Leita í fréttum mbl.is

Höfum við gleymt vorum besta manni og stolti þjóðar vorrar?

kolb12.jpgHöfum við þá gleymt okkar besta manni, stolti þjóðar vorrar? Hræddur er ég um það. Ekki hefi ég heyrt minnst á ritsnillinginn Jón Rithöfund, né séð nafn hans á prenti, í fjölmörg ár. Það er aungvu líkar en öll þjóðin hafi sameinast um að láta sem hann hafi aldregi verið til. Hið sanna er, að Jón Rithöfundur er við bestu heilsu, Drotni sé lof, hérna megin grafar. Og þó Íslendingar þykist ekki muna eftir þessu fyrrum ástsæla þjóðskáldi voru er nafn hans á hvurs manns vörum í útlöndum þar sem hann er elskaður og dáður af ungum sem gömlum.

Það þókti stórviðburður er fyrsta ljóðabók Jón Rithöfundar kom út, en fyrsta erindi hennar hefst á þessum leiftrandi orðum: Kona mín er kroppinbakur með klepra á vissum stöðum". Raunar er þessi bók, sem ber nafnið ,,Hjónabandsraunir mínar" einn stór ljóðabálkur, sem skáldið tileinkar eiginkonu sinni. Ljóðabók þessi varð að vonum ákaflega umdeild og brutust stundum út slagsmál á vertshúsum og á dansleikjum út af henni. Sumum þókt sem Jón Rithöfundur gerði heldur lítið úr konu sinni, aðrir vóru þeirrar skoðunar að kerlingarskömmin hefði unnið fyrir kviðlingunum með fádæma þrjósku sinni og subbuskap.

Jón Rithöfundur fylgdi svo sögu sinni eftir með fleiri afburða ljóðabókum, skáldsögum og leikritum. Það kom því fáum á óvart þegar þetta lárviðarskáld vort fékk nóbelsverðlaunin fyrir fádæma andríki og stílbrigði, sem aðeins ofurmenni hafa á valdi sínu. Um hríð snobbuðu Íslendinga allt hvað af tók fyrir nýfengnum nóbelsmanni og hann varð tíður gestur í veislum betri borgara landsins sem skriðu nú eins og rakkar fyrir fótum snillingsins. Svo gerðist það dag einn, að nafni Jóns, Jón Bókmenntarýnir, skellir því framan í þjóðina að kvæðastagl nóbelsskáldsins sé meira og minna eintóm helvítis lýgi og skítaskapur. Til dæmis fann Jón Bókmenntarýnir nafna sínum til foráttu, að hann hafi aldrei átt konu því allar konur hafi til þessa þókt maðurinn forljótur og fráhrindandi og með túberað kviðskegg, og að aungin kona með þokkalega sjálfsvirðingu hefði lyst á að leggjast með annarri eins skepnu, hvað þá ganga í hjónband með þessum aumingja. Féllu þá allar stoðir undan trúverðugleik ljóðabálksins ,,Hjónabandsraunir mínar". Og þar með hrundi orðstír Jóns Rithöfundar innanlands og hann gleymdist - sem betur fer, segja margir.


mbl.is Neitaði að virða grímuskyldu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband