Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2020

Að geyma naut úti í fárviðri getur kostað sitt, enda varðar það við 111. meðferð á skepnum

belja2Það er kúnstugt að geyma nautaket á fæti úti þegar fárvirði gengur yfir. Sona framkoma við verðandi steikur varðar að sjálfsögðu við 111. meðferð á skepnum og ber vott um grimmt og guðlaust hjarta, svo sem kunnugt er. Og hvað hefðu bændur á bænum Keldum á Rángárvöllum sagt og gert ef einn nautgripurinn hefði tekist á loft í hroðalegri vindhviðu, sem vel hefði getað gerst, og fokið með himinskautum og komið niður á þakið á næsta bæ? Ætli bændum á þeim bæ hafði ekki brugðið ef griðungur í heilu lagi hefði í einni svipan komið í gegnum þekjuna og ofan í hjónarúmið til þeirra?

Á meðan Ólafur bóndi var og hét, það er áður en heimilisfjárhundurinn Snati myrti hann með því að ýta honum fyrir sextugt bjarg ofan í stórgrýtisurð, þá hélt hann oftastnær griðunga á bæ sínum. Suma griðungana, þá allra stærstu, gerði hann að þarfanautum og seldi nágrönnum sínum aðgang að þeim fyrir talsverða péníngaupphæð þegar kýr sveitunganna vóru ýxna. Þetta voru dálagleg viðskipti og siðlaus því Ólafur bóndi var okrari.

Eitt sinn misstu þeir þarfagriðunginn Kölska, sem var skrímsli á vöxt og mannýgur eftir því, frá sér fyrir utan fjósið þegar hann átti að gagnast kú, sem Jón í Skriðukoti hafði komið með með sér í taumi. Og Kölski griðungur var ekkert að tvítóla við það, heldur þaut á harðaspretti beint innum eldhúsglugga á íbúðarhúsi Ólafs bónda og braut þar allt og bramlaði á svipstundu og vóð so aftur út og stóðu gufumekkirnir út úr nösum hans og minnti á blástur stórhvela. Þar næst rann Kölski á hænsnakofann, braut hann niður og stangaði hænsnin í allar áttir. Þessu næst hljóp Kölski sem fætur toguðu upp í fjall og hrapaði þar ofan í gljúfur og andaðist. Næstu daga vóru nautasteikur í hvurt mál hjá Ólafi bónda og Snati fékk svo mikið að éta, að undir það síðasta var hann kominn með fullkomið ógéð á nautasteikum og nautaslátri í víðtækri merkingu, en í því var innifalinn meðal annars nautablómur. Eftir að Snati hafði snætt nautablómurinn þrjá daga í röð, fór hann bak við hús hinn þriðja dag og gubbaði öllum nautsblómurnum upp úr sér, en hænurnar komu hlaupandi og átu blómurinn með gaggi og gali. 


mbl.is Fjögur naut drápust í óveðrinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er að tala hvað niður? - Sú með langa nafnið veður elginn í villu og svíma

full3Endemis kyndug frauka þessi ráðherra með langa nafnið þarna hjá Sjálfstæðisflokknum. Það er ekki nóg með að aunginn geti lært nafnið hennar utanað, heldur er hún óskiljanleg með öllu þegar hún fer að tala um hluti, sem eiga að heyra undir hennar ráðuneyti, - já og poletik yfirleitt. Nú hefir hún tekið til máls og fimbulfambar um að fólk eigi að hætta að tala Ríótintófabrikkuna í Hafnarfirði niður.

Nú er það svo, að eigendur og talsmenn Ríótintósins hafa verið þeir einu sem talað hafa þetta mengunarbæli niður með óduldum hótunum um að þeir loki herlegheitunum og far, nema þeir fái enn ódýrari rafmagn en hingað til. Eflaust meina þeir, að Íslendingar eigi að hundskast til að greiða Ríóinu fyrir vilja nota rafmagn frá þeim. Það er ekki að tala niður þó einstaka maður sé bjartsýnn og nefni hvort ekki væri hægt að nota Straumsvíkurmannvirkin undir eitthvað geðslegra en eitrandi alúmíníumbræðslu. En ráðherrann með langa nafnið sem aunginn getur haft eftir verður að eiga það við sjálfa sig hvort hún geri sér það að leik að tala sjálfa sig niður í fjölmiðlum, - ég held að öllum sé barasta alveg nákvæmlega sama um það.

Álverið í Straumsvík var barn síns tíma, sona eins og Björn Bjarnason var barn síns tíma eina dagstund fyrir um það hálfri öld. Virtur læknir hefir gefið út það heilsufarsvottorð varðandi umrætt álver, að vegna bágrar heilsu hafi sjúklingurinn verið lagður inn á líknardeild þar eð aungin læknisráð geti bjargað því frá því að geispa golunni mjög bráðlega. Og ef lög leyfðu svokallaðan líknardauða væri fyrir nokkru síðan búið að gefa hinum fárveika inn lokalausnina með sprautu sem mundi ráða hann af dögum, ríða honum að fullu, steindrepa hann á nóinu. So getur langa nafnið sem aunginn man haldið áfram sínu hvimleiða óráðshjali um niðurtal og aðra vitleysu sem aungan varðar um.


mbl.is „Hættum nú að tala þetta niður“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Efrimillistéttarfémínístaávarpið

fugl1Efrimillistéttarfémínísmi er það lengsta í róttæknisátt sem undanrennuvesalingarnir í úrkynjuðum subbuflokkum eins og VG og Samfylkingu geta gengið. Þrátt fyrir þessa óhuggulegu staðreynd, þá gera eigendur VG og Samfylkingar tilkall til að á þá sé litið sem þinglýsta eigendur allrar vinstripoletikur í landinu, jafnaðarstefnu og sosislisma. Auðvaldskollan Katrín telur sig eflaust vera óskaplega hugrakka, jökulkalda, að skrækja eins og stéllaust hænsni yfir eina fyrirlitlegustu samkomu auðvaldsins, Viðskiptaráð Íslands, heimskulega froðu eins og þá að hún vilji sekta fyrirtæki sem ekki uppfylla krypplingslegan efrimillistéttarfémínísma um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja. Þetta er í fáum orðum sagt það efrimillistéttarfémínístaávarp úrkynjaðra poletikusa, sem er eins og vatnsblönduð undanrenna af gömlu góðu og heiðarlegu sósíalistunum á Íslandi. Á meðan ekki sekkur endanlega undan hinum undirförulu svikurum, sem stálu sósíalismanum, jafnaðarstefnunnu, starfar Katrín og VG á framfæri spilltasta hluta borgarastéttarinnar og þegir þunnu hljóði yfir skipulögðum stórglæpum allt í kringum sig, sem allt siðað fólk sér og viðurkennir að sé til staðar.

Það eru konur eins og frú Ingveldur og frú Andersen og frú Bjarniben sem kunna að meta Katrínu og VG, þótt þau hlægi eins og vitleysingar að þeim á bak. En andlegum föður Katrínar, sem og andlegum afa hennar, Stenngrimi og Swabbó Sendiherra er nákvæmlega sama um hlátra Engeyinga og annarra háttsettra péníngamanna og arðræningja, því þeir telja sig stand á sömu stétt og það fólk. Svo má spyrja hvort hægt er leggjast lægra og sýna af sér auvirðilegra siðferði en þetta subbulið hefir sýnt af sér í poletikinni.

vgÞað verður grafskrift VG að það hafi í upphafi verið stofnað af hreinni sosialiskri hugsjón sumra er að komu, en einberri tækifærismennsku, siðblindu og óþokkainnræti hinna sem þóttust vera koma á laggirnar alþýðlegri hreyfingu. Hinir fyrrnefndu hrukku flestallir fyrir borð á fyrstu tíu árum VG, en eftir sátu undir árum óheiðarlegir og siðblindir undanrennurakkar, sem sýnna er að sitja á veisluklæðnaði og með pípuhatt við rúllettuborð kapítalismans en að berjast með alþýðunni að sjálfsögðum hagsmunamálum hennar.  


mbl.is Vill sekta fyrirtæki sem uppfylla ekki kynjakvóta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Draumurinn og axarskaftið í Nauthólsvík fór illa í blessaða konuna

galgiÞegar frú Ingveldur vaknaði í morgun var hún rottimbruð og út hófi stygg á geðsmunum. Hún lét það verða sitt fyrsta verk þarna í morgunsárið að lúberja Kolbein eiginmann sinn sofnandi í rúminu og kasta honum æpandi af skelfingu fram á gólf. Ástæða harkalegrar vöknunar frú Ingveldar var óþverra draumur sem hana dreymdi undir morgun og hrökk upp af.

Frú Ingveldi dreymdi sem sé, að nokkuð margar persónur af betra standi, sem frú Ingveldur hefur velþóknun á, höfðu verið handteknir og dæmdir til hengingar, og hún hafði verið viðstödd aftökuna og horfði bálill að horfa á máttarstólpa þjóðfélagsins dingla í snörunni. Og um leið og henni tókst að rífa sig frá svefninum haldlagði hún Kolbein, sem fyrr segir, misþyrmdi honum, en allt í hófi samt og Kolbeinn fékk bara kúlu á ennið, blóðnasir og vinstri úlnlið úr liði. Á eftir hringdi hún í aldavinkonu sína, þá margfrægu kvinnu Máríu Borgargagn, og sagði henni að hún hefði veitt djöflinum Kolbeini snemmbúna ráðningu og kvikindi hefði hlaupið skrækjandi til læknisandskotans. 

Þegar Kolbeinn hafði hypjað sig opnaði frú Ingveldur tölvuna og sá hina hrollvekjandi frétt af fjármálalegri framúrkeyrslu borgaródáma í Nauthólsvíkurbraggamálinu. Hún hrækti á tölvuskjáinn, í fullvissu um að þarna hefði verið framinn ófyrirgefanlegur stórglæpur og fyrir augum hennar dönsuðu hengdu stertimennin, skýrt og greinilega í snörum sínum. Þarna í stólnum tók frú Ingveldur þess dýran eið, að hefna grimmilega þeirra er hengdir vóru í draumi hennar, og búa svo um hnútana með dyggri aðstoð góðra manna og kvenna, að braggabófarnir muni fá makleg málagjöld fyrir verk sín ill, spillt og glæpsamleg. Svo hringdi hún í Ólaf trésmíðameistara og bað hann reisa fyrir sig sterkbyggðan hengingargálga að húsabaki við hús þeirra hjóna.


mbl.is Skjalavarsla vegna braggans ekki í samræmi við lög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver mun skera hvern eða hverja niður úr snörunni? Í upphafi átti endirinn að skoða

dog4Það vefst nú ekki fyrir honum Amríku-Vidda framkvæmdastjóra að vera kátur þótt fundi í kjaradeilu Eflingar við Reykjavíkurborg hafi verið frestað um óákveðinn tíma; en í þessu tilfelli gætu orðin ,,óákveðinn tími" einfaldlega þýtt að fundinum hafi verið frestað til eilífðarnóns. Ekki er að efa að Amríku-Vidda, sem aunginn hefir kosið til eins eða neins í Eflingu, og Bandaríkja-Solveigu þykir voða gaman að verkföllum, ekki síst eftir að þau sömdu fyrir megnið af sínum félagsmönnum fyrir nokkrum mánuðum um eitthvað allt annað og minna en þau gera kröfu um nú fyrir siggróna hönd verkamanna á leikskolum.

Nú er allt útlit fyrir að ríkisstjórn Katrínar Jákobsdóttur, þeirrar hinnar sömu og Bandaríkja-Solveig faðmaði sem mest að sér eftir hinn magnaða ,,Lífskjarasamning", mun bráðlega láta sverfa til stáls og setja lög á hina skemmtilegu vinnudeilu og verkföllin góðu, sem skemmta þeim Vidda og Solveigu so hjartanlega. Stenngrimur er tilbúinn með að láta Katrínu fara með fyrrnefnda lagasetningu inn í ríkisstjórn og úr ríkisstjórn inn á Alþingi, það sem samþykkt verður að svipta skötuhjúin verkfallsgleðinni. Og hvað gera bændur þá? Jú, þeir munu grénja og góla og stynja upp úr sér milli ekkasoganna valinkunnum frösum um kvenhatur og kvenfyrirlitningu og öðru sem slíku orðbragði heyrir til.

Og þótt besservisserar og 101. spekingar haldi að þeir hafi fundið upp hjólið í kjarabaráttu verkafólks, þá er það aldeilis rangt hjá þeim. Það hefur nefnilega gerst áður, að litlar einingar verkafólks hafa reynt til hins ýtrasta að ná hærri launatöxtum fyrir sig eftir að heildarkjarasamningar á vinnumarkaði hafa verið samþykktir. Stundum hafa einstaka félög fellt gerðan kjarasamning, eða hlutar verkamannahreyfingarinnar hafa reynt fyrir sér með verkföllum eftir undirritun aðalkjarasamnings, en því miður með engum árangri. Þannig mun fara með leikskolabardaga Bandaríkja-Solveigar og Amríku-Vidda. Í upphafi skal endirinn skoða og það mun svo koma í Katrínar Jákobsdóttur og ríkisstjórnar hennar að skera hið fyrirhyggjulausa fólk, Amríku-Vidda og Bandaríkja-Solveigu niður úr snörunni, sem þau hafa sjálf sér snúið. Að því loknu geta þau snúið sér óskipt að kosningabaráttu Demókrata-auðvaldsins í Bandaríkjunum.


mbl.is Myndi ekki skila árangri að funda í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skammhlaup varð í jafnréttistauginni, ríkisstjórnin vakti sig vitlausa og Íslendingar öskruðu: Gaman gaman!

dansSvo hún fékk Oskarsverðlaunin, ræfils kéllíngarkjökrið, það var áreiðanlega vel af sér vikið hjá henni. Þó það sem konan var verðlaunuð fyrir með Oskari séu víst mest nístandi óhljóð og skarkali, þá vöktu Íslendingar með sinni frauku langt fram eftir nóttu. Og þegar ljóst var hvur hampaði Oskarnum þá ruku Íslendingar á fætur allir saman og öskruðu og veinuðu ,,gaman gaman!"

Að sjálfsögðu vakti ríkisstjórn Íslands í nótt yfir þessum hégóma amríska kvikmyndaiðnaðarins og eins og ríkisstjórn broddborgarastéttarinnar sæmir þá sendi hún verlaunahafa Oskarsins hamingjuóskir, eða eitthvað því um líkt. Og ríkisstjórnin var svo undurglöð að hún sendi verkfallsfólki Eflingar á leikskolum í Reykjavík líka hamingjuóskir, kryddaðar bölbænum í garð borgarstjórnarinnar.

Nú, Katrín forsætisráherra, sem vissulega verðskuldar Óskarsverðlaun í leikaraskap og loddaratilburðum, upplýsti við þetta tækifæri að Oskarsverðlaunin til Íslands hefði snert hennar miklu jafnréttissinnataug. Það er nú það. Við höfum sjálf sé hvað Katrín er ógurlega jafnréttissinnuð, og jafnréttistaug sína beraði hún svo um munar þegar hún hljóp undir bagga með Engeyingum og tryggði völd þeirra og umsvif enn um sinn og ætlar sér nú í jafnréttisskyni að leyfa þeim að gefa sjálfum sér banka, sem ríkið eignaðist eftir að Engeyingar og Samherjar gengu af bankakerfinu steindauðu fyrir tíu árum. Svo ætlar Katrín líka, að skipun Stenngrims og Swabbóborgarastéttarinnar í VG, að gefa Engeyingum, Samherjum, Sjálfstæðisflokknum og auðvaldinu öllu Seðlabankann og seðlabankastjórann. Svo verður fólk að ráða við sig sjálft hvort það heldur að jafnréttistaug Katrínar hafi orðið fyrir skammhlaupi eða taugin sú hafi aldrei verið tengd, nema í mesta lagi við rassinn á auðvaldinu.  


mbl.is Ríkisstjórnin sendi Hildi hamingjuóskir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opinbert guðlast framið á Skólavörðuholti í kvöld

marry4Það er alltaf svo gaman að sálumessum, ekki síst sálumessum yfir jöklum. Og undur er sjarmerandi að fá sona sálumessu upp á vegg með borgarstjórakiðlinginn, sem sveltir leikskolakonur heilu hungri, ropandi upp úr sér einhverri gáfumannakássu úr 101 jafningi. Það segir að ,,kirkjan hafi breyst í listaverk" þó svo að húsameistari ríkisins hafi á sínum tíma rissað Hallgrímskirkju niður á blað sem listaverk og góðir menn síðan byggt hana upp sem listaverk. En nú eru nútímasnillingar farnir að breyta listaverkum í listaverk fyrir augunum á fólki. Já, þær láta ekki að sér hæða framfarirnar meðan nýsosialistar setja út leikskolaverkföll að hætti nýverkalýðseflingar.

En svo vér víkjum aftur að þessu með sálumessu jöklanna. Eru það jöklarnir sem flytja sálumessuna, eða eru það einhverjir til þess bærir aðilar sem syngja sálumessuna yfir jöklunum? Það hefir hvurgi komið fram að á hvurn veginn þessi sálumessa er. Svo héldum vér í vorri einfeldni að sálumessur væru kaþólskur siður og að það væri guðlast, sem varðaði við bannfæringu, að fremja sálumessu á útveggjum evanígélísk-lutherium guðshúss. Og það skulu með gjöra sér fulla grein fyrir, að bannfæringar eru aldeilis ekki úr sögunni á Íslandi, fjarri því.

Í einu framúrskarandi prestakalli hér á landi stafar prestur, sem tekið hefir upp bannfæringar með góðum árangri. Þeir er bannfærðir hafa verið fá ekki legstað í vígðri mold, heldur hefir presturinn sjálfur með sveinum sínum urðað þá bannfærðu úti á víðavangi, öðrum óþokkum til varnaðar. Og einn hinna bannfærðu, sérlega guðlaus uppskafningur með ýmiskonar glæpi á samviskunni sem hann iðraðist ekki, lét presturinn sveina sína fleygja í hlandforarvilpu og sökkva honum þar til botns. Það er því eins gott fyrir dárana, sem vörpuðu jöklasálumessu upp á hina virðulegu Hallgrímskirkju á Skólavörðuholti, að verða ekki á vegi síra Baldvins prests og prófasts til Gemlufallaþinga.



mbl.is Sálumessu jöklanna varpað á Hallgrímskirkju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar doktórinn fer í handalögmál við Dalvíkinga verður ógn gaman

do1.jpgÞað verður gaman að sjá þegar doktór Þórólfur leggur til atlögu við djöflana og tekur þá með valdi og lakar þá af svo þeir smiti ekki annað fólk og drepi það úr kórónu. Og gnægð eigum við af húsnæði til að geyma pestargemlinga í. Upp til sveita er fjöld ónotaðra húsa, húsa sem ekki hafa verið brúkuð til neins í mörg ár, jafnvel áratugi; fjárhús, fjós, hlöður, súrheysturnar, hrútakofar, hesthús, hvurt og eitt velbrúklegt undir óþrifalið sem grunað er að bera drepandi baktéríuvírusa í sér. Þetta hættulega fólk verður fóðrað eins og hvur önnur húsdýr, svo kýr og kindur, blárefir og mínkar; trosinu verður hrúgað í jötur og fóðurganga og síðan ganga hinir einangruðu örna sinna í fjósflórnum elligar þeir skríða undir grindurnar í fjárhúsunum.

Fróðlegast verður þó að sjá doktór Þórólf eiga í handalögmálum við sjálfa Dalvíkingana og ferðaþjónustufrömuðina. Það má mikið vera ef doktór Þórólfur verður ekki undir í þeim hildarleik og verði fótum troðinn niður í svaðið. Þá er og mikið af látið hvusslags endemis erkiskelmar Dalvíkingarnir eru; þeir valsa út um allar þorpagrundir hjá oss á Íslandi, hvernig sem viðrar, og láta oft fremur dólgslega við heimamenn, ekki síst þjóna á vertshúsum. Og fyrir skemmstu neyddu nokkrir svangir Dalvíkingar kokkinn á vertshúsinu með flugbeittum rýtíngi til að brytja þjóninn niður í gúllach og pönnusteikja hann nokkurn veginn í gegn.

Eins og fram hefir komið er ekki þrautalaust að vera þjónn á veitingarhúsum á Íslandi nú til dags, því alltaf má búast við gestum sem éta allt, í orðsins fyllstu merkingu allt. Og ýmislegt hafa þeir í vertabransanum lært af Dalvíkingum og öðrum fjarlægum þjóðflokkum, sem lagt hafa leið sína til Íslands upp á síðkastið. Í þorpi úti á landi hurfu á dularfullan hátt nær allir hundar heimamanna og kettir hafa ekki sést þar síðan þessa örlagaþrungnu helgi. Er mál manna að veitingamaður úr öðru þorpi hafi komið þar með kokkum sínum og þjónum og jagað öll gæludýr sem á vegi þeirra urðu. Svo kvisaðist út, að þeir hefðu spaðsaltað um það bil helminginn af hundsföllunum, en hitt hafi ýmist hafnað í reyk og orðið að hángikjöri eða hamborgarahund, hakki eða þá kokkað ferskt og borið fram með sósu og brúnuðum kartöflum. Kisurnar fóru aftur á móti í hátíðarkæfu, sem þeir kölluðu ,,paté du la ros" og var meðal rétta á jólahlaðborði það árið og var af gestum étin fyrst allra rétta upp til agna.  


mbl.is Geta ekki tekið fólk með valdi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Formenni róttæka ofurvinstriflokksins með grænskituna

x22Fyrst gróðinn af ríkisbönkunum er svona geðugur er ekki fuðra þótt formanni hinnar róttæku Vinstrihreyfingar grænu framboði, þyki mál til komið að afhenda fjármálamönnum, sem freklega elska féð, þessa banka til þess þeir geti nú tekið aðra umferð á að skræla þá og skafa innanfrá, þar til þeir velta á hliðina eins og skotin mjólkurkýr. Alveg eins og hér um árið þegar öll einkabánkelsin ultu steindauð og galtóm út í skurð.

Vissulega vænta margir góðs af bankasölum formanns róttæka vinstriflokksins á næstunni. Eftir að róttæki vinstriflokkurinn losnaði við Ögmund Jónasson, sem Katrínu, Stenngrimi og Swbbó þykir hið mesta leiðindaskáld og fornaldaramboð, þá ekki ekki lengur neinn sem hefur uppi kjafthátt gegn einkavæðingum og bankasölum. Leiðin er sem sé greið til að taka höndum saman við Bjarnaben og Engeyinga, Samherja og Óláf stórbónda að Miðhrauni I. og koma bankaskröttunum aftur í réttar höndur. Gamli og litli Björgólfur, Finnur, Siggi og hinir strákarnir eru að sögn tilbúnir í slaginn; þeir eru meira að segja búnir að hanna nýtt og fullkomið Icesave og koffortin undir seðlana úr Seðlibankanum er tilbúin á sínum stað.

Það er nú meira hvað hún Katrín okkar hérna, formaður róttæka ofurvinstrflokksins, hefir veist margar orður og nafnbætur á síðustu árum; þetta hefir liðið upp í höndurnar á henni fyrirhafnarlaust og allur galdurinn er bara að hlýða og vera í hvívetna undirgefin Stenngrimi, Álfheiði og Swabbóliðinu. Svo er hún, og trúlega Swandeesý Sendiherrans líka, búnar að fara í gegnum markþjálfun í stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins í Valhöllu.


mbl.is Hagnaður Landsbankans 18,2 milljarðar í fyrra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frú Andersen er búin að vera og bráðum verður híað á hana

dom_1272956.jpgFrú Andersen er buguð. Hún hefir gefist upp. Hún horfir upp á að það verði híað á hana á Íslandi og á evrópuvísu fyrir að hafa klúðrað heilu dómstigi, glutrað því niður, eins og þegar mönnum og konum verður það á að missa farsímann ofan í klosettið, beint oní kukkinn og hlanið. Svo sem sjá má á myndum, er frú Andersen orðin áberandi föl, horuð og þreytuleg og afar taugaveikluð, enda ekki að furða því  helvískur Mannréttindadómstóllinn hefir reitt upp hamarinn og hyggst keyra hann af feiknaafli ofan í skallann á frú Andersen svo kvarnirnar fara á flug inni í skallanum og glamri þar lengi á eftir.

En hvað getur frú Andersen gert? Ekki neitt, ekki neitt. Það er búið að setja hana af, Bjarniben hefir ekki neitt álit á henni og meira að segja Miðflokkurinn er ófáanlegur til að taka við henni. Hvað gerir frú Andersen þá? Ja, hún gæti reynt að raula sálminn ,,Maxwells silver hammer" eftir sálmaskáldið Pál McCartney frá Liverpool. Ef hún fær aungva huggun út úr silfurhamrinum hans Maxwells gæti hún reynt að fá vinnu í mötuneyti eða í saltfiski suður með sjó. En Sjálfstæðisflokkurinn vill ekkert með hana hafa lengur eftir útreiðina fyrir Mannréttindadómstólnum.

Nú jæja, oss er alveg nákvæmlega sama hvað um frú Andersen verður; það er bara Sjálfstæðisflokkurinn sem þarf að hafa móral og íllvígt hugarangur út af henni. Þó vitum vér að frú Ingveldur og Kolbeinn Kolbeinsson skrifstofustjóri og framsóknarmaður mundu gjarnan vilja skjóta skjólshúsi yfir frú Andersen, það er að segja ef henni tekst að sitja á strák sínum og raska ekki alsherjarreglu á heimili þeirra hjóna. Frú Ingveldur sagði, þegar þetta var borið undir hana, að hún gæti vel hugsað sér að hafa frú Andersen sem herbergisþernu og stofustúlku um helgar þegar hin marg-margrómuðu helgarsamkvæmi fara fram að heimili frú Ingveldar og Kolbeins. - Þó gæti hugsast, bætti frú Ingveldur við, - að þorpararnir Brynjar Vondalykt og Indriði Handreður, já, og jafnvel Máría Borgargagn, væru líkleg til að koma illa fram við frú Andersen, móðga hana og græta með ónærgætinni framkomu og ýmsum sérkennilegum tiltektum sem það fólk hefir vanið sig á. - En við sjáum hvað setur, sagði frú Ingveldur að lokum.


mbl.is Á ekki von á viðsnúningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband