi. Reyndar er ekki tekið út með sældinni að halda jólatré undir beru lofti í Ólafsvík því hann getur verið nokkuð vindasamur í skammdeginu hér vestra. Til dæmis fauk jólatréð, sem plantað var við Pakkhúsið í fyrra, að meðaltali tvisvar um koll á sólarhring, frá byrjun jólaföstu og fram að þrettánda, jólatrjáagæslumanni bæjarins, Antoni Ingólfssyni vini mínum, til ómældrar gleði og stóránægju. En í morgun var Antoni loks nóg boðið, því hann lét grafa jólatré ársins til hálfs ofan í jörðina. Eru bæjarbúar mjög sammála um ágæti þeirrar framkvæmdar og telja að nú megi mikið hvessa til að koma tréskömminni eina ferðina enn á hliðina. Reyndar hefur jólatréð lækkað um eina fjóra metra við aðgerðina, en það er svosem gott og blessað, ef það verður til friðs og gæslumanni sínum til geðs. 


mbl.is Jólatré fauk um koll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband