Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Þau kynntust á hestamannamóti í A-Húnavatnssýslu eitt sumarið

ing16Meghana hertogaynja af Sussex? Veit einhver til að Meghana þessi sé frá Sussex, eða er það bara eitthvert reginkjaftæði og lygi? Og fyrst Meghana er hertogaynja hefir hún þá ekki her til umráða með eiginmanni sínum? Vissuð þér að Meghana hertogaynja af Sussexum er kunningjakona frú Ingveldar og Kolbeins Kolbeinssonar? Nei, það vissuð þér ekki. Auðvitað.

Þau kynntust á hestamannamóti í Austur Húnavatnssýslu eitt sumarið. Þá var heitt í veðri, allir fáklæddir og drullufullir, að minnsta kosti frú Ingveldur og Kolbeinn. Líka vinir þeirra, Máría Borgargagn, Indriði Handreður og Brynjar Vondalykt. Svo kom hertogaynjan þarna sprangandi og féll um löppina í frú Ingveldi sem sat á stól og ranghvolfdi augunum og hafði teygt annan fótinn aðeins of langt frá sér. Kolbeinn stökk þegar til og hóf hertogaynjuna á aftur á fætur og strauk henni blessunarlega um kviðinn í leiðinni svo sem notalegra perverta er háttur. En hertogaynjan af Sussexi tók fleðulegt káf Kolbeins Kolbeinssonar trufla sig, því hún var, þegar allt kom til alls, augafull líka, trúlega fyllri en Kolbeinn ef eitthvað var.

Eftir hestamannamótið drógu þau hertogaynjuna með sér upp um fjöll, í viku fjallaferð um Íslands óbyggðir. Í þerri ferð var fjör, glens og gaman. Og Guð má vita hvort hertogaynjan varð vanfær í þeirri ferð. En minnisstæðast þókti samt hertogaynjunni af Sussexi hve illa samferðarfólki hennar kom saman, leyfði sér að vera orðljótt og sí-drukkið. Þegar hún var komin aftur til Sussex skrifaði hún ferðasögu, en í henni kemur fram, að verst af öllum hafði Máría Borgargan verið, önnur eins tuðrubredda væri vandfundin á byggðu bóli. Í hverju ávirðingar Borgargagnsins voru fólgnar kemur ekki fram í riti hertogaynjunnar að öðru leyti en því, að óskar þess að kerlingarálkan Bretadrottning, eigi eftir að hitta Máríu þessa og kynnast brögðum hennar ófögrum. 


mbl.is Konungsfjölskyldan ósátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ó. Arnalds hefir samið nokkrar kúnstugar ábreiður

gítaristi2Auðvitað er ekkert vit í að tilnefna Ó. Arnalds til Gramms-verðlauna, jafnvel þókt hann hafi verið iðinn við kolann og átt einkennilega hlunkslega spretti af og til. Nú, það verður að segjast eins og er, að Ó. Arnalds hefir samið nokkrar kúnstugar ábreiður eins og ,,Skröltormurinn valhoppar" og ,,Hundsástin í rassi mér", sem eru ágæt lög til söngs í gangnakofum og saumaklúbbum. Á önnur tónverk Ó. Arnalds skulum við ekki minnast, það tekur því ekki.

Best munum vér þó muna eftir Ó. Arnalds þegar hann var trommuleikari í sveit Jóns Gláms Gítarleikara, sem þá gekk undir gælunafninu JGG-kvintettinn. Í því mikla bandi tókst hljómsveitarstjórnanum, Jóni Glámi og félögum hans, að sprengja með sameiginlegu átaki hljóðhimnurnar í liðlega tvöhundruð manns og eyðileggja hjá þeim heyrnina varanlega. Þessar tvöhundruð hræður voru staddar þarna á nokkurskonar tónleikaballi og var mikið líf í tuskunum þessar fáu mínútur þar til allir misstu heyrnina, nema kvintettinn. Fyrir réttinum bar Jón Glámur Gítarleikari fyrir sig, að rafurmagnsspennan í ballhúsinu hefði rokið upp úr öllum skynsamlegum rökum, rétt eftir að tónleikur hófst, og hávaðinn í græjunum hefði komist í veldisvöxt og því hafi farið sem fór.

gítaristiÞrátt fyrir þetta afrek, vóru þeir Jón Glámur Gítarleikari og Ó. Arnald trumbuslagari ekki tilnefndir til Gramms-verðlauna það árið, en Jón Glámur var í staðinn dæmdur í tveggja ára fangelsisvist fyrir að hafa gengið frá og eyðilagt heyrnina í tvöhundruð manns að yfirlögðu ráði. Meðreiðarsveinn hans, Ó. Arnaldsson fékk minni og viðkunnanlegri refsingu, það er hóflega flengingu á almannafæri, framkvæmda af Hálfdáni Varðstjóra, sem þá var ungur maður í Lögregluskólanum og nýbúinn að taka böðulsnámskeið við skólann. En það er styttra en margur hyggur milli hýðingar og tilnefningar til Gramms-verðlauna og sennilega verða verk Ó. Arnalds tekin úr umferð eftir Gramm-hátíðina og þeim eytt.  


mbl.is Ólafur Arnalds tilnefndur til Grammy-verðlauna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

,,Drottinn blessi heimilið"

prestur4Hvernig dettur fólki í hug að setja þetta déskotans Alþingi núna og ekki nema hálfkosið til þess. Sonalöguð heimska er eins og að míga innanvert í stofugluggann heima hjá sér, yfir gluggakistuna, upp á vegg og á ,,Drottinn blessi heimilið". Densilegur fjandi sona háttarlag! Og ekki vantar tilstandið: Klökkur værðarklerkur, af sömu tegund og séra Atgeir p. Fjallabakssen, látinn mala yfir þingskjátunum, án minnsta árangurs, og forsetanefnan kvödd til að setja þingið, hálfmannað, illamannað og stórbilað. Það væri yfirdrifið nóg að láta okkur hafa lítið stjórnarrassgat til að sýsla með sameiginlega spillingu og grjóthalda kjaft að öðru leyti.

hundur4Og hvar í fjandanum er Búsáhaldabyltingin? Dauð? Jú, hún andaðist inn í Borgarahreyfinguna, Hreyfinguna, Pírataheimskuna og Framsóknarflokkinn. Auðvitað. Hvernig gátum við eignast svona skelfilega lélega, óheiðarlega og vitgranna þingmenn og ráðherra? Því er varla auðsvarað. Og það er nú svo. Þá er öllu skemmtilegra að hugsa til fjárhundsins Snata, sem ennþá er að bak við fjöllin sjö. Hann gjörðist snemma vitur dýrbítur, allt úthugsað hjá honum, líka þegar hann myrti sinn herra, Ólaf bónda og hreppsnefndarmann; sá mátti nú hverfa fram af hengifluginu eins vondur og hann var.

Fyrir jólin í fyrra freistaðist Snati til að vinna grimmdarverk á göglunum hennar Gýrfríðar gömlu í Skotakoti. Þetta voru hvítir fuglar, stórir og hálsstuttir, geðvondir og leiðinlegir. Snati fór inn um gluggann hjá kvikindunum eftir að hafa brotið rúðuna með járnstöng. Svo stökk hann inn og stútaði göglunum og át eitt þeirra og þókti ketið af því ekki gott. Gamla Gýrfríður í Skotakoti ærðist er hún kom að göglum sínum dauðum, en hún hafði ætlað þau til jólasteikur þetta árið. Nú var sú fyrirætlun úr sögunni og kerlingin bölvaði heil ósköp yfir myrtum fuglunum og bað Sathan hirða þann er þetta níðingsverk hafði framið. En Sathan hafi í nógu öðru að snúast en að hlaupa eftir veiðiglöðum fjárhundi fyrir eina kerlingartuðru, sem ekkert er nema skapvonskan og heiftin. 



mbl.is Beint: Þingsetning Alþingis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Merarræða frú Ingveldar og orðaleppar Indriða Handreðs

ing23Frú Ingveldur sagði eitt sinn í viðhafnarræðu, að vinkona hennar, Máría Borgargagn, væri það sem kallað væri á frægum bókum ,,létt hryssa í hópi staðra mera". Og víst er um það að Borgargagnið hefir um sína ævidaga verið furðulétt á bárunni. Enn fremur sagði frú Ingveldur við þetta einstaka tækifæri, að þær vinkonurnar, hún og Máría, hefðu verið upphafsmanneskjur að nærbuxnaleysi á Íslandi. ,,Vildum frelsa pjásuna og það tókst"!, hrópaði frú Ingveldur yfir salinn, sem tók við sér og klappaði af tryllingi fyrir þeim stöllum. Þetta var í fjölmennu afmæli Máríu Borgargagns, sem haldið var í einni gríðarlegri íþróttahöll.

Það er svo til marks um léttleik Máríu Borgargagns, að strax um fermingu var hún farin að hlaupa á harðaspretti á milli strákanna, og beint upp í til þeirra. Samt tókst henni að mestu að sneiða hjá að fá óorð á sig og frillukvensku. Og þó. Hins vegar voru strákarnir hræddari við frú Ingveldi og eru það enn. Frú Ingveldur átti það nefnilega til að taka í lurginn á þessum afstyrmum og sína þeim í tvo heimana ef þeir sýndu af sér óart í rúminu eða móðguðu hana þegar hæst stóð í stönginni. Sumir þeirra máttu leita sér læknis eftir áföll og harðræði í bólförum með frú Ingveldi.

Í fyrrgreindri afmælisveislu, hvar frú Ingveldur hlóð lofi á sitt vinkvendi, Máríu Borgargagn, gerðist það, að Indriði Handreður, þá heitmaður Borgargagnsins, stóð upp eftir tölu frú Ingveldar og flutti einkennilegt ávarp. Skildist áheyrendum á máli Handreðsins, að hann hefði stundað óheft rekkjubrögð með báðum þessum konum og hefði ekki orðið misdægurt af. Þó sagði hann að þefurinn af frú Ingveldi væri í lakara lagi, því þókt hún ræki upp bofs eins og hvolpur væri það hátíð miðað við melrakkaóþefinn sem stigi annað slagið upp af kerlingunni við þessar aðstæður. Þetta á átti víst að vera fyndið hjá Handreðnum, bara grín og gaman, og vissulega ráku veislugestir upp hæðnishlátur að orðaleppum hans. En frú Ingveldur leit þessi gamanmál öðrum augum en aðrir í veislunni og batt snöggan endi á orðaflaum Indriða Handreðs með þungu höggi í andlitið og enn þyngra sparki í rassgatið svo hinn orðhvati maður fauk í loftköstum fram af ræðupallinum og bar hann sitt barr ekki lengi eftir þennan harmleik.


mbl.is Lágmarkskrafa að hryssa sé tamin og róleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skemmtilegar sögur af rjúpnaskyttum á fjórhjólum

gun3Það eru margar skemmtilegar sögur til af rjúpnaskyttum á fjórfjólum. Sú þekktasta af því tagi er af náunganum sem hugðist skjóta á fullri ferð á rjúpnahóp en var svo óheppinn að um leið og hann ætlaði að taka í gikkinn kastaði fjórhjólið illilega til, lenti á þúfu eða grjóthnullungi, og þeyttist með skotmanninn með sér ofan í djúpt og dimmt gljúfur, en skotið sem hljóp úr byssunni banaði veiðihundi félaga mannsins á fjórhjólinu. Það var verðlaunaður stólpagripur.

Þá var það rjúpnamorðinginn, sem þaut eins og hvirfilvindur heiman að frá sér á fjórhjóli með tvíhleypta haglabyssu og stórgripariffil um öxl og marga poka og vasa fulla af byssuskotum. Þessi náungi var einkar óglöggur, lítt skotvís og óratvís og skilaði sér ekki heim að kvöldi. Um nóttina var hafin leit að kauða. Undir morgun heyrðu björgunarmenn ákafa skothríð í fjarska og gengu á hljóðið. Loks komu þeir þar að sem hin horfna skytta stóð í áköfum skotbardaga við einhverja sem höfðust við inni í sumarbústaði. Voru tveir fallnir, en hinir þrír, sem enn stóðu uppi, voru illa særðir. Einn björgunarsveitarmaðurinn komst aftan að rjúpnaskyttunni og tókst að slæma tréklumpi í hnakkann á þrjótnum og rota hann vel og vandlega. Það sem vakti þó enn meiri furðu björgunarsveitarmanna en skotbardaginn og mannfallið í sumarbústaðnum, var önnur veiði skyttunnar, en hún stóð saman af nokkrum snjótittlingum, tveimur hænum og vængbrotnum hvítmávi. Hænurnar hafði hann skotið þar sem þær voru að vappa fyrir utan hænsnakofann sinn í sveitinni, en snjótittlingana hæfði hann ekki fjarri téðum hænsnakofa. 

Að lokum teljum vér vert að nefna aðeins fólið Gísla vélstjóra, en hann var bróðir Ólafs bónda, þeim hinum sama og fjárhundurinn Snati ýtti með trýninu fyrir björg. Gísli þessi átti skotvopn og skaut allt sem honum datt í hug að skjóta. Árum saman skaut hann dilka á færi og hafði hljóðdeyfi á byssuhólknum; ungnaut og roskna hrúta skaut hann líka, hirti ketið og lifrina en skildi hitt eftir, nema hvað hann tók hausana af hrútunum með sér því hann girntist hnakkaspikið. Á meðan aðrar skyttur létu sér nægja að tala um sína veiði á rjúpnatímanum í stykkjatali, þá talaði Gísli vélstjóri um sinn rjúpnaafla í tonnum. Gísli var einn fyrstur manna til að fá sér fjórhjól til að spara sér sporin við veiðarnar og lá við sjálf að honum tækist að uppræta rjúpnastofninn í mörgum héruðum landsins. Fljótur var hann að ná afburðatökum á að hæfa bráðina þókt hann væri á fullri ferð á hjólinu og íslenski fálkinn var kominn í alvarlega útrýmingarhættu vegna skorts á rjúpu til ætis. Að lokum var það svo rauðskjöldótt kýr sem batt enda á djöflaganginn með því að stanga Gísla vélstjóra um koll þegar hann átti leið framhjá henni á fjórhjólinu; síðan hefir Gísli mátt láta sér nægja að rorra um í hjólastól, eineygur og neflaus, því annað horn kýrinnar hafði af honum nefið og augað um leið og hún stangaði hann og hjólið ofan í skurð.  


mbl.is Kvartað undan rjúpnaskyttum á fjórhjólum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snemmbúinn inngangur að hátíð ljóss og friðar

kol6Okkur varðar ekkert um hvort einhver ágreiningur í rassborunni á flokkunum sé þungur, mjúkur, blautur eða gaddavírsþrunginn. Ónei, okkur kemur slíkur hégómi og sullumbull ekki við. Best væri að vera laus við alla þessa flokkaskratta, ríkistjórnir og ráðherraskjátur. Næstbest væri að handsama þann fénað, hvurn einasta einn, og leggja í járn í einhverju burtsofnuðu og galtómu hraðfrystihúsi á landsbyggðinni. Ef einhverjir með þjóðinni vilja opinbera skípalinga til að viðhalda geðheilsusnni, þá geta þeir svo sem fengið mikilmenni á borð við BjörnInga, SigInga, Indriða Handreð og Áslaugu Örnu til að gleðja sig með dadaískum fáránlegheitum, en þá eingöngu í lokuðu rými.

Jólasveinn1Verra er að fyrirboðar hátíðar ljóss og friðar eru farnir að láta á sér kræla þókt vel stinnur mánuður sé til jóla. Ekki er nóg með kaupahéðnar og prangarar sé byrjaði að hvetja grandalaust fólk til péníngasóunar, reisa sér hurðarás um öxl, verða gjaldþrota, fara í ræsið, heldur er árviss ófénaður, tengdur jólunum, farinn að láta á sér kræla löngu fyrir ásettan tíma. Fyrst var það kófdrukkinn og vitfirrtur jólasveinn sem gjörði vart við á Hvammstanga fyrir einum tólf dögum. Það skapaðist auðvitað ófriður kringum þennan óvelkomna karlskratta, því hann vóð um plássið með háreisti, bölvi og klámfengnu orðbragði svo fólk varð að loka gluggum til að óþrifnaðurinn bærist síður inn. Ekki lét jólasveinninn við sitja að orga formælingar og dónaskap um allar götur Hvamstanga fram á nótt, því á morgnana mætti hann í búðina, heilsugæslustöðina og barnaskólann og efndi til áfloga við heimamenn, og konum stóð ekki á sama, heldur og reyrðu pilsin fastar að sér og treystu strenginn í nærhöldum sínum. Eftir nokkurra daga djöfulsskap hljóðnaði vopnagnýrinn sem fylgdi þessum ruddalega jólasveini jafn skyndilega og hann hófst, því á mánudagsmorgun leið fannst hann dauður uppi á snjóskafli í bænum, hafði verið skotinn til bana eins og melrakki.

jólakötturVerra var það samt fyrir austan, því þar birtist sjálfur Jólakötturinn um miðjan dag á Eskifirði og veiddi þegar tvö börn og einn fullorðinn og át þau öll sér til gottgjörelsis. Lögregla, refaskytta og meindýraeyðir vóru semdir á vettvang til freista þess að fella óvættina, en það fór víst eins og það fór. Um kveldið, daginn sem tilkvaddir embættismenn tóku til starfa, fór ekki betur en svo, að þeir þremenningarnir fundust allir hálfétnir uppi í hlíð ofan við Eskifjarðarbæ. Það var heldur hrjóstrug aðkoma og setti hroll að fundarmönnum. Daginn eftir elti Jólakötturinn sýslumanninn og var auðséð í hvaða tilgangi sá eltingarleikur gjörður. En svo varð húsmóðir á miðjum aldri, hvít og upp með sér, á vegi Jólakattarins og snöri hann sér að bragði að henni og hafði hana til hádegisverðar. En sýslumaður slapp lifandi að kalla, en hefir verið illa geðbilaður síðan. Ómögulegt er að segja til um hvar Jólakötturinn ber niður næst. Hann gæti birst óforvandir eins og andskotinn upp úr súru einhverstaðar í Árnessýslu í fyrramálið eða vestur á Barðaströnd.     


mbl.is „Greinilega þungur ágreiningur um mál“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sólveig Anna taki sína fyrri stöðu strax í fyrramálið

refurEkki efast ég eitt andartak, að það sem Sólveig Anna segir um nýkjörinn varaforseta ASÍ og allt það fólk er hárrétt og sannleikanum samkvæmt. Það hefur lengi legið fyrir, að innan verkalýðshreyfingarinnar hafa ísmeygilegar og falskar moldvörpur og kafbátar verið að störfum,- fólk sem fáir vita hvar þeir hafa,- sem stundar sleikjuskap og undirlægjuhátt við atvinnurekendaauðvaldið. Þetta ólánsfólk er sem sé í liði með arðræningjum og öðrum þeim sem telja sig hafa hag af núverandi þjóðskipulagi, sem er þegar grannt er skoðað lítið annað en auvirðilegt þjófafélag.

Það er svo skelfilegt til að hugsa, að baráttukona eins og Sólveig Anna skuli hafa kastað öllu frá sér og hlaupist á brott frá þeirri forustu sem hún var kosin til af verkafólki og það fyrir einn ónothæfan heimspekidoktor sem aldrei hefir dýft hendi í kalt vatn og hefir ekki hæfileika til að vinna með fólki. Að standa í slagsmálum við valdalaust skrifstofufólk vegna amríkumenntaðs heimspekings af efrimillistétt er ekki samboðið virðingu formanns Eflingar. Ég vildi sjá Sólveigu Önnu taka sína fyrri stöðu strax í fyrramálið, án Viðars Þorsteinssonar heimspekings, hætta stríðinu við skrifstofufólkið og einhenda sér í baráttuna arðræningjastóðið, innan verkalýðshreyfingar og utan. Þar er mikið verk að vinna.

En ef Sólveig vill taka sér lengri frest áður en hún tekur aftur við formennskunni í Eflingu, ætti hún að taka ærlega til í þessum Sósíalistaflokki, sem stóð að baki henni þegar hún var upphaflega kosin formaður. Það gengur ekki fyrir Sólveigu að hafa sem pólitískt bakland einhverja hrúgu af hálfvitlausu fólki, sem safnast hefur saman kringum Gunnar Smára. Þennan óþrifafénað verða hún og Smárinn að flæma á brott með harðri hendi, á sama hátt og Frelsarinn rak auðvaldsskríl sinnar tíðar út úr musterinu. Ef árangur á að nást verða verkfærin að vera í lagi, annars munu moldvörpurnar og kafbátarnir hafa sitt fram.     


mbl.is Segir Halldóru vera „bakherbergisstarfsmann“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinar grínaktugu útskýringar virka abnormal á fólk

prestur13.jpgOhohohohohojjj! Óheppilegt að Ísland sé orðið rautt! Ahhahahahaöhhöhh! Skjaldan hefir maður heyrt annað eins grín í seinni tíð. En gamanmál ber að lofa og vér skulum muna að er skemmtir öðrum er velgjörðarmaður samfélagsins. Nú hefir Jóhannes, nafni minn, sem kallaður hefir verið Útskýrari, gjörst atvinnuspaugari og slær þessa dagana um sig með grínaktugum ummælum, sem virka svo einkennilega abnormal, að við liggur að fólk velti um koll af einskærum kátínuhlátri. ,,Óheppilegt að Ísland sé orðið rautt"! Öhöhöhahahaujjj!

Svo má líka segja að óheppilegt sé að Ísland sé ekki eldrautt og þá í poletiskum skilningi. Ef svo væri, þá væri Ísland ekki rautt í kóvíðskum auglýsingum erlendis. Nú er það hlutverk Jóhannesar útskýrara að sannfæra útlendinga um að Ísland sé aldeilis ekki neitt rautt pestarbæli; hér sé aunginn kóvíður og allir spítalar galtómir, að ekki sé minnst á gjörgæsluna, en þar hafi ekki einusinni þurft að kveikja ljós í fjölmarga mánuði. Hinsvegar mætti gjöra gangskör að því mála Ísland vel rautt svona poletiskt séð, gjöra byltingu og ýta gullkálfum, Mammónum og samherjum um koll og fram af hengifluginu. Því miður höfum vér aungvan mannskap til til framkvæma rauða byltingu, fyrir utan nokkra hálfvitlausa eðjóta, sem söfnuðust saman kringum sosialistajöfurinn Gunnarsmára; þessir leppalúðar kunna ekki að halda á pensli fyrir nú utan að þekkja ekki muninn á bláu, rauðu og grænu.

gun1Sem stendur er innbyggjurum Rauða- Íslands allar bjargir bannaðar; aungin siðuð þjóð, sem vér berum oss saman við, vill taka við oss og ef einhverjum landa vorum tækist að svindla sér inn siðmenntað land væri hann óðar rekinn í sjóinn eða hengdur í næsta tré. Í siðuðum löndum (sem vér berum oss saman við), eru drepsóttir ekki liðnar og pestargemlingar settir í mannhelda einangrun þar til þeir eru annaðhvort dauðir elligar orðnir heilbrigðir. Eitt sinn fékk Ólafur bóndi þá flugu í höfuðið, að nágrannafjölskylda hans væri haldin bráðsmitandi drepsótt og sæti um að smita hann og hans fólk af sóttinni. Því sókti Ólafur bóndi stórgripariffilinn sinn og skaut nágrannabóndann af löngu færi þar sem hann var að mylja tað ofan í túnvöll sinn. Þar á eftir sigaði Ólafur fjárhundi sínum, Snata, inn í nágrannahúsið og bauð honum að bíta fólkið á bænum. Snati vann sitt verk samviskusamlega; aðkoman innandyra þókti ljót og töldu menn þar hefði skrímsl búverkað fólkið. En ekkert komst upp og var býlið selt á uppboði þar sem Ólafur bóndi átti hæsta tilboð. 

   


mbl.is „Óheppilegt“ að Ísland sé orðið rautt á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framtíðarsýn á degi íslenskrar tungu

fleng.jpgAungvum kemur á óvart þókt bóklestur á Íslandi dragist saman. Í fyrsta lagi eru nýjar bækur nú til dags svo þrungnar andleysi og sjálfhverfu, að hver einasti lesandi með bein í nefinu hrökkur frá eftir að hafa þrælast í gengum fyrstu tíu til tuttugu blaðsíðurnar, stundum færri. Enda eru þetta afspyrnu leiðinlegar kerlingarbækur, samdar af andlegum öreigum fyrir andlegar eyðimerkur. Á degi íslenskrar tungu lætur þessu liði betur að slá um sig með amrískum frösum og lágmenningarorðbragði, sem það skilur ekki einusinni sjálft, í stað þess að draga upp um sig útskitnar brækurnar og læra kjarnyrta íslensku, sem þó er til á eldri bókum og í munni bragðvísra öldunga.

Eftir svo sem eins og fimmtíu ár verður íslenska ugglaust aflögð á Íslandi en einhverskonar úrkynjuð djöflaenska komin í staðinn. Þá verður gaman að lifa. Að sjálfsögðu verður búið að selja landið sjálft með gögnum og gæðum í höndur erlendra arðræningja og þjófa, heimsvaldasinnaðra kapítalista með stál og steypu í stað heila og ágirnd í stað hjarta. Morgunblaðið mun þá enn blífa, en hinir Morgunblaðslærðu hafa þann starfa að vera umboðsmenn eða kommissarar eigenda sinna og sveifla erlendum svipum yfir sljóum kroppum vinnudýranna.

Gegn þessari yfirvofandi framtíðarsýn eru aungin ráð, hvorki pólitísk né menningarleg. Brátt verður styttunum af Einari Benediktssyni og Jónasi Hallgrímssyni kastað eins og sorpi út í Reykjavíkurtjörn, en styttunni af auðvaldssperrileggnum Ólafi Thors, sem stendur framan við ráðherrabúastaðinn við Tjarnargötu, verður lyft upp á tvöhundruð metra háa strýtu úr járni og marmara til að undirstrika alræði auðvaldsins, NATO og USA. Á meðan halda sjálfhverfar kerlingar í hippagervi og með þykka ullartrefla margvafða um hálsinn og Hallgrímur Helgason áfram að gefa út sjálfhverfur sínar í bókarformi, engum til gagns en öllum öðrum til fölskvalausra leiðinda. 

 


mbl.is Landsmenn lesa minna en áður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líkast til hefir nefdin uppi áform um að flýja land

runHvaða bölvuð vitleysa er þetta. Þau munu aldrei komast að neinni niðurstöðu og raunveruleg niðurstaða alþingiskosningarinnar í Norðvesturkjördæmi haustið 2021 verður aldrei upplýst. En þar með er ekki sagt að Birgir Mannason og hans nefnd geti ekki farið fleiri fylliríisferðir upp í Borgarnes; þau geta farið eins margar ferðir þangað og þau vilja og haga sér þar eins og naut, eða annarsiðlaus peningur. Þau gætu líka sem best lokið málinu með því að segja að yfirkjörstjórn kjördæmisins og talningaliðið hafi svikist um og gjört kosninguna að svindilbraski, verið ofurölvi við talninguna og gloprað atkvæðunum sitt á hvað út um gólf og ganga þar til aungin lífsins leið var að finna neitt út úr þeim graut.

Þá var meiri bragur á ferð Borgargagnsins upp í Borgarnesið. Þar var illfyglið á heimavelli. Reyndar varð fer hennar með styttra móti, því hún var handsömuð og flutt hreppaflutningi suður fyrir höfuðborgina. Einhverjum kann að vera spurn af hverju Borgargagnið var tekin föst og fjarlægð, en því svörum vér ekki, það er ekki í verkahring vorum. En eitt er þó kunnugt: Á meðan Máría Borgargagn brá sér bæjarleið lagðist eiginmaður hennar, Indriði Handreður, samstundis með Brynjar Vondulykt. Fór sú athöfn fram bak við malarbing inni í Sundagörðum. Jú, það er best að segja frá yfirsjón Bargargagnsins: Hún ók yfir hund á aðalgötunni, kippti honum eldsnöggt stórslösuðum inn í bifreið sína og var að lokum staðin að verki þegar hún hugðist lauma honum á lífi ofan í sorpgám. 

En það er eitt í þessu með nefndina hans Birgis Mannasonar. Það hefir ekki verið gjörð gangskör að því að koma í veg fyrir að nefndin sú arna láti sig hverfa, stingi af, og ekki fréttist af henni fyrr en eftir mörg ár og þá í Argentínu. Nefndin er nefnilega komin í vanda af þeirri stærðargráðu að hún á sér ekki undankomu auðið nema að flýja land, láta sig hverfa til annarrar heimsálfu, fá sér nýtt nafn og nýtt útlit. Það þýðir ekkert fyrir Birgir að úrskurða aðra hvora talninguna gilda því báðar eru ógildar og það veit hvert mannsbarn. Ekki dugar karlhróinu og óska eftir endurkosningu, því þá munu flokkssystkini hans taka í lurginn á honum, snúa upp á hann og hafa á honum endaskipti og selja hann að lokum gömlu Framsóknarmaddömunni fyrir lítinn péníng. 


mbl.is Reyna að komast að niðurstöðu í vikunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband