Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2020

Góða fólkið ræðst á okkar besta mann

StonesÞað er eftir öðru hjá hinu vonda fólki, að ráðast að okkar bestmann, sjálfum Stjörnusýslumanninum Stones, og leiða hann fyrir rétt eins og hvurn annan stórglæpamann. Og hvur skal svo tilgangurinn vera með slíkum aðförum? Það má Guð einn vita, eða Fjandinn eftir atvikum, en grunurinn beinist ósjálfrátt að minnimáttarkennd og veikluðu sálarlífi góða fólksins, sem liggur á koma Stjörnusýslumanninum í dýflissuna til langrar afplánunar fyrir eitthvað sem aunginn maður veit.

gapUndanfarið hefir Störnusýslumaðurinn Stones mátt þola það straff af hinu opinbera að hýrast í gapastokk í einu horni dómsmálaráðuneytisins og horfa þaðan upp á litla ráðherrann bera liti og krem í andlitið á sjálfri sér svo strákunum lítist nú á hana. Þetta er auðvitað hryllileg meðferð á einum vammlausum Stjörnusýslumanni með aldeilis óflekkað orðspor og mannorð, og orð eins og mannréttindabrot og glæpur gegn mannkyni koma upp í hugann. Og nýlega réði ráðuneytið óþokkalegan fjósamann að norðan til að stunda hr stones í horninu og sína honum í leiðinni áþreyfanlegan vott þess hvaða hug hið opinbera hefur til hans.

Sagan segir að Stjörnusýslumaðurinn Stones sé búinn að fá nóg af góða fólkinu og ætli að yfirgefa það við fyrsta tækifæri með því að segja sig úr Sjálfstæðisflokknum. Þar næst mun hann ganga til liðs við flokk Pírata og í þriðja lagi ætlar Stjörnusýslumaðurinn í framboð til Alþingis fyrir þann flokk. Það gefur augaleið, að leiðveisla Stjörnusýslumannsins Stones við Pírata, er einhver mesti búhnykkur sem einum stjórnmálaflokki getur hlotnast. Þegar hr. Stones verður kominn á þing og orðinn ráðherra fyrir Pírata er óhætt fyrir góða fólkið í Sjálfstæðisflokknum að fara að rifja upp bænirnar sínar þar eð aungvar líkur eru til að hr. Stones, þá orðinn dómsmálaráðherra, hlífi því fólki hið minnsta.


mbl.is Ólafur Helgi með réttarstöðu sakbornings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru náttúrulausar kérlíngabækur og steingeldir glæpareyfarar eitthvað til að verðlauna?

paunkNú er heldur farinn að þynnast þrettándinn hjá bókaþjóðinni miklu, sem kveðst vera mesta bókaþjóð í heimi og þókt víðar væri leitað. Í raun og veru hefði ekki átt að tilnefna neina bók til verðlauna, svo lélegar þessar skræður nú eru. Mestmegnis eru þetta náttúrulausar kérlíngabækur, sumar með vott af harðlífi, og einkum skrifaðar til að fóðra stórbilaða athyglissýki þessara svokölluðu höfunda. Svona er nú komið fyrir bókaþjóðinni miklu.

Ástandið í höfundarmálum á Íslandi er orðið með þeim hætti, að hér finnst ekkert skáld undir sextíu og fimm ára aldri. Og framleiðslan! Jésús minn góður Guð á Hymmnum hátt! Mest eru þetta steingeldar og þurrundnar glæpareyfarasögur, allar gerðar eftir sömu uppskriftinni, svo andlausar og illa skrifaðar, að fólk sem glæpist á að lesa eitthvað af þessu helvíti grettir sig og fussar og kastar þeim hálflesnum undir pottinn, það er að segja þeir sem búa svo vel að hafa hlóðir í eldhúsinu, hinir fleyja skruddunum bara út um næsta glugga.

Með sama áframhaldi munu Íslendingar verða innan fárra að algerðu athlægi á alþjóðavettvangi og til þess tekið að hin merka bókaþjóð, sem samdi Íslendingasögurnar, Sturlungu, Ævisögu séra Árna, og Íslandsklukkuna, hafi orðið fémínískum ruglbókmenntum, glæpareyfararusli og sjálfumglaðri afturúrkreistingakynslóð að bráð. Hnignun og stórbrotin úrkynjun íslenskra bókmennta og lista verður eflaust rannsökuð þegar fram líða stundir og trúlega munu þá koma upp úr kafinu ýmislegt sem mun gjöra nútímaúrkynjunaraðallinn frægan af endemum í bókmenntasögunni. 


mbl.is Fimmtán bækur tilnefndar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sökudólgunum verður vissulega eytt og frökenin fær milljarðir

exd-ghrein-tverks_926085711.gifÞað er það minnsta sem veslings konan getur gert er að draga ríkið og fjölmiðla eins og dauðaseka flækingshunda fyrir dóm og fá þeim eytt. Einkum ætti fröken Anna Aurora að draga þessi eiturkvikindi fyrir eftirlætisdómstól frú Andersen og þeirra í Sjálfstæðisflokknum, Landsrétt, því sá dómur er rétt skipaður og hefir áreiðanlega blessum Drotins Sjálfstæðisflokksins yfir sér.

Vissulega leiða allar líkur til þess, að Landsréttur dæmi ríkið og helvítis fjölmiðlana til dauða og væri það auðvitað vel. Hinsvegar er vandasamt verk að leiða ríki og fjölmiðla fyrir aftökusveit, því vitað er að venjuleg vopn bíta illa á þær skepnur. Sennilegt má því telja að sökudólgarnir verði færðir fyrir uppáhalds dómsstig hans Gjeirs okkar hérna Haaardý, sem sé Landsdóm, en Landsdómur hefir vísast í fórum sínum verkfæri sem duga þá aflífa skal ríki og fjölmiðla.

Sjálf getur Anna Aurora reiknað með að fá svakalega summu úr ríkissjóði í bætur vegna óhugnanlegs framferðis ríkisins í hennar garð; það ku vera milljarðir á milljarðir ofan sem falla munu fröken Önnu Auroru í skaut, ef allt fer eftir áætlun bestu manna. Svo verðum við sjálf að reyna að ráða eitthvað framúr málum þegar ríkið verður dautt og búið að kæfa fjölmiðlana í eitt skipti fyrir öll eins og rottur í skólpfötu. En öll eru þessi mál nú sem stendur í undur góðum og blessunarríkum farvegi.


mbl.is Bakvörðurinn ætlar í mál við ríkið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svik meirihlutans eru þeirrar gerðar að ekki verður við unað lengur

x28Hvur andskotinn er nú um að vera í meirihluta borgarstjórnarinnar í Reykjavík? Hvað varð um hugmyndir og loforð meirihlutans um að breyta Reykjarvíkurtjörn í sundlaug með vatnsorgeli og líkneskju af berrassaðri hafmeyju, eða sjófrú, húkandi uppi á steini? Nei, það á auðvitað að svíkja það eins og annað. Við munum sko vel eftir því þegar Dagur og Holuhjallur vóðu út á tjarnarbakkann, örskammt frá ráðhúsnefnunni ljótu, og höfðu Líf og pírata- og viðreisnarskjóðurnar í eftirdragi og sóru við Guð Almáttugan að breyta bölvuðum tjarnardrullupollinum í stærstu og fullkomnustu sundlaug í heimi. 

En nú hefir þetta lið gengið bak orða sinna varðandi Tjörnina en þykjast þess í stað ætla að steypa upp þrjár vatnsþrær og kalla þær sundlaugar. Sem betur fer er þó ekki allur hugur úr steikarameirihlutanum í Reykjavík, því nú lofa eignirnar ,,hjólaborg á heimsmælikvarða"! Hvar ætli sú ,,hjólaborg" eigi að vera? Ekki verður hún í veðravítinu Reykjavík, svo mikið er víst. En Reykjavíkurtjörn verður ekki stærsta sundlaug í heimi á næsta ári með vatnsorgeli og berrassaðri sjófrauku, sem er við að krókna í hel alein uppi á steini. 

Nú leggjum vér til að meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur verði aflagður, hann leystur upp og meðlimir hans klénir sendir í útlegð þangað sem fullvíst er að þeir geri ekki neitt af sér. Og frá ófrýnilegum óásetjanlegum borgarstjórnarmeirihluta bregðum vér oss suður á Bessastaði, en þar situr dólgur sem gaf út heilbrigðisvottorð á umsvif frú S.Á. Andersen, sem Yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu dæmdi í morgun sem algerða og svínslega óhæfu. Nú þurfum vér, held ég, að eiga orð við kurfinn á Bessastöðum og byggja honum út af hinum fornfræga stað á Álftanesi og leyfa honum að slást í för með afsettum borgarstjórnarmeirihluta, frú Andersen, Áslaugu Örnu, og afganginum af Sjálfstæðisflokknum.  


mbl.is Þrjár nýjar sundlaugar rísa og jafnmargir skólar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að þeim sækja eiturtungur

cry3Hvað er það sem veldur telpukorninu Áslaugu Örnu vonbrigðum? Ekki ætlaðist hún þó til þess að Yfirdeild Mannréttindadóms Evrópu dæmdi rangt í frú Andersenmálum? Ekki trúum vér því. Eða stafa vonbrigðin af því að Sjálfstæðisflokkurinn á Íslandi skuli ekki skipa dómara í Yfirréttinn? Nægir ekki fyrir þennan ekkisinns Sjálfstæðisflokk að skipa alla dómara á Íslandi frá knattspyrnudómurum upp í hæstaréttardómara? En eftir vill særir meðferð Yfirréttarins á frú Andersen telpukornið Áslaugu Örnu? Litlum stúlkum líkar víst illa að horfa upp á sér eldri maddömur flengdar eins og óknyttabörn.

En svona fór nú fyrir aumingja frú S.Á. Andersen og nú er hún orðin fræg út um alla Evrópu fyrir að skipa eingöngu vini sína úr Flokknum í dómarasæti. Þvílíkt bölvað óréttlæti! Og fyrir þetta lítilræði ætla ógeð Íslands að gjöra frú Andersen brottræka, helst úr landi, sverta hana og svívirða með viðbjóðslegu orðfæri, útskúfa henni og eyðileggja hana í hvívetna. 

Hvað er hægt að gjöra við eiturtungurnar svo þær þagni. Frú S.Á. Andersen þarf sinn frið og sína friðhelgi fyrir óðu fólki. Góður maður, - mjög góður maður, já, - laumaði að mér, að þegar eiturtungum er fargað, þá sé best að hafa yfir að ráða miklu magni skordýraeiturs og jafn mikið eða helst meira af kóðvíðs nítjánda vírusum, slíkt mundi yfirleitt nægja til að lækka rostann í eiturtungunum, lama þær og afmá. Já og jájá. 


mbl.is Niðurstaðan veldur vonbrigðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Terpentína og önnur ámóta vímuefni

boy0.jpgFyrr má nú vera andskotans drykkjufýsnin í barninu að þamba í sig úr fullu glasi af terpentínu, og skilja svo ekkert í af hverju hún hafði ekki sambærileg áhrif á hann og áfengi. Eða var Jakob ef til vill augafullur af þessum óþverra? Hver veit. Ég man vel þegar matsveinn okkar góða skips drakk híbýlailminn, sem var á spreybrúsa og oftast kallaður skítalyktareyðir, og lá hreyfingarlaus eins og freðýsa í kojunni í sólarhring á eftir. Ekki man ég eftir að hafa heyrt þann mann tala um að terpentína væri ágætur drykkur til ölvunargleði, þó hafði hann rétt sig verulega vel af með því éta eitt sinn handþvottakrem, sem haft var á klósettinu á bifreiðaverkstæði.

Nú, eftir Jakobi Stuðmanni, eða Stuðara (ég man aldrei hvort heldur er), að dæma, þá virðist eitt glas af terpentínu á barnsaldri duga til ævilangrar vímu og henni ekki af verri endanum. Svo var það átta- eða tíu ára strákfjandi, sem hugðist þvo málningu úr hárinu á sér með terpentínu, hann varð snarbrjálaður fyrir vikið og grénjaði eins og naut í marga klukkutíma, því það sveið undan terpentínunni í hársvörðinn. Þeim drengstaula hefir varla batnað síðan þó farið sé að slaga upp hálfa öld síðan þetta gerðist.

Þá er þess að geta, að matsveinn sá er við sögu kom hér að ofan, sagði okkur frá því þegar hann hafði latan piltdrjóla fyrir aðstoðarkokk hjá sér á fraktaranum. Drengur þessi var ákaflega hægur á sér og varla viðlit að ná honum úr koju án róttækra aðgerða. Svo gjörðist það einn morguninn að pilturinn var ekki kominn á lappir eftir þriðja ræs. Þessi óráðsía gekk svo yfir okkar mann, yfirmatsveininn, að hann fór inn í klefa til pjakksins með fulla teskeið af sinnepi í hendinni og mismunaði því í rassinn á gripnum. Drengurinn spratt upp hvæsandi og ýlfrandi, en eftir þetta þurfti aldrei að ræsa hann nema einu sinni því hann vildi ekki meira sinnep í bakhluta sinn.   


mbl.is Drakk terpentínu eins árs gamall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ógurlegu áfellisdómur og enginn veit lengur sitt rjúkandi ráð í Flokknum

dom_1272956.jpgUm leið og dómur féll í Yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu fóru andstyggilegar rógstungur þegar í stað á stjá með óþverra orðbragði í garð frú Sigríðar Á. Andersen. Þetta dónafólk við heitar sem sé að frú S.Á. Andersen verði rekin þegar í stað af Alþingi og hún færð fangavörðum á Litla-Hauni eða Hólmsheiði í höndur. Það er aungvu líkara en vesalings fólkið haldi að frú S.Á. Andersen sé einhver venjuleg leiðindaskrukka, sem eigi ekkert gott skilið. Nei, góða fólk og aðrir ódámar, frú S.Á. Andersen mjög virðuleg kona af góðu standi, alþingismaður og fyrrum ráðherra og óbrjótanlegur landstólpi.

Svo eru aðrar og yfirvegaðri manneskjur, sem sjá í hendi sér að dómur Yfirdeildar Mannréttinda í Evrópu gjöri að verkum, að nú sé frú S.A. Andersen komin í bílstjórasætið í kappakstrinum um að verða næsta formenni Sjálfstæðisflokksins. Aunginn annar af hugsanlegum arftökum Bjarnaben hefir enn verið dæmdur sekur af jafn gríííðarrrlega háum dómstóli; þar með er frú Andersen sjálfkjörin formenni Sjálfstæðisflokksins þegar Bjarniben lufsast frá, það er að segja ef hann hrökklast á brott áður en Sjálfstæðisflokkurinn verður lagður niður, eða hann bannaður eins og annar félagsskapur af hans tagi.

Við eldhúsborð frú Ingveldar sköpuðust fjörugar umræður dóminn yfir frú Andersen um leið og fréttir bárust af honum. Frú Ingveldur sagði strax að aunginn lifandi maður tæki mark á þessum andskotans dómstóli, sem væri skohh aunginn fjandans dómstóll. En Brynjar Vondalykt lét sér fátt um finnast, lyfti einungis öðrum þjóhnappnum frá stólsetunni og prumpaði. Bæði Kolbeinn og Máría Borgargagn hölluðu undir flatt, því þau skildu ekki par í ótrúlegu framferði Yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu. Indriði Handreður var ekki við eldhúsborð frú Ingveldar að þessu sinni því hann var settur inn í nótt eftir að hafa verið handtekinn fyrir ölvun og óspektir á almannafæri. Ungfrú Áslaug Arna var aftur á móti við eldhúsborðið, en hún veit ekki sitt rjúkandi ráð, því hún skynjar að dómurinn yfir frú S.Á. Andersen er ógurlegur áfellisdómur yfir Sjálfstæðisflokknum, sem eftir þetta verður settur á bekk með samtökum þorpara, götustráka og lúsablesa. 

 


mbl.is Yfirréttur MDE staðfestir dóm í Landsréttarmálinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband