Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Sönn lífsfylling

landroverÞó það nú væri að drengurinn gæfi druslunni þokkalega inn, fyrst hann var búinn að hafa fyrir því að stela henni. Lífsreyndur maður, sem ekki er kunningi minn hvað þá vinur, sagði mér eitt sinn, að það væri alveg sérstakur fílingur, engum öðrum fílingi líkur, að aka um á stolnum bíl, helst undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Þessi þorpari stal mörgum bílum sér til andlegrar upplífgunar. En eftir að hann ók á ofsahraða á stolnum bíl á kúahóp austur í Árnessýslu hefur hann aldrei tekið bifreið ófrjálsri hendi, þar eð hann hefur verið bundinn við hjólastól síðan. Um þau endalok sagði þessi kyndugi maður: - Hjólastólinn hefði ég nú getað keypt án þess að keyra á helvítis beljurnar.
mbl.is Á ofsahraða á stolnum bíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er yndislegt að vera handtekinn á Patró

polÉg veit ekki betur en það sé yndislegt að vera handtekinn á Patreksfirði og þar af leiðandi full ástæða til að sýna heimsbyggðinni á YouTube hvernig þessháttar skemmtun gengur fyrir sig. Auðvitað gerist það stundum að menn í gleðskaparham taka á móti lögregluþjónum þar vestra af fullri einurð, en það tekur enginn til þess; í augum sannra vestfirðinga er lögreglan fyrst og fremst til að tuskast við. Og ekki væsir um þann mann sem fær því áorkað að vera læstur inni í fangaklefa á lögreglustöðinn á Patró, um það get ég vitnað. Þegar maður vaknar þar að morgni dags, er borin fyrir mann uppbyggjandi morgunverður. Síðan er maður leiddur í bað þar sem vingjarnlegar konur skúra mann og skrúbba hátt og lágt með mjúkum svampi. Að svo búnu er fanginn leiddur fyrir borðalagðann sýslumann sem býður uppá koníak og vindil. Svo er fanginn kvaddur með virktum og beðinn um að ganga framvegis rólega um gleðinnar dyr.

 


mbl.is Handtaka á Patró á You Tube
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðskáld kvænist

ero1Mikið er hún dásamleg tilfinningin sem gangtekur alla unnendur góðra ljóðmæla, að okkar ástsæla og hjartfólgna þjóðskáld, Bubbur Morteins, sé nú genginn í hjónaband. Hjónabandið er að sönnu kjölfesta þjóðfélagsins og í ljósi þess mun hinn djúpi skáldskapur þjóðskáldsins áreiðanlega dýpka til mikilla muna næstu mánuði og misseri. Á næsta ári má gera ráð fyrir að kveðandi Bubbs verði settur í útrás til að freista þess að hann komist á hinn eftirsótta hátind heimsbókmenntana.

Fjórir naglar, þrír krossar, ég drekk af stút, darararar dæ - dæ ... 


mbl.is Bubbi Morthens gekk í það heilaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyllibyttan og stríðsglæpakonan

auðvaldiðÞað er einmitt það, já. Þeir gátu tekið saklausan ferðamann fastan fyrir ölvun, en létu undir höfuð leggjast að handtaka ferðalanginn og stríðsglæpafordæðuna Kondomlessu Ræs þegar hún kom til landsins á dögunum. Það er semsé mun meiri glæpur að fara örlítið yfir strikið í samskiptum við Bakkus konung en að stunda svívirðilegar blósúthellingar í Írak og víðar. Það hlýtur að vera eitthvað bogið við svona löggæslusiðferði, eða hvað?


mbl.is Handtekinn í Leifsstöð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eiga þeir erindi út á vinnumarkaðinn?

hlaupaFara kennarar í haust? Hvert ættu þeir svo sem að fara? Varla fara þeir í fiskvinnu eða á sjóinn? Og hvernig má það vera að ungum, nýútskrifuðum kennurum bregði þegar þeir heyra hver launakjör byrjenda eru? Á maður að trúa því að stórgáfað fólk, sem fer í kennaranám, hafi ekki neina hugmynd um launakjör kennara fyrr en eftir að þeir hafa lokið kennaranámi? Svo virðist þó vera, ef marka má orð formanns Félgs framhaldsskólakennara. Ef þetta er rétt hjá formanninum, er vandséð, að hinir ungu og gjörvilegu nýútskrifuðu fræðarar eigi yfðirleitt nokkuð erindi út á vinnumarkaðinn. 
mbl.is Fara kennarar í haust?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnviska og syndaaflausn

konaEkki bregst gamli góði Sjálfstæðisflokkurinn hvað sem á dynur. Nú hefir hann meira að segja gert sér lítið fyrir og leyst borgrgarstjórnarhnút sinn með sérstökum glæsileika. Auðvitað hlaut að koma að því, að hin geðgóða og brosmilda Hanna Birna yrði smurð og krýnd til æðstu metorða í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna, enda er hún óumdeilanlega syndlaus í pólitískum skilningi sem og almennum. Það er enginn smávegis búhnykkur að eiga slíkan stólpagrip þegar vandi steðjar að Flokknum. Og það skulu menn hafa hugfast, að borgarstjórnarvandi Sjálfstæðisflokksins síðustu mánuði jafnast á við verstu náttúruhamfarir í hugum sómakærra sjálfstæðismanna. Kunningi minn einn, sannur sjálfstæðismaður sem í engu má vamm sitt vita, sagði við mig á dögunum, að jarðskjálftarinr í Kína væru hjóm og hégómi miðað við hörmungarnar í Reykjavíkurdeild Flokksins og bætti því við, að ástandið væri þess eðlis að hann hefði persónulega þurft að leita læknis. En nú hefur borgarstjórnargengi Sjálfstæðisflokksins tekið flugið að nýju, sem og Flokkurinn allur að sjálfsögðu, með því að reka þann arma þrjót, Gvend Þóroddsson frá Orkuveitunni, hnika Vilhjálmi Þ. yfrí stól forseta borgarstjórnar og lyfta Hönnu Birnu uppí það veldi sem hún ein á skilið.

Með stjórnviskulegum gjörðum sínum hefur Sjálfstæðisflokkurinn veitt sjálfum sér fullkomna syndaaflausn í Orkuveitu- og REI- málum, en það gat aðeins gerst af því að Flokkurinn átti í sínum ranni skapgóða og prúða stúlku, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Geri aðrir betur!

En svo er það Ólafur F. Mun honum ef til vill takast að toppa sína gömlu bræður og vini í Flokknum og gera enn betur? Það veit enginn að svo stöddu.


mbl.is Hanna Birna verður borgarstjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rotuðu fimm fjölskyldur og börnin líka

fightfight1Kunningi minn einn, Sigurþór Jónsson að nafni, sagði mér einusinni frá því þegar hann horfði uppá nokkra Skagfirðinga rota fimm fjölskyldur á Akureyri á einu bretti og börnin líka. Þetta hafði byrjað með því, að einn Skagfirðingurinn fór að stíga í vænginn við akureyrska frú í göngugötunni á Akureyri svo snemma dags að sólin var enn hátt á lofti. Sú akureyrska vildi ekki þýðast Skagfirðinginn og sneri uppá sig og lét einhver leiðindaorð falla í garð Skagfirðingsins, sem svaraði að bragði með því að skondra hnefanum í trýnið á konunni svo hún valt um koll. Þar með fór allt í gang. Nærstaddar fimm fjölskyldur ætluðu þegar í stað að jafna reikninginn við Skagfiðinginn og hefna ófara frúarinnar, en þá skárust hinir Skagfirðingarnir í leikinn og hjálpuðu félaga sínum við að bera hinar Akureyrísku fjölskyldur ofurliði á tiltölulega skjótan hátt.


mbl.is Hópslagsmál og líkamsárás á Akureyri í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Matreiðsla og gredda

fat girlero2Ég velti stundum fyrir mér hvað erindi fréttir á borð við þessa af leikkonunni Kate Beckinsale eigi við almenning. Reyndar finnst mér liggja í augum uppi að þessi einkennilegi fréttaflutningur eigi nákvæmlega ekkert erindi við fólk. Innantómar fregnir af frægu fólki og ríku virðast fyrst og fremst hugsaðar sem einhverskonar ópíum fyrir lesendur, gera þá að viðhlægjendum heimskunnar og almenns sljóleika. Hvað er t.d. verið a segja með því að skortur á hæfileikum til matargerðar skýrist af fyrirbærinu ,,að vera góður í rúminu?" Er eitthvert náttúrulögmál í gangi milli eldamennsku og kynlífsathafna í rúmi? Er lykillinn að góðri matreiðslu fólginn í náttúruleysi kokksins? Hvaða endemis kjaftæði er þetta?  
mbl.is Lélegur kokkur en góð í rúminu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hörkukerlingin Björk

björkfrikkiLoksins rekst maður á eitthvað verulega jákvætt í öllum fréttflaumnum sem vellur dag og nótt útaf fjölmiðlunum eins og illlyktandi forarvilpa. Enn og aftur sannar Björk okkar hérna, dóttir hans Guðmundar í rafmagninu, að hún er gerð úr sterkari þráðum en sinustráum og tvinnaspottum. Nú ætlar hún sem sé, að syngja náttúru Íslands til dýrðar á ókeypis útitónleikum, ásamt snilldarsveitinni Sigur Rós. Það er ekki ónýtt að eiga heimsklassa listamenn, sem kunna og geta eitthvað meira en að hugsa um rassgatið á sjálfum sér og annan þessháttar innantóman hégóma.

En því miður hafast fjármálaséní vor og stjórnmálalágkúrumenn annað að. Þeirra ær og kýr eru skemmdarverk á ósnortinni náttúru Íslands, sem og á þjóðarsál íslendinga. Stórvirkjanir og álver er það eina sem þessum brjóstumkennanlegu görmum dettur í hug, fyrir nú utan olíuhreinsunarviðbjóðinn sem ætlunin er að svívirða vestfirðinga með.

Guð gefi okkur fleiri Bjarkir og fleiri Sigur Rósir, en færri fjármálaséni, stjórnmálalágkúrumenn og önnur slík niðurrifs- og skemmdarverkaóféti. 

olía1
 
mbl.is Ísland verði áfram númer eitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það hefði átt að hengja hann á vestfirska vísu

hangiÉg get ekki annað en tekið undir hinar háværu nöldurraddir sem fordæma víg ísbjarnarins fyrir norðan land á dögunum. Þar sönnuðu norðlendingar einu sinni enn hverskonar íllmenni og bögubósar þeir eru. Að láta sér detta í hug að skjóta sársvangt og villuráfandi bjarndýr til bana með riffli er náttúrlega gersamlega forkastanlegt athæfi. Þá fór nú skipshöfnin á Guðnýju ÍS betur að, sællar minningar, þegar þeir snöruðu hvítabjörn, sem þeir sáu á sundi langt útí ballarhafi, og hengdu hann við skipshlið. Þar var vasklega gengið til verks og til fyrirmyndar í hvívetna. Betra hefði verið að ,,kúrekar norðursins" sem eiga sín óðul á norðurhjara Íslands, hefðu fengið það verkefni að stytta Skagafjarðarbirninum aldur með því að snara hann af hestbaki. Það hefði orðið glæsileg sjón og eftirminnileg hverjum manni og hverri konu.
mbl.is Hvítabjarnarmál vekur athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband