Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Peningageðsýki, kannabis og kókaín.

Þegar ég las þessa frétt fór ég að velta fyrir mér hvort kannabisnautn auki hættuna á peningageðsýki, sem er eins og margir vita mjög hættulegur og kvalafullur sjúkdómur. Samkvæmt yfirsýn okkar bestu sérfræðinga hefur tíðni peningageðsýki aukist svo mjög hin síðari ár, að hægt er að tala um alvarlegan faraldur. En það er ekki þar með sagt, að hægt sé að skrifa þessa tegund geðkvilla að neinu leyti á kannabisneyslu þeirra sem tekið hafa sjúkdóminn. Hinsvegar leikur grunur á, að alsiða sé orðið meðal betri borgara, einkum nýríkra, að svæla kókaíni upp í nasirnar á sér í tíma og ótíma til að verða hressari og hressari og samkvæmishæfari og klárari í verslun og viðskiptum. Nú ætti það að verða verkefni okkar hæfustu vísindamanna, að rannsaka ofan í kjölinn samspil peningageðsýki og eiturnautnar af hvaða tagi sem er. Og við skulum ætíð hafa hið fornkveðna í huga, ,,að margur verður af aurum api," sem sannar að menn hafa lengi vitað um tilvist peningageðröskunar.  
mbl.is Kannabisneysla eykur hættuna á geðsjúkdómum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beinum áhuga Saving Iceland að sægreifum og kvótafíklum.

Samtökin Saving Iceland eru að sýna og sanna þessa dagana, að þar fara óeigingjarnir dugnaðarforkar hlaðnir réttlátri hugsjón. Af einhverjum ókunnum ástæðum virðist borgarastéttin á Íslandi hræðast þessi samtök meir en smákrakkar Grýlu og Leppalúða og sýnir það, svo ekki verður um villst, að borgarastétt vor saman stendur af hjatveikum bleyðimennum, ef ekki apaköttum.

Mér finnst einsýnt, að við Íslendingar ættum að nýta það góða fólk í Saving Iceland til fleiri góðra verka en að vekja athygli umheimsins á yfirgangi og frekjulátum peningageðsjúkra umhverfisskaðvalda. Mér dettur í hug hvort ekki væri hægt að beina áhuga Saving Iceland að yfirgangshundum í íslenskum sjávarútvegi, sægreifum og kvótafíklum sem gerst hafa sekir um áður óþekktan ránsskap af alþýðu landsins.


mbl.is Átta mótmælendur handteknir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lausung og lágmennska prestastéttarinnar.

Á kirkjuþinginu kvaddi síra Baldvin sér hljóðs og hélt freyðandi ræðu um lausung og lágmennsku prestastéttarinnar. Hann taldi það óskiljanlegan aumingjaskap, að prestar þyrðu ekki að taka upp bannfæringu. -Ég hefi, orgaði hann, -notað bannfæringuna í tíu ár með góðum árangri. Þá snupraði hann biskupinn og bar honum á brýn heiguls- og hringlandahátt á háu tigi. Hina yngri klerka, sagði síra Baldvin, að ætti að svifta kjól og kalli umsvifalaust, alla sem einn, - þvílíkan höfuðsóttarfénað og grilluflaðrara hefi ég aldreigi fyri hitt, sagði hann. -Svo er biskupinn farinn að vígja kvenfólk til prests, hélt hann áfram, -það er vona ámóta gáfulegt og ætla að hleypa til ánna með hundinum sínum og sýnir best hverskonar ræfilstuska biskupsgarmurinn og hans augnakarlar eru. Og nú færðist síra Baldvin allur í aukanna og barði svoleiðis með heilagri ritningu í púltið að það mölbrotnaði. Urðu viðstaddir þá svo hræddir, að þeir stukku hver um annan þveran út um glugga og dyr, því þeir héldu að gólfið mundi sökkva undan þeim þá og þegar við svo ógurlegar ræðuhamfarir.

Upplífgandi sorgargleðileikur á Akureyri.

Satt að segja hefur Lúkasarmálið mikla virkað eins og hver önnur ómetanleg guðsgjöf í fréttafásinninu hér á mörkum hins byggilega heims. Og auðvitað eru það Akureyringar sem fara með öll hlutverkin í þessum súrrealíska ærslaleik; í þessu tilfelli þýðir ekkert fyrir Akureyringa að klína endemunum á aðkomumenn eins og venjulega. Ég verð að viðurkenna, að ég varð dálítið undrandi þegar ég heyrði fyrstu fréttir af þessu máli, en þá var þar komið sögu, að Lúkas var kominn ofan í íþróttatösku sem akureyrískir ungtyrkir höfðu ofan af fyrir sér með að sparka í. Það fylgdi sögunni, að við hver spark, a.m.k. framan af, hefði Lúkas hljóðað ámátlega en akureyrísku ungliðarnir glaðst að sama skapi. Næstu fréttir af norðan hljóðuðu upp á að Lúkas væri andaður og líkið týnt en minningarathöfn og kertafleyting yfirvofandi. Þegar þar var komið, fór hefnigjörnu fólki að hlaupa kapp í kinn og það fór að senda meintum forsprakka fyrir aftöku Lúkasar, sem virðist hafa verið valinn af handahófi, mergjaðann SMS-póst þar sem honum var hótað sömu afgreiðslu og Lúkas fékk. En svo kom heldur en ekki babb í bátinn þegar fréttist í einni svipan um allt land, að Lúkas hundur væri upprisinn og hefði sést á hlaupum í fjallshlíð fyrir ofan Akureyri. Og nú hafa sem sé orðið þau umskipti í þessum annars fjörlega sorgargleðileik, að vopnin hafa heldur en ekki snúist í klónum á þeim hefnigjörnu, sem eiga nú yfir höfði sér kærur og jafnvel fangelsisvist.

Og öll eru þessi ósköp út af einu í meðallagi fallegu hundspotti.


mbl.is Hyggst fara alla leið með Lúkasarmál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun Gaddafi leggja höndur á Kondólessu?

Sú var tíðin, að Gaddafi þjónaði hlutverki mesta glæpamanns heims í augum Bandaríkjamanna og þeirra tíkarsona. Saddam Hussein fékk síðan þessa eftirsóknarverðu nafnbót, en því tralli öllu lauk með hryðjuverkaárás USA á Írak sem stendur enn. En nú er öldin önnur og Gaddafi allt í einu orðinn stofuhæfur á betri bæjum. Samkvæmt frétt mbl.is á karlinn von á glæpakvendinu Kondólessu Rice í heimsókn. Nú er bara að sjá hvernig fyrrum mesta glæpamanni heims og hryðjuverkadrottningunni Rice kemur til með að semja þegar þau hittast. En satt að segja myndi ég hreint ekki lá Gaddafi gamla þó hann tæki Kondólessu hryjuverkaskufsu til kostanna og sneri hana úr hálsliðnum eins og gæsastegg.  
mbl.is Rice vonast til að heimsækja Líbýu innan skamms
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sælir eru fátækir!

... Frá fornu fari var kristindómurinn andvígur auðsöfnun. Því mætti ætla, að kristindómurinn væri lítt þénanlegur borgaralegu þjóðfélagi, þar sem markmið borgaralegrar auðsöfnunar er ekki fullnæging mannlegra þarfa, heldur blátt áfram meiri auðsöfnun! Ekkert er fjarlægara félagslegum hugsjónum borgaralegs þjóðfélags en linkind Faðirvorsins gagnvart skuldunautum. Ekkert er óskyldara gróðasótt auðvaldsins, en bænin um vort daglega brauð. Og ekkert er lengra frá því manngildi, er borgaralegt þjóðfélag hefur gert að félagshugsjón sinni en blessunarorð Fjallræðunnar: Sælir eru fátækir! Það er því auðsætt, að kristindómurinn hefur misst mikils af þrótti sínum og ferska, frumræna krafti, er hann gerðist andleg stoð og stytta mammonismans.

Messuvín frá Agli Skallagrímssyni.

Hvort víngleði í hóf gleðji mannsins hjarta skal ósagt látið. Þá skal ekki, að þessu sinni, felldur um það dómur hvort öl sé innri maður, eða hvart það sé annar maður, eins og sumir halda fram. Aftur á móti fékk síra Baldvin þá bjargföstu flugu í höfuðið, að allt áfengi væri vélabrögð Andskotans, enda væri Andskotinn einlægt dauðadrukkinn og vitlaus. Þessa kenning setti klekur oftlega fram í prédíkunarstóli við gífurlegan fögnuð sóknarbarna hans. Trúr sinni sannfæringu gjörði síra Baldvin messuvín útrækt úr helgidómi sínum, og þegar hann tók til altaris skenkti hann fólki abelsín frá Ölgerðinni Egill Sakallagrímsson h/f. Utansóknarmönnum þótti þetta fyrirkomulag óviðfelldið og til skammar væri að bera fram blóð lausnarans í líki ropvekjandi sykurvatns. En síra Baldvini varð ekki hagga, enda staðfastur í lund.

Úrkynjaður sjálfstæðismaður á fylliríi.

Það verður að teljast mikil fétt þegar blindfullur úrkynjaður kapítalisti kaupir vínföng á nokkrum klukkustundum, til neyslu á staðnum, fyrir sem svarar 5-6 verkamannalaun með yfirvinnu og bónusi á Íslandi. Svona frammstaða þykir sjálfstæðisflokksmönnum hérlendis ákaflega ,,grand" eins og það er kallað á flottræfilsháttarmáli.

En því miður fer ætíð sem fer þegar vínföng eru annars vegar, hvort heldur það er eðal kampavín eða koggi og kardó, þetta endar sem sama tegundin í klósettinu eða hlandskálinni.


mbl.is Keypti drykki á barnum fyrir 13 milljónir kr.
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kyndug og stórhlægileg undirskriftasöfnun.

Það að liðið, sem heldur með umhverfisspjöllum og auknum ítökum alþjóðlegra auðvaldsfyrirtækja á Ísland, skuli kveinka sér eins og stungnir grísir undan Saving Iceland bendir eindregið til að aðgerðir samtakanna eru að virka. Og að þetta auðvaldsdindlalið skuli láta sig hafa, að efna til undirskriftasöfnunar gegn aðgerðum jafn ágætra samtaka og Saving Iceland er í senn kyndugt og stórhlægilegt, og jafnast á við að óska eftir því við góðann knattspyrnumann að hann láti sníða af sér a.m.k. annann fótinn svo hann skori ekki eins mikið af mörkum.

Áfram félagar í Saving Iceland á sömu braut, þið virðist vera á réttri leið.  


mbl.is Áskorun til Saving Iceland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni og blábjánarnir í eyjagangaleik.

Ég er velta fyrir mér hvernig á því stendur að verið sé að eyða stórfé í könnun vegna gerð jarðganga til Vestmannaeyja. Það getur varla verið að þeir sem að þessum heimskupörum standa af hálfu ríkisins séu með réttu ráði - mér finnst eiginlega flest, ef ekki allt, benda til að svo sé ekki. Ef að Árni Johnsen og einhverjir blábjánar sem að honum standa hafa í alvöru áhuga á jarðgöngum milli lands og Eyja væri réttast að þeir borguðu umrædd göng úr eigin vasa en láti það vera að blanda sameiginlegum sjóðum landsmanna í þann fávitaskap. 


mbl.is „Álitamál hvort göng til Vestmannaeyja séu réttlætanleg"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband