Leita í fréttum mbl.is

Hin ógleymanlega lífsreynsla Elísabetar. I. hluti.

imagesÞað var aldeilis félegur aumingi, sem ungfrú Elísabet hafði heim með sér að afloknu kráarsvalli, aðfaranótt þriðja sunnudags í apríl.

Eftrir á blótaði hú sér í sand og ösku fyrir að hafa ekki verið ódrukkin þessa kvöldstund því þá hefði henni ekki orðið á slík leiðindaskyssa.

Vart þarf að taka fram, að ekki var Elísabet fyrr komin inn til sín, umrædda nótt, en mannvesalingurinn, sem hún hafði leyft að fylgja sér heim, fór að leita á hana í ákveðnum tilgangi. Og fór svo, að innan stundar höfðu þau haft gögn öll og gæði hvort af öðru.

Undir hádegi vaknaði Elísabet af sætum blundi og sá samstundis, algáðum augum, hverskyns var: Semsé, að hún hafði látið fallerast með aumingja, sem var svo horklepraður að jaðraði við afstyrmishátt.

Hvernig gat þvílíkt og annað eins gerst?

Og nú lá þetta endemi steinsofandi og alsbert í hennar eigin rúmi!

Við þetta bættist, að Elísabet þorði ekki fyrir sitt litla líf, að vekja manninn því aldrei var að vita upp á hverju hann tæki . 

Og þar eð henni sýndist ekkert skjótvirkt bjargræði nærhendis, ákvað hún að ganga að heiman og vera fjarverandi í allnokkrar þýðingarmiklar klukkustundir og freista þess að næturgagn hennar risi úr rekkju á meðan og hypjaði sig á brott.

Um kvöldmatarleytið sneri hún heimleiðis, eftir að hafa setið full sjálfsvorkunar og timburmanna á kaffihúsi allan daginn.

En er Elísabet sté inn til sín aftur, eftir daglangt kaffiþamb og stórfelldar sígarettureykingar, varð hún fyrir miklum vonbrigðum: Mannfjandinn lá makindalega í stofusófanaum með glas í hönd og lappirnar uppi á borði. Á borðinu var einnig fjölmenni af bjórdósum og upp úr þeim fríða söfnuði, gnæfðu tvær flöskur af sterku áfengi eins og klakalagðir jökultindar. Á einu borðshorninu grillti ennfremur í tvo ofurlitla plastpoka með einhverju hvítu í, líklega dufti. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Úff því líkt og annað eins  Annars er bannað að hætta svona sögu í miðjum klíðum. Hvað gerðist svo ???

Ásthildur Cesil Þórðardóttir (IP-tala skráð) 10.3.2007 kl. 12:38

2 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Næsti hluti er væntanlegur síðdegis eða í kvöld.

Jóhannes Ragnarsson, 10.3.2007 kl. 13:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband