Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Sprengjuregn í boði Íslensku ríkisstjórnarinnar.

Ég geri ráð fyrir að ríkisstjórn Íslenska lýðveldisins gleðjist við hverja sprengju sem springur í Írak, ekki síst fyrir þá sök að Íslenska ríkisstjórnin skrifaði á sínum tíma upp á velviljayfirlýsingu við þetta glæsilega sprengjuregn og þær óhjákvæmilegu hörmungar sem því hefur fylgt.

Hvenær ætli sá dagur rísi að ríksstjórnin okkar sýni einhver iðrunarmerki og biðjist fyrirgefningar á þátttöku Íslands á lista hinna viljugu og staðföstu? 


mbl.is Sprenging í íraska þinghúsinu - tveir þingmenn látnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er lækning við óperusöng í sjónmáli?

Gaman væri að vita hvort blessuðum vísindamönnunum hafi orðið eitthvað ágengt í að finna upp lækningu við óperusöng. Það er löngu ljóst að mannkyninu sárvantar lyf eða meðferð við þessum hvimleiða sjúkdómi, sem plagar alltof margar þjóðir, einkum á vesturlöndum. Ég botna hreinlega ekkert í að enginn stjórnmálaflokkur á Íslandi skuli hafa á stefnuskrá sinni ,,að veita miklum fjármunum í rannsóknir sem miða að því að finna lækningu við óperuvágestinum." 


mbl.is Nýr áfangi í baráttunni við krabbamein
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsóknarhreyfingin VG í NV-kjördæmi.

Eins og fram hefur komið, virðist engu máli skipta hvaða einstaklingum er raðað í efstu sæti VG; í öllum kjördæmum landsins er flokkurinn í fljúgandi uppsveiflu. Meira að segja í Norðvesturkjördæmi mælist VG með 23% fylgi í skoðanakönnunum, þrátt fyrir að seint verði hægt að reka upp húrrahróp fyrir lista þeirra í kjördæminu. Þegar litið er til fjögurra efstu frambjóðenda VG í þessu kjördæmi, fær maður ósjálfrátt á tilfinninguna að þar sé á ferðinni b-hópur bændaarms Framsóknarflokksins í kjördæminu. Þó skal því haldið til haga að tilkoma Jóns Bjarnasonar í VG, lá í gegnum afhroð hans í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðurlandskjördæmi - vestra fyrir rúmum átta árum. Síðan hefur hann fengið að valsa um óáreittur á vegum VG, vel verndaður undir vængbarðinu á Steingrími formanni, gjammandi í fornfálegum framsóknarstíl.

Það er eitthvað kostulegt að hjá VG í Norðvesturkjördæmi og greinilegt að metnaðurinn er lítill hjá flokksmönnum. A.m.k. er það engin ,,vinstrihreyfing" sem fer fram undir merkjum VG í því kjördæmi.


mbl.is VG bætir við sig í Norðvesturkjördæmi samkvæmt könnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérhver krypplingur á sínum stað.

Það mætti ætla, að eitthvað stórbrotið sé á döfinni hjá þeirri hervönu þjóð Þjóðverjum. Nú, ef það er meiningin hjá þeim að koma fram hefndum fyrir ófarirnar á síðustu öld, veitir þeim sannarlega ekki af, að tjalda öllu sem til er, allt frá farlama gamalmennum og niður í kornabörn. Að minnsta kosti sagði góði dátinn Svejk við svipað tækifæri, ,,að þegar útlitið er svona svar verður sérhver krypplingur að vera á sínum stað." og bætti síðan við og beindi máli sínu til frú Muller: ,,Ljúkið þér svo við að hita kaffið eins og ekkert sé."
mbl.is Fjögurra vikna gamall drengur kvaddur í herinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að kunna ekki að skammast sín.

Hvenær ætla Íslensk stjórnvöld að hunskast til að taka okkur af stuðningslista Bandaríkjamanna varðandi blóðbaðið í Írak? Ef til vill aldrei? Í mínum huga flokkast aðild Íslands að þessu óþverrastríði undir landráð. Það minnsta sem ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks geta gert, er að draga okkur úr stuðningsliði Bush og biðja í framhaldi af því Íröksku þjóðina, sem og þá Íslensku, fyrirgefningar á framferði sínu. En kanske er hér til of mikils ætlast af ríkisstjórn, sem tamið hefur sér hroka og yfirgang og hefur þar af leiðandi fremur litla hæfileika til að kunna að skammast sín. 
mbl.is Rauði krossinn segir þjáningar Íraka aukast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ragnhildur segir sig úr VG.

Það er umhugsunarvert, að sama dag og VG birtir sín háleitu markmið varðandi afnám fátæktar á Íslandi, sagði Ragnhildur Guðmundsdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur, sig formlega úr Vinstrihreyfinguni - grænu framboði. Ragnhildur, sem lengi hefur barist fyrir bættum kjörum fátæks fólks og Íslenskrar alþýðu almennt, var í hópi þeirra sem stofnuðu VG og var starfsmaður flokksins um skeið. Því miður féll þessi ágæti félagi í ónáð hjá Steingrími J. og flokkseigendaelítunni sem Steingrímur reiðir sig fyrst og fremst á innan eigin flokks.  
mbl.is VG leggur fram áætlun um að útrýma fátækt á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

23,6% þrátt fyrir Kolbrúnu Halldórs og Álfheiði Inga.

Það er heldur betur flug á VG þessa dagana í skoðannakönnunum, svo sem sjá má. Nú er svo komið, að maður er farinn að gera sér vonir um að útkoma flokksins í kosningunum sjálfum verði ekki allmiklu lakari en kannanirnar segja til um. Síðan verður að koma í ljós hvað VG ætlar að gera við allt þetta mikla fylgi. Það væri t.d. alveg hroðalegt ef Steingrímur og co létu sig hafa að brúka stóraukið fylgi til að skríða uppí bólið hjá sjálfu erkiíhaldinu, eins og ýmsir halda fram. Í ljósi umræðunnar um hugsanlega ríkisstjórn VG og Sjálfstæðisflokks, finnst mér að frambjóðendur VG eigi að taka af skarið og lýsa skýrt og skorinort yfir, að það komi ekki til greina af hálfu VG að ganga til ríkisstjórnarsamstarfs við íhaldið. Geri þeir það ekki mun Steingrímur, og hans fólk, hafa þessa þrifalegu kenningu yfir höfðinu fram á kjördag með þeim afleiðingum sem hún getur haft, þ.e. þverrandi fylgi fram á kjördag.

Það er til merkis um tiltrú fólks á VG þessa daganna, að það virðist nákvæmlega sama hvaða einstaklingar það eru sem tróna á toppum framboðslista þeirra. Það er t.d. stórmerkilegt, að VG skuli mælast með 23,6% í Reykjavíkurkjördæmi Suður, þrátt fyrir Kolbrúnu Halldórs og Álfheiði Ingadóttur í efstu sætum, en þær eru vægast sagt, ákaflega lausar við allt sem kalla má kjörþokka og mikið álitamál hvort forsvaranlegt sé fyrir VG að bjóða upp á slíka forustusauði eða hafa þá yfirleitt í farangrinum. 

 


mbl.is VG og Sjálfstæðisflokkur bæta við sig fylgi í Reykjavík suður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsóknarflokkinn á ruslahaug sögunnar í vor.

Það er ekki á Framsóknarflokkinn logið. Ennþá einusinni á að ljúga kjósendur til lags við sig með háspenntum kosningaloforðum og fagurgala.

Sannleikurinn er sá, að Framsóknarflokkurinn á hvergi betur heima en á ruslahaugi sögunnar og vonandi verða kjósendur samtaka í að flytja hann þangað á kjördag.


mbl.is Framsóknarmenn boða áframhaldandi uppbyggingu atvinnulífsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lennon og borgarastéttin.

Þegar friðarsúla í minningu John Lennon verður komin í gagnið, er ekki eftir neinu að bíða fyrir ríkisstjórnina að láta stika Ísland út af lista Bandaríkjamanna yfir hinar viljugu stríðsþjóðir í Írak, annað er ekki við hæfi.

Annars er hálfbroslegt að sjá hvernig íhaldsgengið snobbar fyrir frú Lennon, en eins og kunnugt er, var broddborgaraelítunni, hérlendis sem erlendis, meinilla við Lennonhjónin enda var John sálugi heldur langt til vinstri fyrir smekk borgarastéttarinnar.


mbl.is Yoko Ono enn stödd á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjávarútvegur og Sjálfstæðisflokkurinn.

Eftirfarandi samsetningur er úr drögum að landsfundarsamþykktum Sjálfstæðisflokksins:

,,Núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi hefur skilað þjóðinni miklum ávinningi. Aflamarkskerfi með framseljanlegum heimildum hefur leyst úr læðingi kraft og frumkvæði íslenskrar útgerðar og fiskverkenda. Kerfið byggir á þeirri grundvallarstefnu Sjálfstæðisflokksins, að frelsi einstaklingsins fái notið sín samfara ábyrgð á eigin athöfnum. Þannig hefur verið horfið frá stefnu ríkisforsjár og hafta. Landsfundurinn telur að festa eigi aflamarkskerfið enn betur í sessi og minnka pólitíska óvissu sem fælir aðila úr greininni og gerir hana síður samkeppnisfæra um fjármagn. Gera þarf sérstakt átak í að einfalda stjórnkerfi veiðanna og auka gegnsæi þess með því að draga úr sérstökum úthlutunum og skorðum og öðru því sem felur í sér mismunun gagnvart einstökum fyrirtækjum og byggðarlögum. Vandi einstakra byggðarlaga verður ekki leystur með millifærslum í sjávarútvegi, þar þurfa stjórnvöld og fleiri atvinnugreinar að leggja sitt af mörkum."

Það þarf ekki litla ófyrirleitni að setja saman ritsmíð eins og þessa og mikið mega höfundar þeir sem þar héldu á penna skammast sín. Halda þessir umskiptingar ef til vill að almenningur sé samansafn af fíflum sem ekkert skynbragð bera á lífið og tilveruna?

Í framhaldi af þessu, hvet ég bloggara sem þetta lesa, að segja skoðanir sínar umbúðalaust á því sem Sjálfstæðismenn ætla sér að leggja til málanna og hvað hægt er að lesa út úr munnsöfnuði þeirra.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband