Leita í fréttum mbl.is

Þá fyrst höndlaði hún frelsið

ingv17.jpgEinhverju sinni stóð til að reisa upp æru Máríu Borgargagns og það gekk nú sona og sona. Það höfðu sem sagt magnast upp sögur varðandi meint lauslæti, vergirni og frillulíferni Borgargagnsins uns svo var komið að að ekki væri lengur við þenna óþverra búandi fyrir konuna. Þá hugkvæmdist einhverjum velunnara hennar, sumir segja frú Ingveldi aðrir Kolbeini Kolbeinssyni, að mál væri til komið að æra Máríu Borgaragns væri reist upp og djúphreinsuð og fínpússuð þar til hún glampaði eins og saklaus stjarna á festingunni. Fyrst var athugað hvort ekki finndist læknir, helst kvensjúkdómalæknir með doktorsgráðu, til að skrifa upp á að Borgargagnið væri hrein og óspjölluð mey. Því miður fyrirfannst enginn úr læknastétt sem treysti sér til að gefa vottorð upp á þessháttar, nema gamall og blindur skottulæknir sem krafðist ótilkvæmilegrar greiðslu fyrir greiðann. Þar með var þessi leið úr sögunni.

Þá kom til kasta frú Ingveldar, sem gerði sér lítið fyrir og boðaði tólf konur af góðu standi á sinn fund og bauð þeim að vitna um að óþrifnaðarsögur um óábyrgt kynferðislíf Máríu Borgargagns væru allar úr lausu lofti gripnar. Vergirni og lauslæti hefði alla tíð verið Máríu svo fjarri sem mest mætti og raunar hefði hún verið hálfnáttúrlaus frá unga aldri og vart við kallmann kennd svo bragð væri af. Hinar tólf vel ættuðu frúr tóku þegar í stað upp pennann og skrifuðu undir áttatíu blaðsíðna greinargerð sem frú Ingveldur hafði samið sjálf í smaráði við Borgargagnið, hvar flekklaust líferni hennar var tíundað í þaula á hvurri blaðsíðu. En hinar illu tungur voru fljótar að kveða hinar áttatíu blaðsíður niður með þeirri umsögn að þarna væri um svo magnaða lýgi að ræða að Munkhausen barón bliknaði við hliðina á þessum ósköpum. Og graðsögurnar af Máríu Borgargagni færðust nú svo hryllilega í aukanna að það litla sem eftir var af æru hennar hvarf öldungis með öllu þannig að ekkert var lengur fyrir hendi til að reisa upp. Síðan hefir Máría Borgargagn verið alveg mannorðslaus og þegar frá leið varð hún dauð lifandis fegin að vera laus við þennan andskota sem hreint mannorð svo sannlega er.

Í dag segir Máría Borgargagn hverjum sem heyra vill, að þá hafi hún fyrst öðlast fullkomið frelsi þegar hún losnaði við æruna og mannorðið í eitt skipti fyrir öll. Undir þetta tekur frú Ingveldur og Kolbeinn eiginmaður hennar, en þau eru bæði ærulaus og hátt skrifuð hjá sterkustu borgaraflokkunum og hagsmunasamtökum atvinnulífsins. Og Brynjar Vondalykt hefir meira að segja á opinberum vettvangi viðrað þá hugmynd að nauðsynlegt sé að stofna æruleysissöfnuð til að útbreiða frelsunarboðskap æruleysisins og gera æruleysið að óhjákvæmilegum fylgihnetti frjálshyggjunnar í poletik. 


mbl.is Nöfn afmáð úr gögnum um uppreist æru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband