Leita í fréttum mbl.is

Frú Ingveldur og hennar fólk lesa passíusálmana í Seláskirkju

sera1.jpgMikið er dásamlegt þegar allskonar syndaselir og vandræðafólk tekur sig til á föstudaginn langa og klöngrast uppí predikunarstóla í kirkjum landsins til að urra uppúr sér Passíusálmunum hans Hallgríms sáluga Péturssonar. Fyrir nokkrum árum fór kunningi minn einn á svona passíusálmalestur og sat undir ósköpunum í rúmar tvær klukkustundir. Hann hefir ekki náð sér síðan, verið út og inn af geðdeildum og ekki mönnum sinnandi; það fékk sem sé svona illa á hann að vera viðriðin helgispjöll.

Snemma í morgun þurstu í kirkju til passísálmalesturs þau frú Ingveldur, Kolbeinn Kolbeinsson, Máría Borgargagn, Indriði Handreður, Óli Apaköttur, Brynjar Vondalykt, Haffi Frænka, Truggi Fokk og Vigga Sleggja. Þau létu aka sér í svartri limmósíu á áfangastað og skáluðu af krafti í kampavíni á leiðinni.

Frú Ingveldur sté fyrst í stólinn og hóf lesturinn með því að orga: ,,Upp, upp mín sál og allt mitt geð," í sömu tóntegund og þegar verið er að skamma óstýrilátan hund sem hefur hlaupið óbeðinn í fjárhóp til að tvístra honum, en fylginautar frú Ingvaldar, sem allir sátu á fremsta bekk kvökuðu og gögguðu af hrifningu og létu pelann ganga.

Þegar frú Ingveldur hafði af ómældum skörungsskap lokið við 1. sálm var röðin komin að Kolbeini Kolbeinssyni skifstofustjóra að lesa. Hann slangraði eins og gúmmíkall uppað predikunarstólnum, en varð fótaskortur strax í fyrstu tröppu (það eru nefnilega fimm tröppur uppí stólinn atarna) og stakkst á höfuðið framhjá stólnum og hafnaði við fætur félaga sinna, sem sátu eins og áður segir á fremsta bekk. Í næstu tilraun tóks Kolbeini að rata á réttan stað og gat hafið lesturinn. Þegar þar var komið var Kolbeinn því miður orðinn svo ruglaður eftir byltuna, að hann var farinn að sjá tvöfalt og fór því ítrekað bæði línu- og sálmavillt með tilheyrandi rykkjum og skrykkjum, tafsi, umli og löngum rokum. Loks skarst sóknarpresturinn í leikinn og leiddi Kolbein frá ókláruðum sálminum fram í skrúðhús og gaf honum messuvín svo hann gæti náð sér.

Þegar Kolbeinn var á braut, fóru vinir hans og vinkonur hvert af öðru til lesturs og gekk á ýmsu. En þegar Vigga Sleggja missti annað brjóstið uppúr hálsmálinu í miðjum sálmi þókti öðrum kirkjugestum nóg komið og flýttu sér útúr musterinu og hröðuðu sér heim.

Þegar til fréttist síðast, vóru frú Ingveldur og hennar fólk enn að lesa og áttu mikið eftir. Yfirbragðið á andanum í guðshúsinu hafði breyst úr kyrrum alvöruþunga í glaðhlakkalega og klúra knæpustemmningu og sóknarpresturinn kominn á fullt í selskapinn.
mbl.is Passíusálmar fluttir á ýmsa vegu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Er þetta frú Ingveldur þarna berrössuð að mestu ? :-)

Níels A. Ársælsson., 18.4.2014 kl. 15:49

2 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Eða Sleggjan.

Jóhannes Ragnarsson, 18.4.2014 kl. 18:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband