Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Er Framsóknarflokkurinn virkilega svona forríkur?

Það er merkilegt, svo ekki sé meira sagt, að það skuli vera Framsóknarflokkurinn sem óskar eftir því að flokkarnir eyði sem mestum fjármunum í aulýsingar fyrir kosningarnar. Miðað við áhuga almennings á þessum úrsérgengna stjórnmálaflokki hefði maður haldið, að hann hefði ekki úr miklu að moða þegar kemur að peningum sem hann þarf að borga úr eigin vasa. En öðru nær, Framsóknarflokkurinn lætur sem hann sé stór og mikill þegar kemur að fjáútlátum í auglýsingaskrum, eins og hann sitji á digrum sjóðum gulls. Það er einhver fjandinn í þessu dæmi sem gengur ekki upp í venjulegum stærðfræðilegum skilningi.
mbl.is Auglýsingakostnaður stjórnmálaflokkanna takmarkaður við 28 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

RÚV -bráðlega ohf.

Rétt í þessu var ég að lesa eftirfarandi pistil eftir starfsmann RÚV á heimasíðu Ögmundar Jónassonar alþingismanns og formanns BSRB, og satt að segja er ég orðlaus:

"MÉR VERÐUR ÓGLATT!

Sunnudags-Mogginn flytur forsíðuákall þeirra Páls Magnússonar, útvarpsstjóra og Óðins Jónssonar, fréttastjóra um sátt um Ríkisútvarpið. Upplýst hefur verið að þeir eru búnir að hækka launin við sig sjálfa – alla vega Páll, hinn bíður sennilega  knékrjúpandi  en vongóður. Búnir eru þeir að reka gamla og gegnumheila samstarfsmenn og nú biðja þeir um sátt um sjálfa sig! Ekki meiri óvissu um RÚV segja þeir! Ég er búinn að vera starfsmaður Ríkisútvarpsins alla mína ævi og er enn. Mér varð óglatt að heyra þetta lið tala, mennina sem sviku sína stofnun og ráku félaga sína úr starfi! Er ekki lágmarkskrafa að þeir þegi því ekki geri ég kröfu um að þeir skammist sín það þykist ég vita að þeir kunna ekki. Ég mun aldrei geta fyrirgefið hvernig gamlir starfsmenn RÚV hafa verið meðhöndlaðir, brottreknir eins og hundar  
Starfsmaður RÚV – bráðlega ohf."

 


Gísli Ólafsson á Rauðalæk bannfærður.

Annan sunnudag eftir þrettánda var bóndi í Holtum, Gísli Ólafsson, bannfærður við guðsþjónustu í Árbæjarkirkju fyrir vanrækta altarisgöngu.

Sóknarprestur Gísla, séra Bárður Jónsson, las bannfæringuna að lokinni predikun, samkvæmt fyrirmælum Jóns biskups Árnasonar. Þetta voru niðurlagsorðin:

,,Og þar sem ég efast ekki um, að þér öll, sem eruð sannkristnar manneskjur, séuð mér sammála um þetta, eftir því sem segir í guðs orði um slíkan djöfullegan verknað og fúlustu andstyggð, þá vil ég í nafni herrans Jesú Krists og með hans fulltingi, og í nafni embættis míns og kristilegrar kirkju, kunngera og tilkynna opinberlega, að Gísli Ólafsson er fyrir syndir sínar hér með bannfærður og útilokaður frá kristilegum söfnuði og kristilegu sakramenti sem heiðingi og undir reiði guðs, sem hann hefur fellt á sig sjálfur með harðlyndi sínu og betrunarleysi. Og hér með afhendi ég hann í Satans hendur til líkamlegrar tortímingar í von um, að sál hans megi eftir sanna umvendun verða frjáls og sæl á hinum efsta degi. (Janúar 1723) 


Sýslumannsfrú lætur flengja vinnukonu.

Í þrjú ár samfleytt hefur ung stúlka gengið á milli valdsmanna í landinu og leitað eftir því, að rannsókn fari fram á óvirðulegri og hraklegri meðferð, er hún sætti.

Þessi stúlka heitir Katrín Tómasdóttir, og á hún þess að hefna, að húsmóðir hennar, sýslumannsfrúin í Víðidalstungu, Hólmfríður Pálsdóttir, ginnti hana inn í fjárhús haustið 1733 og lét leggja þar á hana hendur. Er almannarómur, að Hólmfríður hafi fundið henni það til saka, að hún ætti vingott við húsbóndann, Bjarna Halldórsson sýslumann.

Sýslumannsfrúin hafði með sér tvo vinnumenn í fjárhúsin og þernu sínu, er átti að gegna því hlutverki að halda á ljósi. Réðst annar vinnumaðurinn á Katrínu, fletti pilsum hennar upp yfir höfuð henni og settist á höfuð henni, en hinn vinnumaðurinn lamdi hana síðan með vendi á nakinn líkamann. Byltu þeir henni til á ýmsa vegu, eftir því sem verðugast þótti, að vandarhöggin hæfðu hana.

Þegar sýslumannsfrúnni þótti refsingin hæfileg orðin, gekk hún brott með föruneyti sitt, en skildi stúlkuna eina eftir í húsunum í myrkri, svo grálega leikna sem hún var.


Rauðsmýrarmaddömustræti ...

Það má þá líklegast búast við Jarþrúðargötu, Vegmeyjarbraut og Rauðsmýrarmaddömustræti í Mosfellsbænum í nánustu framtíð.
mbl.is Götur nefndar eftir kvenpersónum úr verkum Laxness
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af landi og sjó - brot 2.

Fám dögum eftir að Jón rithöfundur settist að á Hellubergi, birtist grein eftir hann í bæjarblaðinu "Brunninum". Grein þessi stakk nokkuð í stúf við annað efni blaðsins fram að þessu. Þar fullyrti greinarhöfundur semsé, að þrátt fyrir allar hinar gífurlegu framfarir, sem orðið hefðu í heiminum á síðustu árum, væri samt um hreinlega afturför að ræða í atvinnuvegum Aðalvíkinga, sem og annarra sambærilegra staða, á umræddu tímabili. Allrahanda auðvaldspótentátar hefðu auðsjánlega fengið að grasséra í þjóðfélaginu svo um munaði, líkt og bakteríur sem valda graftarkýlum og öðrum óþverraútbrotum. Stórútgerðin á Íslandi hefði til dæmis náð þeim framúrskarandi árangri, að stela öllum fiskimiðunum umhverfis landið, ásamt öllu kviku sem þar hefðist við, án þess að almenningur hefði getað rönd við reist. Þessa dýrðlegu þjófnaðaraðferð kallaði auðvaldið "kvótakerfi" og væru margir í vinnu við að réttlæta þennan bíræfna ránsskap og hefja upp til skýjanna sem einhverkonar "endanlega lausn lausn á fiskveiðivandamálinu".

Síðan vék Jón máli sínu að nafngreindum dólgum, sem komist hefðu yfir svo og svo mikinn fiskikvóta með heldur vafasamri framgöngu og væri nú svo komið, að þessir auðvaldspervertar hefðu mestar og öruggastar tekjur af að leigja kvótalausum einyrkjum og hugsjónamönnum veiðiheimildir fyrir okurborgun út í hönd. Þessi vinnubrögð kölluðu stjórnvöld "nauðsynlega hagræðingu, heilbrigða samkeppni og almenna skynsemi" enda væri stjórnvaldselíta þessi, fyrst og fremst opinber stjórnmálaarmur hins Íslenska auðvalds og væri með endemum að almenningur í landinu gerðist sekur um að styðja slíkt hyski og skítapakk jafn ákaft í alþingis- og sveitarstjórnarkosningum og raun bæri vitni.

Greininni lauk svo á því að höfundur hennar hvatti Aðalvíkinga, sem og landa sína alla, að segja valdaíllyrmum landsins stríð á hendur og freista þess að binda í eitt skipti fyrir öll endi á stelsýki þeirra og óvandað hjartalag.

-Ja, hvur djöfullinn sjálfur, varð Hinriki Guðmundssyni forstjóra Hraðfrystihúss Aðalvíkur og forseta bæjarstjórnar, að orði þegar hann hafði stautað sig í gegnum grein Jóns rithöfundar í "Brunninum". Hann reif til sín símann og hringdi í Ólaf ritstjóra "Brunnsins" og spurði með óduldu þjósti, hvað svona óþverragrein í "Brunninum" ætti að fyrirstilla; hvort hún þýddi nýja ritstjórnarstefnu blaðsins - eða hvað?. -Þú skalt athuga það, kall minn,urraði Hinrik að Ólafi ritstjóra, -hvað svonalagað kann að hafa í för með sér fyrir jafn skuldsett blað og "Brunnurinn" svo sannarlega er. Ólafur reyndi að verja sig með því, að hann hefði alltaf auglýst, að blaðið væri öllum opið varðandi greinarskrif af öllu tagi.

-Hverskonar helvítis bull er þetta, hvæsti Hinrik á móti. -Þú skalt gera þér grein fyrir, að það eru takmörk fyrir öllu. Og ef ég sé meira af svo góðu í blaðinu hjá þér eftir þennan helvítis aumingja, sem búinn er að hreiðra hér um sig með tveimur kellíngum, er mér að mæta.

-Já, það er best að skoða aðsent efni betur eftirleiðis. Satt að segja hugsaði ég ekkert út í hvað stóð  í greininni, áður en ég prentaði hana í blaðið, kjökraði Ólafur bljúgur og undirgefinn og ók sér í ritstjórastólnum.

-Þetta líkar mér að heyra, svarði Hinrik, ögn mildari á manninn, en samt ekki alveg laus við hótunartón í röddinni. -Þú verður alltaf að skoða aðsent efni ofan í kjölinn og út frá öllum hliðum og hafa ætíð í huga hvað kemur sér best fyrir byggðarlagið. Níð, óhróður og skemmdarverkaskrif falla náttúrlega ekki undir það markmið.

-Nei, auðvitað ekki.

-Jæja vinur. Við getum þá treyst því að svonalagað gerist ekki aftur.

-Já  


Þorgerður og miðjan ...

Hvar ætli þessi "miðja" sé hjá Þorgerði Katrínu? Má vera að hún sé staðsett í Valhöll? ... eða máske í Seðlabankanum? Frá mínum bæjarbyrum séð, kallast þessir málfræðifimleikar menntamálaráðherrans, ruglandi, og er til þess ætlaður að afvegaleiða umræðuna og draga hana, vitandi vits, niður í svaðið, í þessu tilfelli auðvaldsbesefasvaðið.
mbl.is Þorgerður: Þátttaka okkar forsenda umburðarlyndrar miðjustjórnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fransóknaríhaldið á förum - farið hefur fé betra.

Það er greinilegt, að ríkisstjórnin á mjög í vök að verjast og fari fram sem horfir munu íslendingar verða svo lánssamir í vor að vera lausir við bæði Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk úr stjórnarráðinu. Það veltur samt nokkuð á stjórnarandstöðunni hvernig til tekst að reka undanhald ríkisstjórnarinnar, þessvegna verður stjórnarandstaðan að standa vel saman að því verkefni. Það gengur semsé ekki í baráttunni fram undan að stjórnarandstöðuflokkarnir beini kröftum sínum hverjir að öðrum, það ætti t.d. Samfylkingin að hafa hugfast næstu átta vikurnar.
mbl.is VG áfram í mikilli sókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigur í Snæfellsbæ - íhaldið fær á kjaftinn.

Í gær var kveðinn upp dómur í máli sem BSRB höfðaði gegn Snæfellsbæ vegna trúnaðarmanns sem sagt hafði verið upp störfum hjá bænum. Trúnaðarmaðurinn starfaði við íþróttamannvirki sveitarfélagsins og var öllum starfsmönnum sagt upp að sögn vegna endurskipulagningar. Í kjölfarið voru síðan allir endurráðnir nema trúnaðarmaðurinn á staðnum. Dómsniðurstaða varð sú að uppsögnin hafi verið ólögmæt og einnig það að trúnaðarmaðurinn var ekki endurráðinn. Fallist var á að stefndi beri skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda. Að öllum atvikum virtum verður jafnframt talið að með ákvörðunum stefnda hafi verið vegið að æru stefnanda og persónu á þann veg að stefndi hafi fellt á sig skyldu til greiðslu miskabóta. Var krafa stefnanda á hendur stefnda því að öllu leyti tekin til greina.

Þá var Snæfellsbær dæmdur til að greiða 600.000 kr. í málskostnað. Gísli Hall hrl. flutti málið fyrir BSRB.

Það vita allir sem til þekkja, að með dómi Héraðsdóms Vesturlands, hefur íhaldsmeirihlutinn í Snæfellsbæ fengið á kjaftinn svo um munar. Ef allt væri með felldu, ættu helstu pótentátar Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórninni, að segja þegar í stað af sér, slík eru verk þerirra, hroki og níðingsháttur í þessu umrædda máli. En það er víst borin von að þessir karlar skynji sinn vitjunartíma, að þeir séu öllu trausti rúnir, nema ef til vill hjá ofstækisfyllstu og heilaþvegnustu stuðningsmönnum sínum í Sjálfstæðisfélögunum í Snæfellsbæ. Það verður líka fróðlegt að vita hvort bæjarsnepillinn Jökull muni segja frá sigri baðvarðarins á íhaldselítunni í Snæfellsbæ, en snepill þessi varð sér skemmtilega til skammar, þegar ritstjórinn, sem er innvígður þjónn bæjaryfirvalda, neitaði að birta grein um málið eftir Ögmund Jónasson formann BSRB.

Því er svo við að bæta, að þegar dómur Héraðsdóms spurðist út í Snæfellsbæ, brugðust bæjarbúar við með því að senda þolandanum í málinu, konunni sem hafði Sjálfstæðishetjurnar undir, blóm og heillaóskaskeyti. 


Af landi og sjó - brot. 1.

imagesÉg vil í upphafi taka fram, að eftirfarandi frásögn er í öllum atriðum sannsöguleg. Þeir sem telja sig þekkja þær persónur sem við sögu koma, gera það upp á eigin ábygð.

Inn í huga minn líður minningarbrot um skipsfélaga mína, Örn og Edda.

Árið var 1972, haust.

Við vorum staddir í Hirstshals á Norður-Jótlandi í Danmörku, nýbúnir að landa þar síld, sem við veiddum í hringnót í Norðursjónum.

Eftir löndun, sátu okkar Mikli Skipstjóri, ásamt með persónunni GL vélstjóra uppi á Hirtshalskrá og ræddu yfir ölglösum framtíð og horfur lífsins á almennum grundvelli og áttu sér einskis ílls von. Ganga þá í salinn, utan af götunni, félagar vorir Örn og Eddi og virtis í öllu glatt með þeim. Örn var, um þessar mundir nýorðinn tuttugu og þriggja ára, lágvaxinn með vel snyrt yfirvaraskegg, Eddi aftur á móti fjörutíu og þriggja ára, fremur hávaxinn, grannur, útlimalangur og lífsreynslan skein úr hverjum hans andlitsdrætti. Ekki höfðu þeir fyrir að kasta kveðju á hinn Mikla Skipstjóra og GL vélstjóra, en steðjuðu þess í stað beint á barinn, keyptu drykkjarföng og fengu sér síðan sæti, með kurteislegum tilburðum, við borð hjá tveimur dáfríðum stúlkum á besta aldri.

Fer nú allt vel fram um stund.

Allt í einu sjá hinn Mikli Skipstjóri og GL vélstjóri, að Eddi rís snöfurmannlega á fætur, gefur sig á tal við þjónustustúlku, sem hlýddi glaðleg í fasi á mál hans og kinkaði síðan kolli. Skömmu síðar kemur þjónustustúlkan með fjögur glös á bakka og leggur á borð fyrir Edda og hans borðsnauta. Eddi var að vonum glaður í bragði og farinn að segja gamansögur á dönsku, sem féllu í góðan jarðveg við borðið. Örn, sem vildi ekki vera minni maður í augum stúlkanna, tók þegar við keflinu þegar Eddi hafði lokið gamanmálum sínum, og tók til við að segja, sigri hrósandi, stórkarlalega lygasögu af sjálfum sér á bjagaðri dönsku, sem kom stúlkunum til að sperra eyrun. Í miðjum klíðum gerði Örn hlé á frásögn sinni, sökum smávegilegs þurrks í kverkunum, og fékk sér sopa úr glasinu sem Eddi hafði boðið uppá. Það var Álaborgarákavíti. Örn gretti sig dálítið án þess að brosið færi af andlitinu á honum. -Heyrðu, galaði hann upp yfir sig eins og ekkert væri, -ég drekk ekki álaborgarákavíti. Og með það sama, teygði hann höndina yfir borðið og hellti úr glasi sínu yfir í glas Edda vinar síns, sem ekki gat rönd við reist.

Og nú tók atburðarrásin snarpan kipp og rann, án frekari málalenginga, inn í alveg nýjan farveg.

-Hvað gerirðu helvítis forsmánin þín?, öskraði Eddi að kunningja sínum, -kantu enga mannasiði, eða hvað? Edda var svo gróflega misboðið, að hann rauk upp úr stól sínum og sló Örn einarðlega og undanbragðalaust beint á trýnið, svo hann kastaðist aftur fyrir sig úr stólnum og langt út á gólf. Borðið fór líka um koll, ásamt álaborgarákavítinu dýra, en stúlkurnar biðu ekki boðanna, hlupu til dyra og hurfu út í haustkvöldið, gjörsamlega afhuga kavalérunum sem þær höfðu verið að skemmta sér með fyrir andartaki síðan.

Þegar Örn var lentur í gólfinu, lét hann verða sitt fyrsta verk, að rísa upp á fjóra fætur, skríða framhjá borðinu, sem lá á hliðinni, og að fótum vinar síns og biðja hann innilega fyrirgefningar á ónærgætnu framferði sínu og dónaskap. Eddi var hinsvegar ekki tilbúinn að taka við fyrirgefnigarhjali á þessari stundu og rak annan fótinn í hinn iðrunarfulla mann, lauslega að vísu, en úthúðaði honum þem mun hraksmánarlega í staðinn; kallaði hann helvítis aumingja og viðrini, sem aldrei gæti hagað sér eins og maður. -Svo hraktirðu stelpurnar í burtu andskotans auðnuleysinginn þinn!, hrópaði Eddi með sinni lífsreyndu og eilítið rámu röddu og kallaði þjónustfólkið á vettvang. Við mótlætið tvíelfdist Örn í fyrirgegningarviðleitni sinni og vafði annan fót vinar síns örmum, hákjökrandi og skoraði á hann sem kristlegan mann að miskuna sér. En Eddi lét ekki bilbug á sér finna og reyndi að hrista fót sinn úr faðmlögum hins skríðandi manns, sem verið hafði besti vinur hans fyrir örstuttu síðan.

Nú dreif að vertinn sjálfan, feitlaginn, kraftalegan karlamann á fimmtugs aldri með ljóst hár, sem farið var að þynnast ofaná . Eddi skýrði vertinum frá málavöxum á einkar hreinskilinn og skilvirkann hátt, með þeim góða árangri, að vertinn greip þéttingsfast í hálsmálið á Erni, sleit hann rösklega af fæti Edda, dró hann að svo búnu, skríðandi á fjórum fótum út á gangstétt og greindi honum frá að skilnaði, að heimsóknar af hans hálfu væri ekki óskað í bráð eða lengd í Hirtshalskrá.   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband