Leita í fréttum mbl.is

Hin ógleymanlega lífsreynsla Elísabetar. II. hluti.

... Elísabetu sortnaði verulega fyrir augum við að líta það sem við blasti. Hún hafði aldrei séð annað eins. Óbermið í sófanum virtist kátt, kvakaði eitthvað til hennar í vingjarnlegum tón og ók sér eins og það hefði kláða.

En á þessum punkti heyrði Elísabet ekki neitt, þó hún heyrði, sá ekki neitt , þó hún sæi, en fyrst og fremst gat hún ekki hugsað því allt lék á reiðiskjálfi inni í höfðinu á henni.

Í öllu fátinu tókst henni þó að hopa á hæli, skjögra inn á salerni, læsa að sér, hífa niðrum sig og setjast á klósettið og fór að berjast, með takmörkuðum árangri, við að hemja umbrotin í höfðinu á sér. Hún tók ekkert eftir að setan var uppi, rorraði bara og vóg salt á skálarbarminum, sem var hlandblautur eftir þann sem búinn var að hreiðra um sig í stofusófanum.

-Nú sit ég aldeilis í súpunni, tókst henn loks að hugsa ráðþrota og fnæsti út um nasirnar. -Ég verð að eyða þessu helvítis kvikindi, afmá það af jörðinni - í eitt skipti fyrir öll - annars get ég ekki lifað lengur.

Og þar sem hún nú lét fyrirberast á klósettskálinni, sóttu atburðir liðinnar nætur að henni eins og ójarðneskir svipir, hrímkaldir og andstyggilegir. Elísabet sá kvikindið fyrir sér alsnakið í hálfrökkri, eins og hún mundi það nýliðna nótt, og hún hafði líka verið nakin og tekið á móti atlotum þess, eða hvað átti að kalla tilburði þessa viðbjóðslega gerpis. Djöfulsins ógeð! Djöfulsins, andskotans, djöfulsins ógeð. Hún yrði aldrei hrein aftur.

Allt í einu hvolfdist yfir hana bullandi iðratak.

Og hvað skyldu foreldrar hennar segja, ef þau kæmust að þessu?

Elísabetu fannst líf sitt hanga á bláþræði. Máske var hún að sturlast. Margrét ömmusystir hennar hafði sturlast milli tvítugs og þrítugs. Hún hafði farið yfrum út af karlamanni og var geymd í spennitreyju inni á Kleppi í mörg ár. Og nú var Elísabet sjálf komin í alvarlega klípu út af karlmanni - ef karlmann skyldi kalla.

Um síðir tókst Elísabetu að hafa sig upp af klósettinu og gyrða sig, en láðist að renna upp buxnaklaufinni, en þar útum gægðist bleikt skyrtuhorn. Svo tók hún á sit rögg, vatt sér fram í stofudyr og mælti furðu digurbarkalega miðað við sálarástand sitt að öðru leyti: -Komdu þér út á stundinni!!!

En óbermið svaraði engu, hlykkjaðist bara skælbrosandi og ók sér í sófanum. Nú sá hún svart á hvítu, hvað þessi maður var á allan hátt ólögulegur og ófríður - hann var jafnvel enn fáránlegri en hún hafði gert sér í hugarlund þegar hún sat á kaffihúsinu og velti sér alein upp úr eigin óláni.

-Komdu þér út, eða ég kalla á lögregluna! gargaði hún æst. -Þú skalt ekki halda að þú getir sest hérna upp eins og þú eigir hérna heima!

-Þú lést ekki svona í nótt dúfan mín, kvakaði ódámurinn á móti og slokraði í sig því sem eftir var í glasinu.

-Þá hringi ég i lögregluna, svaraði Elísabet, þrjósk og að því er virtist ákveðin.

En hvernig sem á stóð, varð hreinlega ekkert úr að Elísabet kallaði út lögregluna sér til fulltingis í baráttu sinni við hinn misheppnaða ástmann, sem hún hafði slysast til að hafa heim með sér í áfengisblindu.

framhald ... ekki síðar en á morgun, ef Guð leyfir...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.3.2007 kl. 13:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband