Leita í fréttum mbl.is

Vinstripólitík á Íslandi í klessu.

Það hefur verið einkar fróðlegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið, að fylgjast með hinum svokölluðu ,,vinstriflokkum" frá því úrslit lágu fyrir í alþingiskosningunum sunnudagsmorguninn 13. maí síðastliðinn. Að fá að horfa upp á Samfylkinguna og VG, eins og lóða hunda, nudda sér af áfergju utan í íhaldstíkina, er eiginlega óborganlegt, þó vissulega megi óska sér einhverrar geðfelldari sýningar. Og hæstum hæðum náði lóðaríið þegar íhaldstíkin opnaði náðarsamlegast helgidóm sinn fyrir Samfylkingunni á Uppstigningardag og leyfði henni þar með, að vígja mótvægi sitt gegn Sjálfstæðisflokknum.

Í framhaldi af lauslætisframferði Samfylkingar og VG gagnvart Sjálfstæðisflokknum, kemst maður ekki hjá því að spyrja: Hver andskotinn er eiginlega að á vinstri vængnum á Íslandi? Getur það verið, að eftir öll rassaköstin síðastliðin 10 ár, sitji þjóðin uppi með þríeinan Framsóknarflokk (Framsókn, Samfylkingu og VG) sem á sér ekkert háleitara markmið en að komast í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, fulltrúa auðvalds, yfirgangs og græðgi? Til hvers í ósköpunum er verið að gera þessa meintu ,,félagshyggjuflokka" út?

Ég hef frá upphafi haft fremur litla trú á Samfylkingunni, eiginlega séð fátt í henni annað en daður við hægripólitík og stjórnlausa tækifærismennsku. Þrátt fyrir það, var ég samt að vona, að Samfylkingin myndi neita sér um að nota fyrsta mögulegt tækifæri til að komast uppí hjá Sjálfstæðisflokknum. En eftir atburði gærdagsins stöndum við frammi fyrir þeirri staðreynd að Samfylkingin er algjörlega karakterlaus flokkur sem tæpast á tilverurétt, a.m.k. ekki þegar vinstripólitík er annarsvegar. Og hvað segja almennir kjósendur Samfylkingarinnar, sem kusu flokkinn í góðri trú um að hann væri raunverulegt mótvægi við Íhaldið? Það kæmi mér ekki á óvart, þó mörgum þeirra finnist að þeir hafi verið hafðir að fíflum.

Og hvernig er með ,,hinn vinstriflokkinn"? Þaðan berast nú þær fregnir einar að þar sé allt uppíloft af sorg yfir því að hafa orðið undir í samkeppninni við Samfylkinguna um ástir Íhaldsins, fyrir nú utan að VG bætti mun minna fylgi við sig í kosningunum en vonir stóðu til. Svona er nú vinstri róttækninni varið á þeim bæ.  Það er alveg ljóst, að það þarf að hreinsa verulega til í VG ef að sá flokkur vill á annað borð vera tekinn alvarlega sem róttækur vinstriflokkur. Ég hef í nokkur ár gert mér grein fyrir að VG er klofinn flokkur eftir endilöngu. Annarsvegar eru það vinstrisinnarnir, sósíalistarnir sem vilja flokkurinn sé í grunninn byggður á stéttarbaráttu og sæki styrk sinn og tilverurétt til alþýðunnar í landinu, verkalýðsstéttarinnar. Hinsvegar er það Græna Kvenfélagið sem saman stendur af gömlu, ljótu flokkseigendaklíkunni úr Alþýðubandalaginu, menntaliði sem aldrei hefur komist út fyrir bómullarumhverfi háskólalóðarinnar, öfgafullum stóriðjuandstæðingum og kengrugluðum, háværum femínistakór. Það þarf ekki að taka fram að Græna Kvenfélagið ræður lögum og lofum í VG og gerir það að verkum að þar er engin ,,Vinstrihreyfing" á ferð. Þó að þingflokkur VG hafi stækkað um fjóra fulltrúa í kosningunum hefur hann ekki fríkkað að sama skapi og engin ástæða til að búast við nokkru gáfulegu úr þeirri átt, nema ef til vill bröndurum Jóns Bjarnasonar sem kæta hið pólitíkurlausa hjarta Katrínar Jakobsdóttur svo mjög.

Við þær aðstæður sem nú eru uppi, er nauðsynlegt að sósíalistarnir í VG og Samfylkingunni, sem og þeir sósíalistar sem standa utan þessara flokka, setjist niður sem fyrst til að meta stöðuna og ráða ráðum sínum. Það gengur ekki að láta eitthvert sjónhverfingalið og tækifærissinna vaða aftur á bak og áfram í nafni vinstristefnu sem engin innistæða er fyrir. Þennan ósóma ber okkur sósíalistum að stöðva og það er vel hægt ef vilji er fyrir hendi. Góðir félagar, oft var þörf en nú er nauðsyn.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband