Leita í fréttum mbl.is

Ráðskonan á Holtavörðuheiðinni

ingv1.jpgKemur mér þá í hug ljóðið um ráðskonuna á Holtavörðuheiðinni, sem ég kann þó ekki nema blábyrjunina á, þegar bílar sitja fastir á þessari heiði og Vegagerðin búin að loka henni fyrir umferð. Gæti það orðið kaldsöm ferð, ef þeir færu nú að teyma ráðskonukjökrið atarna upp um fjöll, eins og frá er greint í ljóðinu, í jafn kolvitlausu veðri og þar geysar þessa stundina. Ekki er einusinni víst, að mörgum björgunarsveitum tækist að bjarga ráðskonunni úr þeim aðstæðum og mundi hún vísast frjósa í hel á frostköldum mel í höndunum á hinum góðu kunningjum sínum, sem teymdu hana ,,upp um fjöll" í þessari voðalegu ófærð.

Dettur mér þá líka í hug konugarmurinn, óttalegt nástrá, sem fékk upphringingu frá lögregluvarðstjóranum um miðja nótt, sem tilkynnti henni umbúðalaust, að hún væri grunuð um hrottafenginn glæp og væru tvö fórnarlömd hennar búin að kæra hana nú þegar. Varðstjórinn tilkynnti henni ennfremur, að hann væri að legga af stað með mönnum sínum til að sækja hana og væri eins gott að hún byggi sig strax út til langrar fangavistar og væri tilbúin þegar þá bæri að garði. Úti geysaði fárviðri, rétt eins og á Holtavörðuheiðinni nú, en það aftraði ekki konukindinni frá því að æða út í hríðina og flýja margra kílómetra leið undan réttvisinni. Síðar kom í ljós, að það var ekki varðstjórinn sem hringdi í veslings konuna, heldur tveir alræmdir götustrákar á fylliríi og þar með var málið látið niður falla. En flótti konunnar þessa nótt þókti mikið þrekvirki og óx hún heldur í áliti almennings fyrir vikið.

Á þeim ótvíræðu menningartímum, sem við lifum í dag, spyrja konur hvaðanæva úr veröldinni, hver aðra: ,,Ert þú ráðskonan á Holtavörðuheiðinni, ert þú ráðskonan á Holtavörðuheiðinni?" Og hin svarar jafnhraðan: ,,Já, ég er ráðskonan á Holtavörðuheiðinni." Því miður hafa hinar vösku meyjar nútímans á röngu að standa. Aungin þeirra kemst í háfkvisti við margnefnda ráðskonu og enn síður við kvinnuna sem hélt út í fárviðrið til að lenda ekki í klóm réttvísinnar. Ég legg til að ráðskonunni á Holtavörðuheiðinni verði reist 350 metra há stytta, skammt frá þjóðveginum, hvar hann rís hæst þar á heiðinni, til minningar um miklar konur á Íslandi, sem því miður munu útdauðar fyrir nokkru. 


mbl.is Bílar fastir á Holtavörðuheiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband